Heimurinn er að breytast, hann mun breytast og hann verður að breytast.
Því ef hann gerir það ekki, þá munu vandamálin ríða okkur á slig.
Því hinar gömlu aðferðir í hinum gamla heimi, þær munu ekki duga gegn hinum mest aðkallandi vandamálum sem við stöndum frammi fyrir.
Hver eru þau vandamál?
Flóttamannastraumur?
Nei. Í sjálfu sér er flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi og öðrum Mið-Austurlöndum ekki stórkostlegt vandamál. Fimm milljón flóttamenn hafa yfirgefið Sýrland. Ef þeim fjölda yrði deilt af sanngirni niður á önnur lönd myndu fæst þeirra einu sinni taka eftir hinum nýkomnu.
Flóttamannastraumurinn er auðvitað hryllingur fyrir fólkið sjálft sem þarf að leggja á flótta, en sá fjöldi er ekki meiri en svo að strax og vilji verður fyrir hendi bæði hjá nágrannaríkjum Sýrlands og Evrópuríkjum, þá verður hægt að finna bærilega lausn.
Eru þá hryðjuverk íslamista hættulegasta vandmál samtímans?
Fjarri fer því.
Hryðjuverk eru skelfileg fyrir það fólk sem fyrir þeim verður, en þrátt fyrir allt er fjöldi þeirra – sérstaklega í Evrópu – svo lítill að hryðjuverk mælast varla á listum yfir dánarorsakir. Auðvitað á að ráðast gegn hryðjuverkahópum með öllum þeim lögregluaðgerðum sem þarf og ekki brjóta í bága við almennar mannréttindareglur, en að segja að hryðjuverk séu helsta vandamál Vesturlanda er beinlínis fáránlegt.
Enda er því helst haldið fram af þeim sem vilja nota hryðjuverkahættuna sem afsökun fyrir því að skerða mannréttindi og/eða skipta sér með ruddafengnum hætti af málum Mið-Austurlanda, þaðan sem íslamistarnir koma.
Og í viku eins og þessari er alveg sérstaklega hlálegt að belgja sig út yfir hinni miklu hryðjuverkaógn sem steðji að Vesturlöndum. Því nú síðustu daga hafa mörg hundruð manns látið lífið í grimmilegum sprengjuárásum í Bagdad og þær fregnir vekja ekki áhuga nokkurs manns hér um slóðir.
Engir aukafréttatímar í sjónvarpinu, engir þjóðarleiðtogar í samstöðugöngu, við lyftum varla annarri augabrúninni.
Hvers vegna? Ef svo margir hefðu fallið 2.000 kílómetrum vestar – í Aþenu, en ekki Bagdad – þá værum við miður okkar. En það eru Írakar sem falla, þá látum við okkur það einu gilda.
Það er í fyrsta lagi kaldrifjuð hræsni en líka merki um að innst inni vitum við að þótt örlög fórnarlambanna séu hörmuleg, þá skipta svona árásir ekki verulegu máli til lengdar.
Ekki þegar málið snýst um velferð alls mannkynsins.
Efling afturhaldssamrar þjóðernishyggju er meira vandamál og alvarlegra en hryðjuverkaógnin.
„Það er enginn sérstakur munur á að trúa á tilvist hins eina rétta guðs og að trúa á tilvist hinnar einu réttu þjóðar.“
Í fyrsta lagi af því að þjóðernishyggja er svo heimskuleg, og það er dapurlegt að sjá fólk verða heimsku og fáfræði að bráð. En í öðru lagi af því að þjóðernishyggja – sem hefur í för með sér aukna einangrunarstefnu og minni samvinnu hópa og þjóða og ríkja – hún getur unnið mikinn og raunverulegan skaða á tilraunum okkar til að sigrast á þeim vandamálum sem í reynd eru mest aðkallandi.
Í þessu sambandi er rétt að geta þess að uppgangur nasisma á Vesturlöndum (best að tala enga tæpitungu um að nasismi ER nasismi og ekkert annað) og uppgangur íslamista í Mið-Austurlöndum eru bara tvær hliðar á sama peningnum.
Það er enginn sérstakur munur á að trúa á tilvist hins eina rétta guðs og að trúa á tilvist hinnar einu réttu þjóðar.
Hvort tveggja er merki um ótta, afturhald og löngun til að búa til einfaldan, skýran óvin þegar við blasa erfið og flókin vandamál.
Bæði nasistar og íslamistar beita sömu vopnunum og markmið þeirra eru hin sömu.
Búa til heim þar sem „við“ berjumst hinni göfugu baráttu gegn „hinum“.
Báðir hópar eru með Masada-komplex á háu stigi: Barist skal fram í rauðan dauðann gegn ógnarlegum óvini og fyrr skulu allir dauðir liggja en lúffa á nokkurn hátt.
En hver eru þá hin raunverulegu vandamál sem rykmökkur hryðjuverkaógnar og þjóðernishyggju skyggir á?
Vaxandi ójöfnuður.
Mannkyninu fjölgar sífellt en ójöfnuður hefur aldrei verið meiri. Örlítill hluti mannkynsins „á“ meirihluta allra eigna. Að vissu leyti hefur alþjóðavæðing aukið ójöfnuðinn, en nú þegar aukinn vilji fólks virðist kominn á kreik um að nota aukna samvinnu þjóða til að sporna gegn þessum ójöfnuði, þá er spyrnt við fæti. En það má ekki gerast. Haldi ójöfnuðurinn áfram að vaxa munu stríð brjótast út, en þau verða innan ríkja, ekki milli þeirra.
Og loftslagsváin.
Síðastliðinn apríl-mánuður var sá heitasti í sögunni. Og sá maí-mánuður sem nú er að líða stefnir líka í heimsmet. Þetta verður að leysa, og það verður aðeins gert með stóraukinni alþjóðlegri samvinnu.
Smákóngar og þjóðernisofstopamenn munu hins vegar berjast af hörku gegn öllu sem virðist líklegt til að auka samvinnu.
En við þurfum að leysa þessi vandamál saman, og ekki láta afvegaleiða okkur.
Við erum ein þjóð.
Athugasemdir