Vinsæll starfsmaður hlustar á vinnufélagana, hrósar þeim, umgengst háa sem lága af sömu virðingu, er greiðvikinn, heldur uppi húmornum og er jákvæður og bjartsýnn! Hvern langar ekki til að vera svona?
Það er bara ekki alltaf svo auðvelt, erfið úrlausnarefni geta tekið á taugarnar. Ekki eru tillögur vinnufélaganna alltaf gæfulegar og sumir virðast helst alltaf vilja vera í fýlu …
Sem betur fer eru hlutirnir sjaldnast svo flóknir. Flest fólk meinar vel (að minnsta kosti inn við beinið), og ef maður einsetur sér að gera ráð fyrir því – þar til annað kemur í ljós – er auðveldara að sýna velvild, gera andrúmsloftið létt og hvetjandi.
Þegar verkefnin eru komin í hnút, allir orðnir slyttislegir og uppgefnir, getur óvænt tiltæki hresst upp á mannskapinn, til dæmis: „Nú er nóg komið af þessu gaufi, ég er farinn að kaupa ís á línuna!“ Eins gott að blikka yfirmanninn fyrst, en hann er örugglega til í það, ef hann hefur smá húmor. Föstudagskaffið er svo klassískt til að halda uppi góðum starfsanda. Kíkjum á nokkur atriði til að halda honum léttum. Þau virðast sjálfsögð, en gleymast stundum í önn dagsins.
1 Stundvísi gerir kraftaverk
Vinur minn sagði mér frá ágætri aðferð sem hann kynntist þegar hann fór til Tókýó á ráðstefnu. Hann spurði í móttöku hótelsins hversu löng gönguleiðin á ráðstefnuna væri og hótelþjónninn svaraði að hún tæki um 15 mínútur, en í ljós kom að ráðstefnan var í næsta húsi. Japanir (að minnsta kosti sumir) reikna sem sagt tímann frá því að maður stendur upp, fer í yfirhöfn, bíður eftir lyftunni og svo framvegis þar til maður er mættur á áfangastað, tilbúinn og sestur. Snjöll aðferð fyrir óstundvísa, flestir hafa nefnilega nóg annað við tímann að gera en að eyða honum aðgerðarlausir í að bíða eftir öðrum.
2 Leysum verkefni sem við tökum að okkur fljótt og vel
„Annað hvort tekur maður eitthvað að sér og gerir það vel, eða sleppir því,“ er eitt af mottóunum hans pabba. Best er að hugsa sér að maður sé að keppast við að gera sitt besta, ekki af samkeppni við aðra. Annars finna vinnufélagarnir metnaðarfnyk og það er ekki alltaf vinsælt. Samviskusemi kunna allir að meta, fáum er þakklæti í huga ef þeir þurfa að taka að sér verk af því að lati starfsmaðurinn kemur sér alltaf undan því á dularfullan hátt. Það er líka þreytandi ef starfsfélagar slá slöku við þegar yfirmaðurinn er ekki nálægt.
3 Skilum því sem við fáum lánað á réttum tíma eða fyrr
Einu sinni lánaði ég nótur og lenti í vandræðum því að ég þurfti að nota þær fyrr en ég ætlaði og var ekki með þær í tölvunni. Ég varð mjög glaður þegar ég sá þær sama dag í hólfinu mínu, í plasthylki með slaufu utan um og litlu þakkarkorti. Svona lítil uppátæki geta kallað fram bros í önnum hversdagsins, þegar það á við.
4 Tefjum ekki fólk þegar það er að einbeita sér eða er á hraðferð
Margir kannast við hve óþægilegt getur verið að vera niðursokkinn þegar einhver veður að og ber upp lítilfjörlegt erindi fyrirvaralaust eins og um neyð sé að ræða. Forðumst vaðal, flaut og gaul. Þeir sem vilja hlusta á tónlist í vinnunni, geta spurt hvernig það leggst í mannskapinn, eða notað heyrnartól. Í opnu rými er svo best að setja símann á titrara.
5 Skiljum kvart og kvein eftir úti
Auðvitað sýna allir samúð þegar vinnufélagi á við mikla erfiðleika að etja og er augljóslega langt niðri, til dæmis við fráfall ættingja eða greiningu á sjúkdómi. Sumir hafa hins vegar tilhneigingu til þess að taka persónuleg vandamál sín með sér í vinnuna, þó að þau virðist lítilfjörleg miðað við það sem aðrir eiga við að stríða. Um leið og slíkir einstaklingar nálgast, má fara nærri um hvert viðkvæðið verður: „Ooo, hvað þetta er erfitt,“ eða: „Alltaf þetta skítaveður.“ Kunningi minn spyr frú vandamál.is stundum strax hvað hafi nú gerst skemmtilegt hjá henni … Hún tekur því reyndar býsna vel!
Létt andrúmsloft á vinnustað er gulls ígildi. Ef við munum að við berum jafnmikla ábyrgð á því og hinir, getum við haft áhrif til hins betra. Annars getum við þurft að skipta um vinnustað, en ef við höfum einkunnarorðin: virðingu, tillitssemi og hreint andrúmsloft í huga, gerum við að minnsta kosti okkar besta svo að til þess þurfi ekki að koma. Stundum þarf ekki mikið til, skyldi það til dæmis fara í taugarnar á einhverjum hvernig ég geng um eldhúsið eða klósettið?
Gangi okkur vel.
Athugasemdir