Ég hafði bara ekki áttað mig á þessu. Hvað það virðist liggja sterkur þráður á milli Ísraels og Íslands. Mér leið satt að segja eins og ég byggi í Bandaríkjunum, að Ísland væri 51. fylkið þegar þetta mál með viðskiptabann borgarstjórnar Reykjavíkur gegn Ísrael sprakk framan í andlitið á okkur. Þvílík bomba, þvílíkt púður, heift og reiði sem blossuðu upp. Pólitík á sterum. Lengst úti í Atlantshafi, þúsundum kílómetra frá botni Miðjarðarhafs varð allt vitlaust vegna átaka Gyðinga og Palestínumanna og ákvörðunar borgarstjórnar að sniðganga vörur frá Ísrael. Hvað segir þetta okkur? Jú, að heimurinn hefur minnkað, hann er orðinn svo lítill að halda mætti að þessi tvö svæði, eyjan Ísland og botn Miðjarðarhafs hafi sameiginleg landamæri.
Þeir sem fylgjast með alþjóðamálum vita ef til vill að það er eitthvað til sem heitir „the jewish lobby“ eða það sem hér er kallað Gyðingalobbíið. Þetta fyrirbæri ber nánast höfuð og herðar yfir önnur lobbý, það er að segja hagsmunasamtök. Gyðingalobbíið berst fyrir og ver (með kjafti og klóm) hagsmuni gyðinga hvar sem er í heiminum. Meira að segja á Íslandi. Hagsmunavarslan hefst strax og einhver gagnrýni er sett fram gagnvart Gyðingum eða þeim finnst unnið gegn sér á einhvern hátt. Fyrrum fjármálaráðherra Ísraels kom með innblásna grein í Fréttablaðið og meira að segja bankastjóri eins af stóru bönkunum blandaði sér í málið vegna hræðslu um framtíð hótelbyggingar við Hörpu.
Það er hægt að halda langar ræður og skrifa miklar greinar um þetta fyrirbæri og reyna að leita skýringa. Ofsinn og fjandskapurinn, sem leystist hins vegar úr læðingi við þessa tillögu borgarstjórnar, sem flestir viðurkenna að hafi verið illa unnin og stjórnsýslulegt klúður, var slíkur að þetta var eins og varpað hafi verið sprengju inn í íslenskt samfélag. „Hægrið“ stökk til og kastaði sér á borgarstjóra og meirihlutann. Ráðherrar lýstu yfir vanþóknun sinni og sögðu borgarstjórn fyrir verkum. Og nasisminn var að sjálfsögðu hafður með (í boði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins) enda Gyðingar fórnarlömb Helfarar Hitlers og ekki skal gert lítið úr því, þvert á móti er Helförin mesti glæpur mannkynssögunnar, fyrr og síðar.
Árásarstjórnmál
Þetta mál sýnir okkur ef til vill að íslensk stjórnmál eru sífellt að verða harðari og að færast úr því sem í stjórnmálafræðum hefur hingað til verið kallað klassísk „átakastjórnmál“ yfir í það sem ég vil kalla „árásarstjórnmál“. Það er beðið eftir því að andstæðingurinn geri mistök og þegar það gerist er blásið til kröftugrar árásar.
En nú frá borginni við sundin yfir til Ísraelsríkis. Það er nýorðið 65 ára gamalt en allan þennan tíma hafa geisað átök á milli Ísraela og nágranna þeirra. Stanslaust stríð, sem kostað hefur tugþúsundir mannslífa, örkuml og gríðarlega eyðileggingu. Fyrir nú utan allt fjármagnið sem sett er í þetta.
Gagnkvæm gereyðing og meira til
Aðferðir Ísraelsmanna minna að mörgu leiti á öfgakennda útgáfu af kaldastríðshugtaki sem kallað er MAD. Á ensku stendur það fyrir „mutually assured destruction“ eða það sem á íslensku gæti útlagst sem „gagnkvæm gereyðing“. Hugtakið vísar til þess að ef til dæmis Sovétmenn (Rússar) hefðu ráðist á Bandaríkin með kjarnorkuvopnum, þá hefðu Bandaríkin svarað í sömu mynt og „tryggt“ að ekki hefði staðið steinn yfir steini í borgum Sovétríkjanna. Þetta átti að halda aftur af mönnum og var hluti af því sem kallað var „ógnarjafnvægi“ í heimsmálunum.
Fosfór gegn almenningi
Í átökum Ísraels og Palestínu ríkir hins vegar ekkert ógnarjafnvægi, heldur hrein og klár ógn. Hún birtist meðal annars þannig að ef Palestínumenn skjóta heimagerðum eldflaugum yfir til Ísraels (sem valda yfirleitt mjög takmörkuðu tjóni) þá sendir Ísraelsher bandaríska F-16 orrustuþotu, sem sprengir upp heila íbúðarblokk eða heilt íbúðahverfi. Eða gerð er stórfelld fallbyssuárás. Í sem stystu máli má líkja átökunum við leik kattarins að músinni, þar sem Ísrael hefur besta og tæknivæddasta herbúnað sem völ er á, meðal annars eldflaugavarnarkerfi, „Járnskjöldinn“ (Iron Dome) sem á að skjóta niður eldflaugar. Ísraelsmenn hafa líka gert sig seka um notkun á fosfór-sprengjum gegn almennum borgurum, sem eitthvað það skelfilegasta sem til er. Þennan búnað fá þeir meðal annars í gegnum gengdarlausa hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum.
Bandarískur hlífiskjöldur
Það er of langt mál að fara út í einstök atriði í þessum ömurlegu átökum, sem engin leið virðist vera til að enda. Ísrael hefur hins vegar fengið á sig gríðarlega gagnrýni fyrir framferði sitt frá fjölmörgum aðilum, meðal annars mannréttindasamtökum. En nánast allar tilraunir til þess að álykta með gagnrýnum hætti gegn aðgerðum Ísraels í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafa verið stoppaðar af Bandaríkjunum. Það er alveg sér kafli í þessu öllu saman. Hins vegar tala tölur ákveðnu máli um þann grimma veruleika sem blasir við að loknum stríðsátökum við Ísrael. Flestar þessara talna fela í sér mannfall meðal hermanna og almennra borgara, þó mun meira af almennum borgurum til dæmis hjá Palestínumönnum.
Tífalt meira flutt inn frá Ísrael
Viðskipti Íslands og Ísraels eru með minnsta móti. Í fyrra flutti Ísland út vörur til Ísraels fyrir um 81 milljón króna samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Á móti flutti Ísland inn vörur frá Ísrael fyrir tæplega 800 milljónir. Mest af þessum vörum eru snyrtivörur, krydd og þess háttar. Talið er víst að Reykjavíkurborg sé ekki í miklum viðskiptum við Ísrael og tilgangur tillögu um viðskiptabann var fyrst og fremst að senda skilaboð til ráðamanna í Ísraels, sem hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir framferði sitt á hernumdum svæðum í Palestínu. Þar hefur verið reistur múr sem er um 700 kílómetra langur og er að mestu leyti tveggja metra há rafmagnsgirðing, en einnig um átta metra hár steinsteypuveggur. Þetta er dýrasta framkvæmd í sögu Ísraels og hefur nú þegar kostað yfir 10 milljarða dollara. Markmiðið er að halda ætluðum hryðjuverkamönnum frá Ísrael. Mun framkvæmdin hafa mjög mikil áhrif á íbúa Vesturbakkans, þegar henni er lokið.
Börnin henda brauði - börnin henda grjóti
Það vakna margar spurningar um þetta mál sem eru áhugaverðar: Hvað koma margir ferðamenn hingað á ári frá Ísrael og eða hvað eru margir Ísraelsmenn sem ferðast hingað? Nam tjónið sem menn segja að hafi orðið milljónum, tugum milljóna? Hvað voru margar afbókanir og hve margir urðu reiðir út í „litla saklausa“ Ísland? Hvar fást tölur um það? Mega borgarstjórnaryfirvöld ekki hafa samvisku og ekki fjalla um svona mál? Hver bannar það? Stendur það í stjórnarskránni? Ef borgarstjórn má ekki skipta sér af utanríkismálum, hvers vegna má forsetinn það? Hver leyfir og leyfir ekki í málum sem þessum?
Svo virðist sem málinu sé ekki alfarið lokið. Í viðtali við Viðskiptablaðið um miðjan október sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að það væri ekki útilokað að ný tillaga í málinu kæmi fram. Hann gaf það sterklega í skyn að Reykjavíkurborg myndi hafa (og hefði) samráð við til dæmis Kaupmannahafnarborg og utanríkisráðuneytið. Það má því búast við að það verði tekinn annar „skver“ á þessu máli í gráa húsinu við Tjörnina, þar sem svanir synda um tignarlega og ungabörn kasta brauði í endur. Í Palestínu henda börnin hins vegar steinum að ísraelskum hermönnum, gráum fyrir járnum. Skarpari andstæður er varla hægt að hugsa sér.
Athugasemdir