Fyrir mörgum árum síðan vildu yfirvöld stuðla að aukinni líkamsrækt þjóðarinnar. Blásið var til heilsuræktarátaks með tilheyrandi fjölmiðlaauglýsingum og innihaldslausum ráðherraávörpum. Ákveðið var að biðja þjóðina að gefa átakinu nafn áður en hafist væri handa. Þá var fjandinn laus. Allir höfðu skoðun á nafngiftinni. Menn vildu kalla þetta trimm, þjálf, hjartavara, heilsuátak, sprikl etc. etc. Rifist var um allt samfélag, mikið skrifað og fjölmargir lærðir menn spurðir álits. Norrænudeild Háskólans og Árnastofnun höfðu ákveðna og rétta afstöðu. Meðan á þessum hamagangi stóð gleymdist heilsuátakið. Enginn hreyfði sig úr sporunum enda voru allir svo uppteknir við að finna nafn á átakið. Svona er íslensk þrætubókarlist. Tilgangurinn gleymist í orðavaðli.
Sama er að gerast með Landspítalann. Allir eru sammála um húsnæðisvandræði spítalans og að úrbóta sé þörf. Menn geta bara ekki komið sér saman um staðsetningu spítalans. Endalaust er rifist og ekkert gerist varðandi endurbætur. Þetta er þörf umræða og nauðsynleg enda er þrætubókarlist hluti af þjóðararfinum sem við skulum vera stolt af. Ég vil leggja orð í þennan belg og kem með nokkrar tillögur.
Spítalinn verði byggður undir flugvellinum í Vatnsmýri. Jarðvegurinn er gljúpur svo að sennilega mætti byggja 8 hæða stórhýsi neðanjarðar. Þetta mundi leysa mörg vandamál. Byggingarlóðin í Vatnsmýrinni væri þá nýtt til fulls. Flugvöllurinn fengi að standa óhreyfður. Tími í sjúkraflugi mundi styttast því að flugvélar lentu á þaki spítalans. Ferðatími lækna á ráðstefnur mundi líka styttast. Gamla Landspítalanum yrði breytt í flugstöðvarbyggingu og hótel.
„Spítalinn verði byggður undir flugvellinum í Vatnsmýri. Jarðvegurinn er gljúpur svo að sennilega mætti byggja 8 hæða stórhýsi neðanjarðar.“
Í málum sem þessum eru keðjulausnir sérlega hagkvæmar þar sem ein bygging víkur fyrir annarri sem víkur fyrir annarri. Íþróttahreyfingin er ósátt við aðstöðuna í Laugardal. Byggja þarf nýjan þjóðarleikvöll eftir að landsliðið tapar ekki nema öðrum hverjum leik. Góð hugmynd væri að rífa allar byggingarnar í Laugardalnum og flytja spítalann þangað. Nýr leikvangur gæti risið á Sandskeiði. Með íslensku hugviti væri hægt að koma því svo fyrir að íslenska liðið væri alltaf með vindinn í bakið. Landspítalabyggingarnar við Hringbraut væru rifnar og skrifstofur íþróttahreyfingarinnar risu í staðinn. Þetta mundi skapa mikla atvinnu fyrir erlendar starfsmannaleigur í byggingariðnaðinum.
Flytja spítalann og Reykjavík með honum austur fyrir fjall til dæmis á strjálbyggð svæði í Flóanum. Þetta mundi leysa mörg vandamál og styðja við jafnvægi í byggð landsins. Ríkisstjórnin vill flytja störf frá Reykjavík út á landsbyggðina. Það væri gert af stórhug og stefnufestu með því að flytja Reykjavík út á land.
Flytja spítalann og alla landsmenn með honum til Noregs. Hægt væri að fjármagna þennan flutning með því að selja Ísland og kaupa nýja lóð í Norge. Það fé sem fengist fyrir landið mundi duga þjóðinni til lífsviðurværis í 2-3 ár þegar búið væri að greiða eðlileg umboðslaun til stjórnmálaflokka og bankamanna. Þetta hefur marga kosti. Margir hafa áhyggjur af flótta lækna og hjúkrunarfræðinga til Noregs. Með þessum ráðstöfunum væri bundinn endir á þann flutning heilbrigðisstarfsmanna.
Þetta eru allt frábærar tillögur og vel til þess fallnar að viðhalda deilunum. Með tilheyrandi arkitektavinnu, útboðum, grenndarkynningu og íbúakosningu má tefja allar framkvæmdir við nýjan spítala í að minnsta kosti 100 ár. Þá er hægt að hefjast handa með þýskum verktökum og pólsku vinnuafli.
Athugasemdir