Mér verður enn hugsað til viðbragða samfélagsins við fregnum af uppreist æru tiltekins einstaklings í nýliðnum janúarmánuði. Hlutaðeigandi, sem lokið hefur afplánun sinnar refsingar fyrir manndráp af ásettu ráði, var þar með gert kleift að taka að nýju fullan þátt í samfélaginu. Hið alvarlega og óafturkræfa brot viðkomandi mun hins vegar aldrei afmást af sakaskrá hans.
En hvers vegna varð þessi gjörningur innanríkisráðuneytisins uppspretta jafn mikillar reiði innan samfélagsins og raun bar vitni? Í mínum huga er rótgrónum vanda um að kenna sem fólginn er í því að samfélagið treystir því ekki að einstaklingum sé skilað út í samfélagið sem betri og gegnum þegnum að lokinni fangelsisrefsingu.
Við sem samfélag siðaðra manna höfum sett okkur ákveðnar leikreglur í formi laga þar sem við gerum grein fyrir því hvað má og hvað er bannað. Fari menn svo út af hinum þrönga vegi dyggðarinnar, sem við höfum lagt með leikreglum okkar, kann að liggja fangelsisrefsing við því. Við höfum ákveðið að dómstólar dæmi í kjölfarið um það, í sérhverju sakamáli sem til þeirra ratar, hvort einstaklingur skuli sæta refsingu og þá jafnframt hversu þung sú refsing skuli vera.
Samfélagið treystir því ekki að einstaklingum sé skilað út í samfélagið sem betri og gegnum þegnum að lokinni fangelsisrefsingu.
Einstaklingur sem dæmdur er til fangelsisrefsingar hefur brotið reglur samfélagsins og hefur þar með um leið drýgt brot sem samfélagið átelur siðferðislega. Í ljósi þess er vert að huga að því hvernig við sem samfélag lítum á þá refsingu sem tekur við að uppkveðnum dómi.
Rannsóknir hafa sýnt að þolendur afbrota vilja ekki endilega vita til þess að hinn brotlegi hljóti þunga refsingu með dómi um sekt hans lögum samkvæmt. Þeir vilji heldur vita til þess að sú fangelsisvist sem tekur við að dómi uppkveðnum komi í veg fyrir að hinn dæmdi brjóti af sér á nýjan leik.
Þetta er einmitt punkturinn sem ég velti fyrir mér hér. Ég er þeirrar skoðunar að við sem samfélag eigum ekki að hugsa um hefnd eða þyngd refsingar þegar einstaklingar eru dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir afbrot. Ég tel að við ættum að fremur að leitast við að hugsa um fangelsisrefsingu sem úrræði til betrunar dæmdra manna.
Ef unnt væri að fullvissa íslenska samfélagið um það að í fangelsum hérlendis væru til staðar raunhæf úrræði til þess að endurhæfa dæmda menn, þá ætla ég að meiri sátt myndi ríkja í garð einstaklinga sem lokið hafa sinni afplánun. Þá í skjóli þess trausts að fangelsiskerfið hafi komið þeim sem betri og gegnum einstaklingum út í samfélagið að lokinni fangelsisrefsingu.
Föstudaginn 29. janúar síðastliðinn sat ég málfund sem bar yfirskriftina „Fangelsisvist: Betrun eða niðurrif?“ Frummælandi þar var Knut Storberget, þingmaður norska Verkamannaflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs. Erindi hans fjallaði um gagngera endurskipulagningu á norska fangelsiskerfinu í hans ráðherratíð og var reglulega áhugavert.
Vinna við endurskipulagninguna hófst árið 2007 og fól í sér innleiðingu á betrunarstefnu í norska fangelsiskerfinu. Árangur af stefnubreytingunni lofar mjög góðu enn sem komið er, en endurkomutíðni í fangelsi í Noregi er mjög lág og hefur farið lækkandi. Hugmyndafræði norsku betrunarstefnunnar miðar að því að vistun einstaklinga í fangelsi tryggi farsæla endurkomu þeirra út í samfélagið að afplánun lokinni. Liður í því er að tryggja einstaklingsbundin úrræði fyrir fanga, þar sem boðið er upp á menntun, starfsþjálfun og vímuefnameðferðir, svo eitthvað sé nefnt. Þá er lögð áhersla á opin fangelsi fremur en lokuð öryggisfangelsi. Jafnframt er lögð áhersla á að einstaklingum standi til boða öruggt húsaskjól að afplánun lokinni og jafnvel atvinna eða nám. Sveitarfélögin og frjáls félagasamtök taka þar við af ríkinu.
Af pallborðsumræðum í kjölfar erindis frummælandans mátti hins vegar skilja að betrunarstefnu í fangelsum hér á landi sé verulega ábótavant. Fangelsiskerfið sé einfaldlega of fjársvelt til þess að geta staðið fyrir nauðsynlegum úrræðum til betrunar fanga. Ástandið sé í raun svo slæmt að ekki sé hægt að tala um það yfir höfuð að betrun fanga fari fram innan veggja íslenskra fangelsa í dag.
Þetta er umhugsunarvert nú þegar frumvarp til nýrra laga um fullnustu refsinga er til umræðu á Alþingi. Þar er einkum gerð grein fyrir úrræðum til fullnustu refsinga, en það mótar ekki fyrir neinni betrunarstefnu á grundvelli frumvarpsins. Það vakti raunar sérstaka athygli mína að í frumvarpinu er hvergi minnst á betrun, ekki einu orði. Engu að síður tel ég einsýnt að málaflokkurinn þarfnist gagngerrar endurskipulagningar ef ætlunin er sú að endurhæfa fanga hér á landi meðan á fangelsisvist stendur og jafnvel að henni lokinni. Á sama tíma er ljóst að engin betrunarstefna er raunhæf á meðan málaflokkurinn er fjársveltur.
Athugasemdir