Samfylkingin er að kjósa sér nýjan formann. Ég gekk einu sinni í Samfylkinguna til að kjósa einhvern álitlegan kandídat í prófkjöri og þess vegna fæ ég nú reglulega boð í tölvupósti frá frambjóðendum um að ég ætti að kynna mér sjónarmið þeirra. Ég hef líka fengið eitt, tvö símtöl frá stuðningsmönnum að minnsta kosti eins frambjóðanda. Ég á í svolitlum vandræðum með þessar hvatningar, því ég þykist fyrir nokkru vera búinn að fá mig fullsaddan af Samfylkingunni sem stjórnmálaafli. Kannski tekst nýjum formanni að blása lífi í flokkinn, hvað veit ég? En jafnvel þótt það gerist ekki og ég kjósi því ekki endilega Samfylkinguna í kosningum í haust, þá finnst mér hreint ekki óeðlilegt að fá að hafa áhrif á flokkinn með atkvæði í formannskjörinu.
Ég var líka einu sinni skráður í Sjálfstæðisflokkinn af stuðningsmönnum tiltekins frambjóðanda í prófkjöri og síðan mætti ég lengi vel samviskusamlega í prófkjör flokksins og greiddi atkvæði. Ég kaus alltaf sama frambjóðandann í efsta sætið. Síðast þegar ég mætti í Valhöll í prófkjör, þá var mér hins vegar ætlað að borga félagsgjöld og þá ákvað ég að segja afskiptum mínum af Sjálfstæðisflokknum lokið í bili.
En ég hef líka kosið í prófkjöri Vinstri grænna, þótt það hafi reyndar ekki heitið „prófkjör“ heldur eitthvað töluvert púrítanískra en það ef ég man rétt.
Einhvern tíma hefði það verið talin hin mesta goðgá að viðurkenna að vera skráður í fleiri en einn stjórnmálaflokk og kjósa í prófkjörum þeirra allra. Flokkarnir voru eins konar kirkjur utan um hver sinn guð, og að halda framhjá flokknum var litið mun alvarlegri augum en að halda framhjá maka sínum. „Flokkaflakkari“ var talið fyrirlitlegt skammaryrði.
Sem betur fer eru þeir tímar liðnir og ég skammast mín því ekkert fyrir að viðurkenna þetta – að mér finnst eðlilegt að ég fái að hafa áhrif á mannval flokka, þótt svo sé ekkert víst að ég kjósi flokkana í þingkosningum.
(Ég mundi að vísu aldrei kjósa í prófkjöri Framsóknarflokksins. Þar dreg ég mörkin!)
Og nú er ég sem sagt að bræða með mér hvern ég ætti þá að kjósa í formannskjöri Samfylkingarinnar. Það er sorglega komið fyrir þeim flokki, sem var ætlað að vera brjóstvörn frjálslyndra jafnaðarmanna, en hefur á síðustu misserum og árum lokast inni í einhverju undarlegu völundarhúsi þaðan sem engin leið virðist út. Ég nenni ekki að fabúlera um ástæður þess, þótt mér sýnist þær augljósar, en ég ítreka að ég vona að flokkurinn hjarni við. Það væri einfaldlega óeðlilegt ef hér verður ekki í boði í kosningunum í haust trúverðugur valkostur fyrir frjálslynda jafnaðarmenn sem eiga erfitt – af margvíslegum ástæðum – með að kjósa VG.
Við sjáum að það er þung undiralda í pólitíkinni víða um lönd. Í furðu mörgum löndum virðist frjálslyndum öflum ganga alveg bölvanlega að bregðast við uppgangi þjóðernissinnaðra hægriöfgamanna, og hefðbundnir jafnaðarmannaflokkar eru víða í vandræðum – þó hvergi eins og hér. Og það er líka allt í lagi þótt einhverjir flokkar lendi í vandræðum. Við eigum ekki að líta á stjórnmálaflokka sem heilagar kirkjur, heldur eiga þeir að vera tilfallandi skjól utan um hugmyndir og hugsjónir.
Ef Samfylkingin dugar ekki, þá það. Alltaf má fá annað hross og annað föruneyti. Það er margt afar viðkunnanlegt að gerast hjá pírötum. Í kringum forsetaframboð Andra Snæs er líka greinilega mikil kvika jákvæðra hugmynda og orku, sem ég vona að muni nýtast áfram, þótt í bili virðist kannski ekki líklegt að hann sjálfur nái alla leið til Bessastaða.
Þannig að ég hef engar áhyggjur af því að finna ekki einhvern stað á kjörseðlinum í haust sem ég muni geta merkt við með góðri samvisku. Það er líka nauðsynlegt til að sporna gegn þeirri myrku sókn nýfrjálshyggjunnar sem enn og aftur er komin á skrið.
En í bili reikna ég nú samt með að kjósa formann hjá Samfylkingunni og vona að þar takist vel til.
Athugasemdir