Það getur hugsast að ég fari rangt með þetta hugtak, eða tímavillt, en ef ég skil rétt er accelerationism notað á ensku yfir þá stefnu, meðal annars en ekki eingöngu meðal marxista, að keyra kapítalismann áfram af jafn miklum þrótti og kostur er. Halda áfram og gefa í, eins og það var orðað í frægu sjónvarpsviðtali fyrir hrun. Hugsanlega er til eldri íslensk þýðing sem má þá benda mér á, en í bili getum við nefnt þetta hröðunarhyggju og þá sem aðhyllast hana hröðunarsinna.
Hannes og félagar vilja kapítalismann kapítalismans vegna. Hröðunarsinnaðir marxistar, aftur á móti, vilja kapítalismann kommúnismans vegna: ef við höldum áfram og gefum í komi stéttaandstæðurnar fyrr og berlegar í ljós, þar til hið nýja sprettur óhjákvæmilega fram og leysir af hólmi hið gamla og ómögulega.
Á Íslandi ríkir nú hröðunarsinnuð ríkisstjórn. Hún vinnur í þágu kapítalsins án þess að minnast nokkru sinni á frelsi eða slíkar fyrirhrunshugmyndir: hún vinnur í þágu kapítalsins, kapítalsins vegna. Hafi vinstrisinnuðu hröðunarsinnarnir rétt fyrir sér gæti byltingin, þegar fram líða stundir, reynst hafa átt sinn öflugasta bandamann í þessu liði.
Víða hefur nokkuð verið ritað um þá þróun, sem hófst um miðja 20. öld, að verkalýðsstéttum sé svo að segja útrýmt með útbreiðslu háskólanáms: synir og dætur verkalýðsins fóru í háskóla og óðar en þeim tókst að nýta menntun sína til baráttunnar var námið sjálft búið að sjanghæja þau – okkur – úr stéttinni sinni. Ekki alla en nógu marga til að hugtakið braindrain virðist eiga betur við um flutninga milli stétta en milli landa. Ekki að við höfum öll lært jafn ábatasöm fög. Ekki að við höfum öll fyllt íbúðir okkar af mubblum úr Epal eftir útskrift, höfum öll jafn vandaðan smekk fyrir samsetningu á nýju og notuðu, kunnum öll jafn vel við okkur í Vesturbænum, eða höfum sömu tök á íróníu og ráðsettari millistéttarbörn. En við urðum öll ringluð. Á einn eða annan veg – gildismat okkar er meira eða minna í loft upp.
Fleira kemur til. En jafn háðslegt og það hljómar á almenn útbreiðsla háskólamenntunar hugsanlega stærri þátt en sjónvarp, til dæmis, í því forskoti sem yfirstéttir hafa nú í hálfleik stéttabaráttunnar. Sögulega er háskólamenntun þannig sett undir sömu djöflalógík og lífeyrissjóðir, sem hefur þegar verið breytt í skylduáskrift þína að spilavítinu (og já, húsið vinnur alltaf), og heilsugæslan, sem mun drepa þig með innheimtuaðgerðum en eykur böðlunum þrótt: andskotinn finnur leið til að gera beisli, svipu og snöru úr hvaða taug sem er bundin þér til bjargar. Háskólarnir, sem hugmyndin var að gerði mennina frjálsa, eru nú annars vegar geymsla fyrir ungmenni sem annars gætu orðið til vandræða, hins vegar trygging þess að sem flestir eigi sér hag í öðru en uppreisnum og ólátum eftir brautskráningu. Ekki viltu gera þig að fífli.
Hafi íbúar á Íslandi haft tiltölulega jafnan aðgang að námsleiðum síðustu áratugi er núverandi ríkisstjórn staðráðin í að breyta því og skerpa á aðstöðumun ríkra og fátækra í landinu. Endurheimtum þessi orð. Í landinu eru ríkir og fátækir. Fátækt er ekki bara það að vera í götóttum skóm – fátækt er líka, og þetta er jafnvel veigameira, að eygja ekki valkosti um hvað maður gerir næst. Það er leiðinlegt að vera hrakinn úr embætti, jafnvel þó að maður hafi unnið duglega til þess, en þegar síðasti forsætisráðherra fór frá átti hann þúsund valkosti um hvað hann myndi gera næst. Það er það sem milljarður gerir fyrir þig. Og til þess geymirðu hann á Tortóla, að valkostirnir verði sem flestir. Fátækastir eru þeir sem eiga bara tvo valkosti í hverri stöðu. Að halda áfram eða hætta. Tveir valkostir eru yfirleitt í raun bara einn, sá skárri. Þú arkar áfram.
Hröðunarsinnarnir í ríkisstjórninni skerpa nú meðal annars á stéttaandstæðum með breytingum á námslánasjóðnum. Fyrir fátæka og fyrirsjáanlega fátæka verður háskólanám nú verri kostur en það var. Arfleysingjar munu heldur leita í praktískar greinar með sem tryggastar tekjur. Kjaftafögin, sem svo nefnast, munu þá í ríkari mæli vera í höndum þeirra sem hafa efni á að taka sénsinn. Þeir sem leggja ekki allt að veði með námsvali sínu.
Ef þetta er slæmt er það vegna þess að það er bæði óréttlátt og skaðlegt að fulltrúar einnar stéttar eigi orðið. Segi okkur sögu okkar. Velji mikilvægi viðfangsefna, rökstyðji stjórnmálastefnur og lífsskoðanir, skilgreini gildi. Að ein stétt eigi orðið í þessum skilningi er skaðlegt á sama hátt og það hefur gegnum tíðina verið að karlar eigi það einir og konur ekki.
Ef þetta er gott, hins vegar, er það vegna þess að hægri-hröðunarsinnarnir hafi rangt fyrir sér um afleiðingar þrenginganna og þeir vinstrisinnuðu rétt: að skarpari stéttaandstæður þrýsti á um stærri breytingar þar til þær verða óumflýjanlegar. Synir og dætur verkalýðsins hafi klifrað upp í raðhús, megi hafa sig öll við að lafa þar inni og geri heiminum ekkert gagn á meðan en barnabörnin haldi nú aftur heim í kjallarann, þaðan sem vígstaðan sé skýrari og byltingin nær. Með öðrum orðum að leiðin til frelsis liggi gegnum vaxandi ánauð. Það getur hugsast en það er trúaratriði. Fyrir því höfum við engin haldbær sönnunargögn. Þvert á móti lifum við nú tímabil þaðan sem ekki er að sjá nein augljós ytri mörk þess hvað kapítalið getur kreist.
Athugasemdir