Ég man eftir sjálfum mér ungum að árum að lesa í sögubókum um frönsku byltinguna. Hún endaði nú eins og hún endaði, en framan af fór ekki milli mála að hún var hin fegursta.
Frelsi, jafnrétti og bræðralag.
Þetta voru svo falleg orð og svo góðar hugmyndir, hugsaði ég með mér yfir sögubókunum. Og ég man að ég fór út og reyndi að þenja ungæðislegan brjóstkassann þegar ég sagði upp í vindinn:
„Frelsi ...“
Þetta var helgasti réttur mannsins og hans innsta þrá, fannst mér. Orð svo dýrt að þess eru engin dæmi í máli okkar: Frelsið.
En seinna komst ég að því að orðið „frelsi“ merkir reyndar ekki djúpa þrá eftir því að fá að þenja út brjóstkassann óáreittur og ráða sér sjálfur.
Nei, það merkir leyfi til að selja brennivín í matvörubúðum.
Svo mætti að minnsta kosti ætla ef maður leggur sig eftir því að hlusta á málflutning Sjálfstæðisflokksins. Sá flokkur þykist á góðum degi vera málsvari einstaklingsfrelsis og heiðarlegs kapítalisma en í reynd hefur hann alltaf verið ótrúlega hallur undir einokunarkaupskap og helmingaskipti og silfurskeiðadekur, og þarf ekki að hafa um það mörg orð.
En eftir því sem Sjálfstæðisflokkurinn verður hallari undir það þjóðfélag þar sem 62 einstaklingar eiga jafn miklar eignir og helmingur mannkynsins, þá verður mikilvægara fyrir flokkinn að geta veifað þó ekki sé nema einum frelsisfána og þetta er sem sagt hann:
Brennivín í búðir.
(Já, ég veit að það er talað um létt vín og bjór en ekki brennd eða sterk vín, en brennivín er brennivín, það vitum við öll!)
Öll þau ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft brennivín í búðir fyrir grunnfána sinn hef ég ekki nennt að skipta mér af þeirri umræðu. Ég er ákaflega lítill forræðishyggjumaður í eðli mínu og á mjög auðvelt með að sjá og fallast á þau rök sem beitt er, en að sama skapi hef ég líka alltaf léttilega skilið rök hinna sem eru á móti því að áfengi sé selt í matvörubúðum.
Mér hefur kannski alls ekki þótt málið nógu mikilvægt til að ég hefði fyrir því að mynda mér endanlega skoðun.
En af því þetta mál vill ekki lognast út af og deyja sínum áfengisdrottni, þá setti ég mér að lokum það mark að hugsa málið til enda, og komast að því hver sé eiginlega mín skoðun.
Og þá er niðurstaðan sú að ég er á móti því að brennivín sé selt í búðum.
Ástæður eru fáeinar og einfaldar. Sú fyrsta og veigamesta er sú að áfengi er - hvað sem hver segir - ekki venjulegur neysluvarningur sem á heima innan um seríos og kattamat. Fullt af fólki getur vissulega brúkað áfengi sér til gagns og gamans, en fyrir aðra er þetta efni stórhættulegt eitur sem skemmir ekki aðeins þann sem þess neytir heldur varpar líka skugga sínum á alla í kringum hann.
Hvort það eru 15 eða 35 prósent sem enda í meðferð fyrr eða síðar á ævinni - það skiptir ekki öllu máli. Þó það væri lægri talan, þá er hún nógu há til að það fólk eigi ekki að þurfa að kljást við þá freistingu að kippa með sér fáeinum bjórum er það fer að kaupa sér grænar baunir eða mjólk út í kaffið.
Þeir sem berjast fyrir brennivíni í búðir segja gjarnan að það muni ekki auka hættuna á drykkjuslysum þótt léttvín og bjór séu í matvörubúðum. Það er bara bull, og þeir viðurkenna það í raun sjálfir með því að ætla að undanskilja sterk vín (hin eiginlegu brennivín) frá hillum matvörubúðanna. Áfengi í matvörubúðum mun valda slysum og við vitum það öll.
Á hinn bóginn er það alls ekki nein raunveruleg skerðing á réttindum hinna, sem geta drukkið sér til ánægju og gleði, að þeir þurfi að fara í aðra búð eftir búsinu.
Þannig er nú þetta. Hættið nú þessari „frelsisbaráttu“ sjálfstæðismenn og snúið ykkur að einhverju því sem skiptir máli í alvöru.
Frelsi, jafnrétti og bræðralagi.
Athugasemdir