Fyrr í vor, eftir nokkra tugi funda, sendi Stjórnarskrárnefnd frá sér tillögur um breytingar á þremur greinum stjórnarskrárinnar. Þetta var málamiðlun: Eftir að síðasta kjörtímabili lauk án þess að greidd væu atkvæði um frumvarp Stjórnalagaráðs að nýrri stjórnarskrá og meirihlutastjórn andsnúin frumvarpinu komst til valda í kjölfarið, varð ljóst að framtíð þess væri erfið ef nokkur.
En skömmu eftir að nýjar tillögur komu fram og byrjað var að takast á um það af alvöru hvort betra væri að þiggja breytingar á stjórnarskránni af Alþingi eða halda áfram að krefjast þess að drögin frá Stjórnlagaráði yrðu í heild sinni grundvöllur nýrrar stjórnarskrár, misstu stjórnarflokkarnir heldur betur tökin og það varð ljóst að þeim tækist ekki einu sinni að ljúka kjörtímabilinu.
Taflstaðan gerbreytt
Núverandi stjórnarflokkar tönnlast á því að þeir hafi náð miklum árangri. En hver er hann? Við einhverjar bestu ytri aðstæður sem ríkisstjórn hefur notið á síðari tímum hefur henni aðallega tekist að skera niður tekjur ríkisins með hörmulegum afleiðingum fyrir heilbrigðiskerfið í landinu og válegum horfum fyrir menntun og rannsóknastarf. Þrátt fyrir góða kosningu og mikinn meirihluta á þingi hefur stjórnarflokkunum ekki tekist að auka traust almennings á sér og í hverju málinu á fætur öðru sýna ráðamenn ráðaleysi, skilningsleysi á aðstæðum og öll merki spillingar.
Þegar sjálfur forsætisráðherrann hrökklaðist frá eftir einhverja ömurlegustu atburðarás íslenskra stjórnmála fyrr og síðar og í ljós kom að Ísland er eina landið í Norður Evrópu þar sem stjórnmálamenn telja eðlilegt að stofna aflandsfélög og flytja fé úr landi – allt vegna þess að það er „svo erfitt að eiga peninga á Íslandi“ – hlaut jafnvel velviljaðasta fólk að finna kjánahrollinn hríslast um sig.
„Staðreyndin er sú að nýjustu spillingarmálin hér – Panamatenging íslenskra stjórnmálamanna – gerbreytir taflstöðu stjórnarskrármálanna. “
Staðreyndin er sú að nýjustu spillingarmálin hér – Panamatenging íslenskra stjórnmálamanna – gerbreytir taflstöðu stjórnarskrármálanna. Margir voru tilbúnir til að fallast á málamiðlun, vegna þess að það væri mikilvægt að ná fram einhverjum breytingum á stjórnarskrá og reyna að skapa traust og einingu flokkanna um slíkar breytingar. Þetta var til dæmis það sem mér fannst sjálfum fyrir nokkrum mánuðum. En í dag er þessi afstaða varla möguleg. Flokkarnir sem með þessu átti að reyna að ná samkomulagi við hafa einfaldlega misst trúverðugleikann, fyrst með tengingunni við aflandsfélög, svo með viðbrögðum sínum við atburðarásinni, en þau benda ekki til að forystumennirnir skilji til fulls það sem hefur gerst.
Langvarandi áhrif trúnaðarbrests
Það getur tekið fólk tíma að taka inn allar afleiðingar mikils trúnaðarbrests. Stundum verða stórir atburðir í lífi fólks, hjónaböndum eða fjölskyldum, sem hafa ekki aðeins tafarlausar afleiðingar, heldur skapa los til lengri tíma. Það sem gerst hefur í pólitíkinni er sambærilegt. Það er engin ástæða til þess lengur fyrir stjórnarandstöðuflokkana að halda áfram að vinna með stjórnarflokkunum að þeim breytingum sem stjórnarskrárnefndin lagði til í vor. Sá tími er liðinn. Þess í stað hafa spillingarmál síðustu vikna leitt til þess að stjórnarskrárfrumvarpið frá Stjórnlagaráði er aftur orðinn raunverulegur og lifandi kostur. Það sem flokkarnir fjórir geta gert – jafnvel gulltryggt ef þeir standa saman um það og vinna málið almennilega – er að lýsa fullum stuðningi við þessi drög og lofa kjósendum því að á næsta kjörtímabili verði öll fjögur árin notuð til að vinna stjórnarskrárfrumvarpið áfram þannig að þingið geti samþykkt það áður en kjörtímabilinu lýkur og lagt fyrir þjóðina árið 2020.
Það liggur nefnilega ekkert á. Allir vita að það er yfirgnæfandi stuðningur meðal almennings við drögin. Skoðanakannanir og þjóðaratkvæðagreiðsla hafa staðfest það. En það þarf að vinna þau betur með almenningi, efla áhuga fyrir þeim og trú á þau og það þarf að stuðla að umfjöllun um stjórnarskrána innan þings sem utan.
Ný stjórnarskrá á næsta kjörtímabili
Lawrence Lessig, prófessor við Harvardháskóla og baráttumaður gegn spillingu í stjórnkerfinu sem hér var um síðustu helgi hefur fylgst grannt með stjórnarskrármálunum hér og fjallað um íslensku stjórnarskrártilraunina í námskeiðum sínum. Lessig heldur því fram að íslenska stjórnarskrárfrumvarpið sýni að það er hægt að fela almenningi að skrifa stjórnarskrána: Ferlið hér, hvort sem það endi með nýrri stjórnarskrá eða ekki hafi breytt forsendum stjórnarskrárritunar í heiminum.
En þessu ferli er einfaldlega ekki lokið. Klúður og spilling stjórnarflokkanna hefur opnað nýtt tækifæri fyrir aðra til að sannfæra almenning um að það skipti máli að hér taki gildi ný stjórnarskrá. Það þýðir að þeir sem það vilja þurfa að taka höndum saman og sýna kjósendum að þeir geti gert meira en að rífast við ríkisstjórnarflokkana. Því það verður ekki hægt að endurnýja stjórnarskrána nema með nýrri sýn og nýrri pólitík.
Athugasemdir