Í gær birti Kjarninn heimspekilegt þrekvirki í sex köflum eftir mann að nafni Heiðar Guðjónsson. Um er að ræða þúsund orða afsönnun á ritum fávitanna Piketty og Marx, og endanlegan rökstuðning þess efnis að kapítalismi er bestur í heimi. Greinin heitir Dómsdagur og Marxismi og mun tvímælalaust bera heiður höfundarins sjálfs alla leið útí eilífð. Verk af þessari stærðargráðu má ekki hundsa, og ætla ég hér að gaumgæfa sérhvern kafla. Áður en við hefjumst handa er vert að geta höfundarins sjálfs. Heiðar er verðandi olíujöfur í stafni Eykon Energy, fyrirtækisins sem vill bora upp auðævi jarðar og selja þau til okkur hinna. Hann er því vel staðsettur til að upplýsa okkur hvað kapítalisminn er mikið afbragð.
Fyrsta kafla nefnir heimspekingurinn okkar “Marxismi og falskar forsendur”. Þetta er því Marx “byggði á fráleitum forsendum” í staðinn fyrir að lesa bara Adam Smith, sem hafði sannað kapítalisma 80 árum fyrr. Sú staðreynd að forsendur Marx voru í einu og öllu teknar úr ritum Adam Smith, og svo notaðar til að reikna dæmið út aðeins öðruvísi, er aukaatriði sem stórmenni hugmyndasögunnar eru hafnir yfir. Heiðar málar með stórum pensli, og fínni strokur geta horfið í stærri myndinni. Þegar hann segir að Marx hafi ekki stutt tilgáturnar sínar “með tölulegum staðreyndum eða með raunverulegum forsendum” er hann jú bara að slumpa, því ef frá eru taldar um þrjúþúsund blaðsíður af sýnidæmum og heimildavísunum er það vissulega rétt.
Annar kafli hlýtur titilinn “Marxismi og fórnarlambið”. Þar útskýrir Heiðar að uppúr 1900 urðu bæði launamenn og fyrirtæki ríkari. “Ástæðan var einfaldlega gagnkvæmur ávinningur viðskipta.” Er þarmeð afsönnuð sú útbreidda kenning að grimm stéttabarátta, að miklu leyti innblásin af kenningum Marx, hafi átt þar hlut að verki. Nú, útskýrir Heiðar, var Marxisminn í klípu, því enginn virtist tapa á ástandinu. (Vissulega var það ekki forsenda Marx, en við skulum ekki dvelja við hártoganir um “raunveruleikann”.) “Kenningar komu fram um að þriðji heimurinn, það eru nýlendur í Afríku, Asíu og Suður Ameríku, hefðu verið fórnarlambið. Uppgangur í vesturheimi hefði verið á kostnað nýlenda.” Hér vísar Heiðar væntanlega til þeirrar staðreyndar að þrælasala, fjöldamorð og hernám hafi átt sér stað á þessu tímabili, sem kostuðu tugmilljónir líf og frelsi í þessum löndum. “En þegar málið var athugað betur sást að lífskjör í nýlendunum bötnuðu stöðugt. Hvar var þá fórnarlambið?” Góð spurning.
Í þriðja kafla, “Marxismi og veruleikinn”, segir Heiðar okkur að marxistar hafi næst fórnarlambsvætt náttúruna, innblásnir af nasistum og hippum. Þetta sé óþarfi og vitleysa. Okkur hefur “aldrei vegnað betur,” plánetan hefur “ekki verið grænni um árhundraða skeið,” þökk sé öllu kolefninu sem hann og vinir hans brenna í lofthjúpinn. Allt þetta hefur “gert óttann um að skógar séu á undanhaldi að engu.” Heiðar er upptekinn maður, og hefur ekki tíma til að spyrja álits vistfræðinga, sem segja yfir tvöþúsund fermetra skógarlands hverfa á sekúndu á þessari jörð, enda eru þeir örugglega allir marxistar, og marxistar “hætta ekki að leita að fórnarlambi aukinnar velmegunar, þó að sagan sýni að þeir hafi kerfisbundið rangt fyrir sér.”
Í fjórða kafla er tekinn fyrir aulabárðurinn Piketty, og þessvegna heitir fjórði kafli “Marxisminn og Piketty”. Piketty trúir að “fjármagn muni vaxa af sjálfu sér og yfirgnæfa hagkerfið.” Eftir að hafa útskýrt kenningu fræðimannsins í fjórtán orðum afsannar Heiðar hana í einni setningu. “Ef fjármagn yxi af sjálfu sér væru ættir landnámsmanna Íslands gríðarlega ríkar og þrælarnir hefðu aldrei komist til bjargálna.” Þarf frekari vitna við? “Ef við lítum okkur nær þá væru „fjölskyldurnar fjórtán“, sem tíðrætt var um árið 1990 lang efnaðastar á Íslandi.” Ekki sannfærð enn? “Ef við horfum til ársins 2000 þá væru Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson gríðarlega efnaðir í dag.” Piketty horfir framhjá þessu öllu. Hann heldur að ríkir verði ríkari, en hvernig geta þá ríkir stundum orðið fátækari? Það er, einsog Heiðar segir, ekki heil brú í “gölluðum kenningum Piketty og annarra marxista,” enda er “öll hagfræði” búin að “afsanna” þær.
Nú hefur Heiðar kollvarpað spilaborgum Karl Marx og Thomas Piketty, og smærri menn hefðu látið staðar numið og gott heita. En ekki Heiðar Guðjónsson. Hann ætlar, í “Marxismi og rekstur fyrirtækja”, að útskýra hvað hann sjálfur er mikilvægur. Hann vill sanna að kerfið sem borgaði jakkafötin hans og leyfir honum að bora eftir olíu í miðjum dauðaslitrum vistkerfa jarðar sé besta kerfi í veröldinni, og að fólkið sem ræður því sé hörkuduglegt. Marxistar og Piketty-liðar skilji ekki að það sé mikil vinna að vera fólk einsog hann — svo mikil vinna að hann hefur ekki tíma til að lesa Marx og Piketty. En það er alltaf tími innanum “eilífu baráttuna” sem lífið hans er til að brunda út einni skoðanagrein um rit sem hann hefur ekki lesið til að útskýra málefni sem hann veit ekkert um.
Í lokakaflanum, “Marxismi og framtíðin”, útskýrir hann hvernig nýjustu áhyggjur marxista af tæknivæðingu og útrýmingu starfa eru rangar líka, einsog allt annað sem uppúr þeim kemur. Vissulega á tæknivæðing sér stað, útskýrir Heiðar, og vissulega hefur fólk barist gegn henni áður til að vernda störfin sín. En það er ekkert að óttast, því við höfum það öll svo gott. “Aukin tæknivæðing breytir ekki þessum lífsgæðum á verri veg, nema síður sé.” Treystu forstjóranum — þannig er það bara.
Heiðar hefur þannig afsannað efnahagsóöryggi hundruð milljóna manns um hinn vestræna heim, sem halda að þau hafi misst störfin sín og að lífsgæði þeirra hafi versnað. Þau hafa rangt fyrir sér, og ef þau fatta það ekki, þá eru þau sennilega bara marxistar, sem eru jú “blindir á söguna en staðfastir í trúnni.” Því ef það er einhver sem veit hvað það er að horfast í augu við staðreyndir, þá er það Heiðar Guðjónsson.
Heiðar Guðjónsson gerir allt sem hann sakar Karl Marx um — vísar ekki í heimildir, beitir fölskum forsendum, afneitar óþægilegum sannindum og stígur á tröppum rökleysunnar skref fyrir skref uppí fyrirheitna landið, þar sem uppáhalds skoðanirnar hans eru óvéfengdar, og þar sem hann getur skáldað skoðanagreinar yfir almúgann meðan olían hans brennur. Það er traustvekjandi að svona menn vinni dag og nótt að því að halda kapítalismanum á floti.
Athugasemdir