Skýrsla um vaxandi fátækt og stéttaskiptingu vekur mikinn ugg. Þetta er stærra og óhugnanlegra mál en svo að æskilegt sé að nota það að ráði í daglegum pólitískum svipuhöggum, en þó er ljóst að þetta ástand hefur skapast á þeim tímum þegar jöfnuður og velferð voru ekki efst á forgangslista ríkisstjórna í þessu landi.
Fyrst meðan „góðærið“ var fyrir hrun, og svo aftur núna á allra síðustu árum.
Það er jafn ljóst að það hlýtur og verður að vera á forgangslista nýrrar ríkisstjórnar að snúa þessari þróun við - og það strax.
Ef það á að líðast að ekki aðeins komist hér á legg örfámenn forrík yfirstétt, sem á stóran meirihluta allra eigna í landinu, heldur líka að hér verði fólk til frambúðar læst í fátæktargildru, þá stendur þetta samfélag okkar ekki undir nafni.
Þá er það einskis virði.
Við þurfum því ríkisstjórn sem lætur það verða sitt fyrsta verk að efla jöfnuð og velferð í landinu.
Við þurfum ekki - og við megum ekki fá ríkisstjórn eins og þá síðustu, sem byrjaði á því að létta álögum af ríka fólkinu í landinu.
Og vann aðeins og eingöngu fyrir ríka fólkið.
Við þurfum stjórn sem vinnur fyrir almenning - og getur ekki hugsað sér að láta hér vaxa upp hvort heldur yfir- eða undirstéttir.
Athugasemdir