Nú styð ég alla sjómenn og konur í kjarabaráttunni og vona að sátt náist sem fyrst um kjör þeirra.
Í samræmi við skrif Stefáns Karls Stefánssonar leikara hefur alltof lengi verið tabú að tala um græðgi og yfirgang kvótakónga og útgerða. Tiplað er á tánum í kringum þá þegar rætt er um kjör sjómanna og í staðinn beint spjótunum að ríkiskassanum. Í stað þess að pressa meira á þá sem bjóða vinnuna að veita betri kjör, þarf allur almenningur, þar á meðal sjómenn sjálfir, að gjalda.
Já, ég er að tala um sjómannaafsláttinn og þetta gæti alveg verið óvinsæl skoðun en sjómannaafsláttinn á alls ekki að setja aftur á. Vissulega var það full djúpt í árina tekið að taka hann út með einu pennastriki. Í staðinn hefði átt að láta hann fjara út með pressu á launahækkun frá útgerðum.
En hver yrði það sem myndi í raun græða á sjómannaafslættinum? Yrðu það hetjurnar okkar úti á ballarhafi eða útgerðirnar sem hafa verið að komast upp með að borga lægri laun sem líta sæmilega út á kostnað ríkissjóðs? Og fyrst heil starfstétt fær afslátt af sköttum, af hverju fá þá foreldrar þeirra 9% íslenskra barna sem búa við skort ekki líka afslátt? Bara spyr.
Það eiga allir að borga jafnt i skatt eftir þrepum og er það ekkert nema ósanngjarnt að ein stétt borgi minna en hinar. Aftur á móti eiga allir að fá laun í samræmi við þá vinnu sem þeir skila. Græðgi útgerðarinnar verður að hætta og hún þarf að sjá sóma sinn i að borga sjómönnum okkar mannsæmandi laun fyrir þá erfiðisvinnu sem þeir taka á sig, án þess að það bitni á öllum landsmönnum. Með sjómannaafslættinum voru sjómenn ekki bara að fá afslátt af skattgreiðslum, heldur einnig að fá afslátt af sjálfum sér, börnum sínum og landanum öllum. Með afslætti af skatti er verið að gefa afslátt af heilbrigðiskerfinu okkar, menntakerfinu, vegakerfinu og svo framvegis.
Nú var afslátturinn meðal annars settur á vegna þess að sjómenn missa af miklu hérna í landi á meðan þeir eru úti á sjó. Það á ekki að koma niður á skattgreiðendum. Nei, þeim ættu einfaldlega að vera greidd laun af útgerðunum sem vilja fá vinnuna unna, sem vega upp á móti því að missa af fyrstu skrefum barna sinna, afmælum, brúðkaupum, það að geta ekki stutt við fjölskyldu og vini á erfiðum tímum svo fátt eitt sé nefnt.
Annars vegar vegna þeirrar yfirgnæfandi hættu sem sjómenn bjuggu við. Ef við berum saman slysahættu við að vinna úti á sjó og að vinna í landi fyrir um 60 árum, um það leyti sem afslátturinn var settur á, eru tölurnar vissulega jákvæðar. En ef við skoðum slysatíðni á sjó og við störf í landi í dag sjáum við að þessi ástæða er ekki lengur gild. Framför í búnaði skipa og aukið eftirlit hefur sett hættuna við sjómennsku og vinnu í landi á sama stað.
Einnig var sjómannaafslátturinn settur á til að hjálpa sjávarútvegsfyrirtækjum á sínum tíma þegar þau voru rakleitt á leiðinni á hausinn. Það fer ekki á milli mála að það er ekki raunveruleikinn í dag.
Mér finnst því rangt að setja út á ríkið fyrir að afnema afsláttinn, heldur ætti að gagnrýna útgerðirnar sem hafa nýtt sér afsláttinn til að greiða sjómönnum lægri laun.
Hver yrði það sem myndi græða á sjómannaafslættinum? Yrðu það sjómennirnir sem eyða sumir hálfu árinu frá fjölskyldu sinni? Eða eigendur útgerða sem oftast eru ekki sjálfir á sjó á meðan þeir komast upp með að borga þessum hetjum hafsins ósæmandi laun á kostnað ríkissjóðs?
Athugasemdir