Þegar ég var að byrja að lesa læknisfræði á síðustu árum sjöunda áratugarins var ADHD meðal fullorðinna óþekktur sjúkdómur. Menn vissu reyndar af athyglisbresti hjá börnum og unglingum frá fornu fari og töldu að um einhverja truflun á eðlilegri starfsemi heilans væri að ræða. Á árunum fyrir styrjöldina fóru menn að meðhöndla þetta ástand með örvandi efnum. Ritalin (methylphenidat) kom til sögunnar 1956 og var eftir það notað til að hjálpa þessum börnum með ágætum árangri.
Barnageðlæknar nútímans tala venjulega um taugasálfræðilega sjúkdóma sem valda þessum börnum vandræðum. Í þeim flokki er að finna einhverfu af ýmsu tagi og ofvirkni/athyglisbrest auk fleiri greininga. Einkennin eru venjulega einhvers konar þroskafrávik, truflun á málþroska, kækir, vandamál í félagslegum samskiptum og einkenni um athyglisbrest og skortur á einbeitingu. Afleiðingarnar eru að barninu gengur illa að aðlagast og stunda nám á eðlilegan hátt. Greiningin er flókin og tekur venjulega langan tíma.
„Almáttugur en sú mæða að eiga svona börn,“ segir mamma hans í sífellu og það er viðlag sem margir foreldrar geta tekið undir.
Guttakvæði Stefáns Jónssonar lýsir ágætlega slíkum dreng sem hlýðir engu og fer ekki eftir neinu sem honum er sagt að gera. Hann er aldrei kyrr, dettur og meiðir sig, rífur fötin sín og gegnir engu. „Almáttugur en sú mæða að eiga svona börn,“ segir mamma hans í sífellu og það er viðlag sem margir foreldrar geta tekið undir.
Í mínum huga er engin efi á því að nokkrar frægar hetjur Íslendingasagna voru haldnar ADHD eins og Grettir Ásmundsson sem alltaf hagar sér þveröfugt við gildandi umgengnisreglur. Hann er ótrúlega óþekkur og óhlýðinn. Annar óþekktarormur, Hörður Grímkelsson í Harðar sögu og Hólmverja, var mjög klaufskur og pirraði alla í kringum sig. Egill Skallagrímsson hefur sennilega verið með ADHD ofan í mótþróaþrjóskuröskunina sem hann var haldinn. Egill var óþolandi sem barn og hefði verið fastagestur á BUGL á okkar tímum. Með tímanum hefur börnum með þessa greiningu fjölgað og lyfjanotkun aukist.
Síðustu árin hafa menn farið að greina ADHD hjá fullorðnum og gefa þeim sömu lyf og börnunum. Þessi greining hefur gjörbreytt starfsumhverfi flestra geðlækna. Stór hópur fólks hefur miklar áhyggjur af vandamálum sem tengjast athygli, minni og einbeitingu. Margir fullorðnir leita til geðlækna í leit að greiningu á sjálfum sér vegna þess að búið er að greina barn þess með ADHD og fólki finnst margt líkt með sér og barninu.
Greiningin er flókin og felst í því að taka góða sögu og átta sig á því hvernig sjúklingurinn var í æsku og hvernig honum gengur að halda athygli og einbeitingu í dagsins önn.
Enginn vafi leikur á því að þessi mikla aukning í ADHD hjá fullorðnum fylgir þeim kröfum sem gerðar eru á athygli fólks og einbeitingu í nútímasamfélagi. Á síðustu árum hefur orðið bylting í alls konar fjarskipta og upplýsingatækni. Fólk er í stöðugu sambandi við upplýsingaveitur í gegnum síma og tölvur með samskiptaforritum eins og Facebook, Twitter o.fl.. Nauðsynlegt er að fylgjast stöðugt með öllu sem fram til að missa ekki af neinu. Samskipti fólks eru að miklu leyti gegnum tölvupósta og netsamskipti en ekki augliti til auglisis. Þetta þýðir að fólk þarf að hafa athyglina stöðugt á þessari fjarskiptatækni.
„Gæti ég verið með athyglisbrest?“ sagði hann áhyggjufullur. Hann lýsti síðan aðstæðunum heima fyrir. Hann sat við tölvuna með sagnirnar á blaði.
Ég var einu sinni að tala við ungan mann sem kvartaði undan athyglisbresti. Hann sat og las heima lista yfir þýskar sagnir en gat ekki fest sér þær í minni. „Gæti ég verið með athyglisbrest?“ sagði hann áhyggjufullur. Hann lýsti síðan aðstæðunum heima fyrir. Hann sat við tölvuna með sagnirnar á blaði. Á tölvunni var Facebook opin auk annarra samskiptaforrita, tölvupósturinn, visir.is, dv.is og önnur vefsvæði. Hann reyndi að hafa auga með þessum opnu svæðum enda var hann áhugamaður um samtímamál og skrifaði oft athugasemdir á vefinn. Þetta reyndi hann að gera samtímis því sem hann staglaðist á þýsku sögnunum; schreiben, schrieb, geschrieben. Það reyndist honum ákaflega erfitt enda held ég að mannsheilinn sé einfaldlega ekki hannaður fyrir svona æfingar.
Í gamalli bíómynd um einhverfan mann með sérhæfileika var lögð áhersla á að sýna að hann gæti lesið tvær blaðsíður samtímis. Það þótti ótrúlegt og var til merkis um sérhæfileika þessa manns. Núna reyna allir að leika þetta eftir honum með athyglina á fjölmörgum blaðsíðum í einu. Þegar menn átta sig á því að þeir geta ekki fylgst með 25 opnum vefsíðum samtímis og svarað ótal skilaboðum jafnóðum og þau berast vilja þeir fá lyf við athyglisbresti. Engum dettur í hug að hlífa heilanum við þessu áreiti.
Kannski er framtíðin að allir þurfi að vera á Ritalíni alltaf til að geta fylgst með öllum þeim gjörsamlega tilgangslausu og ómerkilegu skilaboðum sem þeir fá á hverjum degi og öllum ekki-fréttunum sem skella á okkur frá morgni til kvölds.
Athugasemdir