Íslensk þjóðerniskennd er einungis viðurkennd á íþróttavöllum. Í körfuboltahöll eða á fótboltavelli mega Íslendingar sveifla fána og syngja gamlan slagara með Óðni Valdimarssyni, Ég er kominn heim, og gráta saman.
Annars staðar er það harðbannað og hallærislegt. Nú er í tísku að hallmæla fósturjörðinni við öll hugsanleg tækifæri, hæðast að henni og bera hana saman við Paradís grannþjóðanna. Fjölmiðlar ganga í fararbroddi í þessari and-íslensku stefnu. Nær vikulega eru birt löng viðtöl við íslenskar fjölskyldur í Noregi eða Danmörku sem hafa fundið lífshamingjuna í þessum löndum. Þær sameinast um að ulla í áttina að gamla landinu. Fyrirsagnirnar eru gjarnan: Besta ákvörðun lífsins að flytja til Noregs! eða Söknum einskis á Íslandi! eða Laus úr íslensku helvíti!
Í viðtölunum er viðrað að skólakerfið á Íslandi sé hrunið til grunna á sama hátt og leikskólakerfið, heilbrigðiskerfið, dómskerfið, vegakerfið og stjórnsýslan eins og hún leggi sig. Börnin séu hamingjusamari en fyrr, læri betur og meira, kunni á hljóðfæri, spili fótbolta, keppi í biblíulestri og fái betri tannhirðu. „Við bara skiljum ekkert í þeim sem ekki flytja hingað með allt sitt hafurtask. Svíar fara eftir umferðareglum, þeir drekka sig ekki fulla, þeir stunda skíði og heilbrigða útiveru en hanga ekki á börum yfir enska boltanum eins og kallinn gerði á Íslandi.“
Sjálfur bjó ég í útlöndum í 10 ár og veit af reynslu að Íslendingar í útlöndum eru sjaldnast góð heimild um ástand mála. Flestir gangast upp í því að sannfæra sjálfa sig og viðmælandann um það að ákvörðunin að flytja hafi verið rétt. Hátíðahöldin á 17. júní í Gautaborg hófust gjarnan á því að sagt var frá því að rigning væri í Reykjavík við gífurleg fagnaðarlæti viðstaddra.
„Nú er í tísku að hallmæla fósturjörðinni við öll hugsanleg tækifæri, hæðast að henni og bera hana saman við Paradís grannþjóðanna.“
Ég hef aldrei skilið hvaða erindi þessi fagnaðarboðskapur á í íslensk blöð. Er ætlunin að fá enn fleiri til að flýja land eða bara að gleðja hamingjusama viðmælandann í Skandinavíu? Hann segir ekkert nýtt eða upplýsandi. Þessi viðtöl eru svo klisjukennd og fyrirsjáanleg að maður fær höfuðverk.
Kannski skyldi engan furða að þjóðerniskenndin hafi dáið drottni sínum í þessari síbilju. Ég var nýlega á stóru norrænu geðlæknaráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Þar töluðu m.a. nokkrir íslenskir læknar og vísindamenn sem búsettir eru í öðrum löndum. Þeir voru venjulega kynntir til leiks sem fulltrúar viðkomandi þjóða eða háskóla. Kynnarnir áttu í stökustu vandræðum með að bera fram íslensk nöfn þeirra. Þeir létu sér það vel líka og enginn leiðrétti eitt né neitt og sagði hver raunverulegur uppruni væri. Þeir voru alsælir að vera Danir, Norðmenn eða Svíar. Nú var liðinn tími Íslendingasagna þegar menn ferðuðust um Norðurlönd og kynntu sig hátt og snjallt: „Auðunn heiti ek og em ek íslenskur maður.“
Heill þingflokkur hefur gert það að sínu eina baráttumáli að berjast gegn mannanafnalögunum enda er þeim ætlað að vernda íslenska nafnahefð. Hún er til trafala í landi þar sem þjóðerniskennd er talin af hinu illa.
Ferðamenn sem fara til Íslendingabyggða í Kanada dáðst að því að enn megi finna fólk af þriðju og fjórðu kynslóð innflytjenda sem tali íslensku. Mér er til efs að önnur kynslóð íslenskra þegna á Norðurlöndum muni tala óbjagaða íslensku, svo mikill er metnaður foreldranna að aðlagast nýja landinu og hallmæla því gamla. Þjóðerniskenndin þvælist ekki lengur fyrir eins og hún gerði í Manitóba og Winnepeg.
Það er erfitt að segja hvernig þetta endar. Markmiðið virðist vera að sem flestir flýji land og bölsótist yfir gamla landinu.
Stundum vildi ég óska að blaðamenn væru ekki allir steyptir í þetta sama mót heldur tækju viðtöl við þá sem ekki ætla sér að fara úr landi. Hvað er það sem heldur í þá? Svo mætti tala við alla þá sem hafa flutt heim frá Norðurlöndum. Eigum við ekki einhverjum skyldum að gegna við þetta land þótt það sé jafn ömurlegt og andstyggilegt og brottfluttir Íslendingar í Skandinavíu láta hafa eftir sér í útlöndum? Óskum þeim alls hins besta en reynum að efla með okkur smá þjóðerniskennd þó ekki væri nema til að lifa síbiljuna af.
Athugasemdir