Þegar ég vann í áfengismeðferðum forðum daga hélt ég fjölmarga fyrirlestra erlendis um yfirburði íslenska meðferðarkerfisins með myndum, alls konar töflum og súluritum. Ég sýndi myndir af Vogi, Staðarfelli, Hlaðgerðarkoti, Krýsuvík og Landspítalanum og sagði hversu marga væri hægt að meðhöndla á þessum stöðum samtímis. Áheyrendur urðu hvumsa enda hafði enginn heyrt um neitt sambærilegt meðal annarra þjóða. Á Vogi einum eru fleiri meðferðarpláss en fyrirfinnast í allri Berlín. Ég var ákaflega stoltur enda var ég að lýsa einhverju stórkostlega íslensku, Gullfossi og Geysi búnum til af mannahöndum.
Þegar ég var búinn að lýsa leguplássunum og húsnæðinu og öflugri AA-samtökum en þekktust á byggðu bóli, spurðu menn hvernig hangir þetta allt saman við þá staðreynd að engir Evrópubúar virðast drekka minna en einmitt Íslendingar. Meðan grannþjóðirnar drukku 10-11 l að meðaltali drukku íslendingar 6-7 og voru langneðstir ásamt Tyrkjum og Norðmönnum. Þjóðin sem drakk minnst hafði öflugustu meðferðina. Var ástæðan sú að við vorum að taka of marga í meðferð eða voru aðrir að taka of fáa? Nú var það ég sem varð hvumsa.
Mér fannst þetta svo erfið mótsögn að ég skrifaði heila bók um áfengi og Íslendinga sem ég kallaði Tímann og tárið. Þar ræddi ég sögulegar skýringar á því að Íslendingar drykkju öðruvísi en aðrir og þyrftu meiri og öflugri meðferð. Ég rakti þetta til þeirra tíma þegar kaupskip komu til Íslands að vori og hausti og bændur drukku sig ofurölvi í kaupstaðarferðum. Menn lærðu að drekka allt sem til var á stuttum tíma. Svo minntist ég á drykkjusiði forfeðranna, Egils Skalla og allra hinna. Niðurstaða mín var sú að það væri Íslendingum í blóð borið að drekka á þennan hátt. Menn vildu í sjálfu sér ekki drekka sig ofurölvi í Reykjavík um helgar en neyddust til þess af genetískum og sögulegum ástæðum. Menn færu út á djammið fullir af góðum ásetningi að drekka lítið eða ekki neitt en á fyrsta bar vaknaði Egill Skalli til lífsins, heimtaði brennivín í stórum skömmtum og færi síðan að þjóna lund sinni, berja mann og annan, bíta fólk á barkann og æla yfir fjandmenn sína. Aðrar þjóðir drykkju allt öðru vísi vegna þess að þær væru ekki komnar í beinan legg af Agli.
„Umsátursástand er ríkjandi í miðbæ Reykjavíkur allar helgar þar sem ölvaðir menn ganga berserksgang, pissa á götum úti, lemja hver annan í hausinn og ganga fyrir bíla.“
Allt frá árinu 1975 eða í 40 ár höfum við rekið ótrúlega öflugt meðferðarkerfi. Út um allt land hittir maður fólk sem hefur farið í meðferð svo að kannski mætti tala um meðferðarstofnanir í sömu andrá og skólakerfið. Margir hafa farið í fleiri en eina meðferð eins og fallisti sem fær að fara aftur í sama bekk. Áfengismeðferðir og baráttan við Bakkus verður eins konar lífsmynstur hjá mörgum sem eiga að baki nokkur mislöng edrútímabil, margar meðferðir, mismikla AA fundasókn og mislöng fylleríistímabil. Mjög margir hafa verið hjá SÁÁ, LSH og Hvítasunnumönnum og í Krýsuvík og geta skilgreint ágætlega muninn á öllum þessum meðferðum. Hvergi á byggðu bóli eru fleiri einstaklingar sem hafa látið tattúera æðruleysisbænina á upphandlegg eða kviðinn á sér eins og eilífa áminningu um edrúlíf.
Það breytir þó engu um það að drykkjan í landinu heldur áfram að aukast og drykkjumynstrið hefur lítið breyst. Umsátursástand er ríkjandi í miðbæ Reykjavíkur allar helgar þar sem ölvaðir menn ganga berserksgang, pissa á götum úti, lemja hver annan í hausinn og ganga fyrir bíla. Útlendingar sem heimsækja miðbæinn um helgar reka upp stór augu og segjast aldrei hafa séð svona stórkarlalegar aðfarir. Eftir hverja gleðinótt í Reykjavík þarf að spúla bæinn eins og þilfar á fiskiskipi og hreinsa upp glerbrot, drasl, matarleifar og alls kyns líkamsvessa.
Það er þó ákveðin huggun harmi gegn að stór hluti þessara ölvuðu berserkja er búinn að fara í a.m.k. eina meðferð svo að þeir vita nákvæmlega hvað þeir þurfa að gera til að bæta ráð sitt.
Við erum enn algjörlega sér á báti í veröldinni varðandi meðferðarframboð svo maður hlýtur að velta því fyrir sér hvað aðrar þjóðir eru að gera rétt. Er meðferðin kannski að snúast upp í andhverfu sínu og viðheldur þessu drykkjumynstri? Hvernig fara aðrar þjóðir í Evrópu að, sem varla þekkja AA samtökin nema úr amerískum bíómyndum? Hvernig á að breyta þessari afstöðu til áfengis? Nú berjast nokkrir þingmenn fyrir því að auka aðgengi að áfengi og selja bjór í öllum matvöruverslunum. Mun það bæta ástandið að þurfa ekki að leita að næstu áfengisbúð heldur geta verslað beint við næsta stórmarkað? Þarf kannski að fjölga enn frekar meðferðarplássunum? Mun aukið aðgengi fækka plássunum?
Maður segir eins og Megas: „Vituð þér hvað það er, mér er það hulið?“
Athugasemdir