Með dómi meirihluta Hæstaréttar Íslands þann 19. júní 2013 voru tveir menn sýknaðir af ákæru um nauðgun. Röksemdafærsla fyrir niðurstöðunni var á þá leið að verulegs misræmis gætti um ýmis mikilvæg atriði í skýrslum sem brotaþoli hafði gefið hjá lögreglu og fyrir dómi. Jafnframt að framburður brotaþola stangaðist á við sýnileg sönnunargögn. Því hefði sönnun um sekt ákærðu ekki tekist. Dómur meirihluta Hæstaréttar sneri við niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu mannanna.
Minnihlutaatkvæði eins Hæstaréttardómara sem vildi sakfella ákærðu taldi það „hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um það brot sem þeir eru ákærðir fyrir“. Þrátt fyrir að sýknudómur meirihlutans standi um ókomna tíð, að öllu óbreyttu, er þetta orðalag um „skynsamlegan vafa“ í atkvæði minnihlutans mér enn minnistætt. Skulu ástæður þess nú skýrðar nánar.
Í sakamálum hvílir sú byrði á ákæruvaldinu að sanna fyrir dómi staðhæfingar um atvik sem manni er gefið að sök í ákæru. Ákæruvaldið getur leitast við að færa slíka sönnun fyrir dómara með gögnum og skýrslutöku af hinum ákærða og eftir atvikum vitnum. Vörnin tekur við þar og leitast við að færa fram atriði í málinu sem horfa til sýknu og eru ákærða í hag.
Dómara ber því næst að meta sönnunarfærsluna sjálfstætt, með þá grundvallarreglu í huga að menn skulu álitnir saklausir uns sekt er sönnuð. Sú grundvallarregla hefur í för með sér að dómara ber að skýra allan skynsalegan vafa um sekt sakborningi í hag og nýtur hún verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.
Það er ekki þar með sagt að sérhver vafi um sekt skuli túlkaður sakborningi í hag, aðeins skynsamlegur vafi á þar að koma til skoðunar. Því er ætlast til þess að dómarar beiti heilbrigðri skynsemi og mannlegri reynslu við mat á sönnunarfærslu í sérhverju sakamáli. Út frá sönnunarfærslunni vegur dómari svo og metur hvaða staðreyndir skuli leggja til grundvallar dómi í sakamáli.
Þetta er í stuttu máli hinn „skynsamlegi vafi“ um sekt sem minnihlutaatkvæði dómsins frá 19. júní 2013 vísar til.
Þetta er í stuttu máli hinn „skynsamlegi vafi“ um sekt sem minnihlutaatkvæði dómsins frá 19. júní 2013 vísar til.
Þessi tæplega þriggja ára gamli dómur Hæstaréttar er mér hugleikinn þessa dagana. Meðal annars vegna þess að með vísan til dómsins fékk annar hinna sýknuðu dæmdar miskabætur vegna aðgerða lögreglu í þágu rannsóknar málsins. Nánar tiltekið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 22. desember 2015. Eins vegna þess að orðalag í forsendum fyrir niðurstöðu meirihluta dómsins frá 2013 virðist unnt að heimfæra með skýrum hætti undir umræðu síðustu missera um þunga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum og langa hefð fyrir smánun í garð brotaþola í þeim málaflokki.
Ég tel nánar tiltekið að meirihluti Hæstaréttar hafi farið út fyrir það sem talist getur „skynsamlegur vafi“, í framangreindum skilningi, við mat á því hvaða atriði í málinu skyldi horfa til við sýknu. Þannig kunni meirihluti Hæstaréttar í dómi sínum, meðvitað eða ómeðvitað, að hafa tekið „óskynsamleg atriði“ til greina við mat sitt á sönnunarfærslu í málinu. Að mínu mati eru þau meðal annars eftirfarandi:
-
„Fram er komið í málinu að ákærði X kom 21. nóvember 2011 í [...] þar sem A starfaði og að ósk hans gaf hún honum upp símanúmer sitt.“
-
„Rétt fyrir klukkan 4.30 sendi A ákærða skilaboð þar sem hún bað hann um að skutla sér heim.“ -
„Ekkert kom fram við rannsókn á fötum og líkama hennar til stuðnings því að henni hafi verið haldið niðri eða hár hennar reytt.“
Ekkert af þessum atriðum gefur til kynna að brotaþoli hafi ótvírætt verið samþykk því að ákærðu hefðu við hana samræði umrædda nótt. Það að gefa upp símanúmer, biðja um far eða hugsanlega að missa mátt af hræðslu verður ekki jafnað við samþykki. Röksemdarfærsla meirihluta dómsins er af sömu ástæðu villandi um það hvar mörk samþykkisins liggja.
Ég tel einnig að mikilvægi umræðu síðustu missera, sem hér að framan er vikið að, kristallist í tilvitnaðri röksemdarfærslu dómsins. Mér virðist sem svo að meirihluti Hæstaréttar tiltaki sérhvert atriði, sem að mati dómenda horfði til sýknu ákærðu, án þess að skynsamlegt gæti talist að vísa til þeirra sem vafa sem hafa skyldi áhrif á niðurstöðu dómsins um sýknu eða sekt. Hinar tilvitnuðu setningar úr dómi Hæstaréttar eiga að mínu mati ekkert skylt við nútímann. Ég tel raunar að þær séu liður í rótgrónum vanda sem fólginn er í því að dómendur í kynferðisbrotamálum taki enn mið af úreltum sjónarmiðum. Sjónarmiðum sem ná hugsanlega allt aftur til ársins 1869 þegar Íslendingar fengu ný refsilög sem takmörkuðu fulla refsivernd fyrir nauðgunarbrot við konur sem höfðu ekkert „óorð“ á sér. Eða jafnvel aftur til 16. aldar er litið var svo á að kona bæri sjálf ábyrgð á nauðgun ef ekki væri að finna vegsummerki eftir ofbeldi.
Árið 2016 er nýgengið í garð, verum óhrædd við að stíga inn í nútímann.
Athugasemdir