Fyrir áratug eða svo var stundum í sjónvarpinu amerísk þáttaröð sem hét Extreme Makeover. Þar voru yfirleitt einhverjar tætubuskur úr neðri stigum samfélagsins teknar fyrir, já, segjum bara fátæklingar, þær voru teknar og settar í bað eins og Lata stelpan, lagðar undir hníf lýtalækna, kennt að farða sig nógu kvenlega og ganga nógu kynþokkafullt á háhæluðum skóm og þeim voru gefin tískuföt.
Í lok hvers þáttar voru þær svo leiddar fyrir ættingja sína, sem höfðu ekki fengið að fylgjast með þessu Makeover fram að því, og það brást ekki að ættingjarnir brustu beinlínis í grát yfir því hvað Lata stelpan væri orðin snyrtileg, hvað Litla ljót væri orðin falleg.
Hin heimspekilega ráðgáta þáttanna var auðvitað sú að þegar var búið að gerbreyta tætubuskunni, rista hana upp með skurðarhnífunum, mála nýtt málverk yfir sárin og bylta að öllu leyti stíl hennar, þá grenjuðu ættingjarnir úr sér augun yfir því að fá loksins að sjá hinn „sanna“ persónuleika.
Tilbúningurinn var orðinn sannleikur.
Um daginn sá ég í Morgunblaðinu að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er nú kominn í slíkt Extreme Makeover.
Hann þarf náttúrlega ekki að verða fínni en hann er, hann Bjarni, hann þarf ekki nýjan fataskáp og ekki þarf að mála hann upp á nýtt svo hann geti þóst vera kominn í hóp ríka fólksins, því hann er jú partur af ríka fólkinu, og hefur alltaf verið.
Nei, það er pólitískt makeover sem Bjarni Benediktsson er kominn í. Almannatenglarnir og ímyndarsmiðirnir og leikstjórarnir sem Bjarni hefur í sinni þjónustu, þeir hafa áttað sig á því að nú er kannski um stund liðinn tími flotta Bjarna, ríka Bjarna, Flórída-Bjarna.
Og umfram allt „töff Bjarna“.
Nei, sögðu ímyndarsmiðirnir eftir að hafa hnusað út í loftið dálitla stund og greint strauma samfélagsins af sínu mikla viti: Nei, nú skal runninn upp tími „góða Bjarna“.
Bjarni hefur áður farið í makeover, þið munið það. Rétt fyrir síðustu kosningar var útlit fyrir að Hanna Birna (munið eftir henni?) myndi velta Bjarna úr sessi formanns Sjálfstæðisflokksins. Þá bjuggu leikstjórarnir til „einlæga Bjarna“ og sendu hann í viðtal við sjónvarpið. „Einlægi Bjarni“ hafði lært að láta röddina bresta (bara örlítið samt, því hann er náttúrlega fyrst og fremst KARLMENNI) og glenna upp augun, þegar hann vill virðast einlægur.
(„Virðast einlægur,“ kann að hljóma sem mótsögn. Það er það líka.)
Og viti menn. „Einlægi Bjarni“ lukkaðist svo vel að tár féllu yfir því hve illa þessi góði drengur hefði verið leikinn af ljótu stelpunni Hönnu Birnu. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins sameinuðust um þennan nýja Bjarna og Hanna Birna lyppaðist niður.
Eftir kosningar var „einlægi Bjarni“ svo lagður á hilluna og hefur ekki sést síðan. „Töff Bjarni“ fékk að leika lausum hala næstu árin og leika sér á Flórída milli þess sem hann var í sendiferðum að redda péníng fyrir sægreifana og frændur sína og nágranna í Garðabænum. Og tryggir sjálfstæðismenn fögnuðu, þeir hafa reyndar alltaf kunnað best við „töff Bjarna“.
En nú líður að kosningum og ímyndarsmiðirnir og leikstjórarnir hafa áttað sig á því að Bjarni þarf að höfða til fleiri en bara harða kjarnans sem fær í hnén yfir „töff Bjarna“.
Og því er það sem eftir nýtt makeover kynntu þeir „góða Bjarna“ til leiks í viðtalinu í Mogganum um daginn. „Góði Bjarni“ er svo góður að hann er meira að segja kominn heim frá Flórída og farinn að stússa í garðinum sínum í Garðabænum. Ímyndarsmiðirnir hafa virkilega vandað sig við þá hugmynd: Garðabær, ha, já, heyrðu, hvernig væri að hafa hann bara úti í GARÐI? Fjármálaráðherra úr Garðabæ ræktar garðinn sinn – er það ekki eitthvað? Jú, fólk hlýtur að gleypa við því!
Í viðtalinu við Moggann fór „góði Bjarni“ fögrum orðum um hve nauðsynlegt væri nú að fara að leiða hugann að því að bæta kjör hinna verst settu. „Töff Bjarni“ hefur í þrjú ár mokað undir sægreifana og auðkýfingana en nú á loksins að fara að taka til hendinni í málum láglaunastétta, aldraðra, sjúklinga og örykja.
Og þetta á fólk að kaupa í kosningum í haust. Ímyndarsmiðirnir hafa örugglega skemmt sér dável við að búa til „góða Bjarna“. Bjarni er svo þjáll að það þarf ekki einu sinni skurðhnífa lýtalæknanna í þetta makeover, hann tekur fyrirhafnarlaust á sig hvaða mynd sem þarf.
Búist við að sjá meira af „góða Bjarna“ eftir því sem kosningar færast nær. Þegar hann birtist í sjónvarpinu kæmi mér ekki á óvart þótt „góði Bjarni“ reynist hafa erft frá „einlæga Bjarna“ hin uppglenntu augu, og kannski mun röddin (næstum) bresta þegar hann lýsir því hvílík ástríða það er honum að hjálpa bágstöddum.
Spurningin er bara: Ætlum við að kaupa „góða Bjarna“? Munum við bresta í grát yfir þessum „sanna Bjarna Ben“ – eða þvert á móti bifast af hæðnislegum kuldahlátri?
Athugasemdir