Í dag er kjördagur.
Við höfum verið að skila auðum atkvæðum í áraraðir. Ungt fólk mætir ekki á kjörstað og er síðan frústrerað yfir miðaldra efnafólkinu sem hagar seglunum eftir sínum vindum.
Ég skil þennan táknræna gjörning. En hver hagnast á honum og hverju gæti hann komið til leiðar?
Er þetta alger uppgjöf? Trú á því að það sé ekki hægt að gera betur? Eða er þetta gert í einhverri von um byltingu? Að leyfa flokkum eins og Sjálfstæðisflokknum og Framsókn að keyra okkur inn í annað hrun – þaðan sem við getum risið aftur eins og fuglinn Fönix?
Ef þér finnst aumt lýðræðið sem falið er í því að kjósa á fjögurra ára fresti þá er það ennþá aumara þegar að stjórnmálamennirnir líta algjörlega framhjá auða atkvæðinu þínu. Bjarni Benediktson á eftir að vera jafn hrokafullur með það umboð sem hann fær sem forsætisráðherra hvort sem það er fullt af auðum kjörseðlum í kjörkassanum eða ekki.
Vel má vera að þú standir í þeirri trú að það þurfi að gera kerfisbreytingar til þess að vinna gegn spillingu og óhóflegri auðsöfnun og til þess að vinna að réttlátara heilbrigðis- og menntakerfi, en að þú treystir engum til þess að gera það. En það er mín trú að besti kosturinn í stöðunni sé að reyna að breyta því hvað er mögulegt í pólítík á Íslandi. Ekki með því að mótmæla með auðum atkvæðum eða mæta ekki á kjörstað heldur með því að kjósa þá flokka sem markvisst vilja vinna í þessum málum. Og ef raunin er sú að þeir standa sig ekki, þá að skora á þá, eða kjósa flokkana sem koma á sjónarsviðið í næstu Alþingiskosningum. Táknræni gjörningurinn sem felst í því að hunsa atkvæðagreiðsluna eða skila auðu kemur því aðeins til leiðar að við búum við óbreytt ástand. Við búum áfram við ríkisstjórnir, eins og þá sem núna hefur setið, sem túlka umboð sitt sem vilja fólksins í landinu og ganga síðan beint gegn hagsmunum þess.
Raunin er sú að í dag er með öllu óvíst hvort við fáum hægristjórn, sem boðar léttfarðaða nýfrjálshyggju eða vinstristjórn sem mögulega gæti þokað okkur í átt að réttlátara og jafnara samfélagi.
Í dag er kjördagur. Þú hefur til klukkan tíu í kvöld til þess að hafa áhrif. Þau áhrif eru lítil, en ef þú kýst flokka sem vilja gera þau meiri, þá hefurðu úr ýmsu að velja.
Mættu á kjörstað!
Athugasemdir