„Hlutleysi styður kúgarann, aldrei fórnarlambið. Þögnin er kvalaranum hvatning, aldrei hinum pínda. Stundum verðum við að grípa inn í. Þegar líf manneskju er í hættu, þegar mannlegri reisn er stefnt í voða skipta landamæri þjóða og viðkvæmni litlu máli. Hvar sem karlar og konur verða fyrir ofsóknum vegna kynþáttar, trúarbragða eða pólitískra viðhorfa verður sá sami staður – á þeim tímapunkti – að vera miðpunktur heimsins.“
Þetta eru orð Elie Wiesel. Heimurinn vissi en stóð hjá þegar hann var handtekinn fimmtán ára gamall og færður í útrýmingarbúðir nasista þar sem móðir hans og sjö ára gömul systir voru drepnar og faðir hans lést af vosbúð og veikindum.
Sextán ára gamall kom hann til Parísar, þar sem honum var veitt tækifæri til þess að koma undir sig fótunum og halda áfram. Seinna fékk hann Nóbelsverðlaunin fyrir að halda minningu hinna látnu á lofti, berjast við þá sem gleymdu, af því að ef við gleymum erum við sek, sagði hann. Hann hét sjálfum sér því að sjálfur myndi hann aldrei og hvergi þegja þar sem manneskjur þurfa að þola þjáningu og niðurlægingu, því við verðum að taka afstöðu.
Afleiðingar innrásarinnar
Elie lést nú í byrjun mánaðar, 87 ára að aldri, í sömu viku og hælisleitendur voru dregnir út úr íslenskri kirkju með lögregluvaldi og fluttir aftur til Noregs, þar sem þeir voru fangelsaðir. Þeir voru frá Írak, landi sem ráðist var inn í með stuðningi Íslands á lista hinna viljugu þjóða.
„Væntanlega eru þessir menn múslimar“
Fyrir innrásina var engin áætlun gerð um hvernig ætti að standa að uppbyggingu að henni lokinni, með þeim afleiðingum að glæpaflokkar gengu um óáreittir, lögreglan var lömuð og herinn leystur upp. Innviðir hrundu á örfáum vikum og upplausnarástand myndaðist.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur reynt að vekja athygli á neyð fólksins sem lenti á vergangi í kjölfar grimmilegra átaka þar í landi, þar sem börn standa frammi fyrir hættu á því að deyja, lenda í klóm mannræningja eða vera þvinguð til vopnaðra átaka. Síðustu 30 mánuði hefur 50 börnum verið rænt á mánuði að meðaltali.
Ábyrgð okkar
Við berum ábyrgð gagnvart þessu fólki. Ekki aðeins vegna þess að við berum almennt siðferðislega ábyrgð gagnvart fólki sem býr við eymd eða er í hættu, heldur er ábyrgð okkar áþreifanleg vegna aðkomu Íslands að innrásinni. En þegar okkur gafst tækifæri til að rétta út hjálparhönd notuðum við hana til að bægja þeim frá okkur, aftur út í óttann og óvissuna. Umsóknirnar fengu ekki efnislega meðferð hjá Útlendingastofnun, sem beitti Dyflinnarreglugerðinni til að senda þá aftur til þess ríkis þar sem þeir sóttu fyrst um hæli. Reglugerðin kveður ekki á um slíkar aðgerðir, en heimilar þær og er grimmilega beitt hér á landi, þar sem langflestir hælisleitendur eru sendir burt á þessum forsendum.
Nú þegar aldrei fleiri hafa neyðst til að flýja heimili sín frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk, þegar myndir af drukknuðum börnum urðu þess valdandi að þúsundir Íslendinga buðu fram aðstoð sína við að taka á móti fleiri flóttamönnum, er afstaða Útlendingastofnunar skýr, að vísa sem flestum burt.
Á síðasta ári komust 147 hælisleitendur alla leið til Íslands. Af þeim fengu 25 hæli. Hinum var vísað burt. Alveg eins og gyðingunum í seinni heimsstyrjöldinni. Eins og langveiku börnin frá Albaníu, sem voru flutt á brott í lögreglufylgd að næturlagi. Við vissum af neyðinni en stóðum hjá.
Örvæntingin
Ali Nasir, annar hælisleitandinn sem dreginn var út úr kirkjunni, sagðist vera sextán ára gamall, jafngamall Elie þegar hann kom til Frakklands og fékk tækifærið sem við meinuðum Ali um, og jafngamall Gashem Mohammadi þegar hann flúði Afganistan þar sem faðir hans barðist gegn talibönum. Flóttinn endaði á Íslandi þar sem Gashem dagaði uppi og lá afskiptur í hungurverkfalli dögum saman eftir tæplega tveggja ára bið við svari við því hvort Útlendingastofnun tæki mál hans til efnislegrar meðferðar.
„Það er vegna þess að við getum ekki treyst ókunnugum“
Það er ekki aðeins biðin sem reynir á. Óvissan, tortryggnin og sinnnuleysið hefur oft ýtt hælisleitendum út af brúninni þannig að þeir hafa gripið til örþrifaráða, farið í hungurverkföll, hótað að kveikja í sér, gert tilraunir til sjálfsvíga og framið slík, einir í landi þar sem þeir hafa ekkert fyrir stafni og vita ekki hvað verður en óttast að sín bíði sömu örlög og Ali og albönsku barnanna.
Útlendingastofnun hefur greint frá því að Ali hafi framvísað vegabréfi þar sem hann var sagður 19 ára. Hann gaf þær skýringar að hafa ferðast á fölskum skilríkjum en ekki þorað að viðurkenna það fyrir yfirvöldum. Slíkur ótti er ekki tilhæfulaus, því íslenska ríkið hefur ítrekað orðið uppvíst að því að brjóta á flóttamönnum með því að fangelsa þá fyrir skjalafals.
Það verður seint hægt að segja að framganga Útlendingastofnunar eða annarra fulltrúa ríkisins sé í þeim anda sem Elie talaði fyrir.
Vegna þess að blaðamaður var á vettvangi þegar Írakarnir voru dregnir úr kirkjunni náðist upptaka af því þegar lögreglumaður sló til vinar hans. Fyrr á árinu náðist myndband af því þegar lögreglan sneri annan hælisleitanda niður í Leifsstöð á meðan hann ákallaði Jesús. Sérsveitin ruddist með látum inn á heimili hælisleitenda í Kópavogi sem voru færðir á nærfötunum í fangaklefa, að því er virðist fyrir órökstuddan grun um glæpsamlegt athæfi. Í annan stað fóru starfsmenn Útlendingastofnunar inn í íbúð hælisleitanda og handléku persónulega muni hans, fjölskyldumyndir og annað, á meðan hann var vistaður á geðdeild.
Heimsóknarbannið
Framkoma Útlendingastofnunar gagnvart hælisleitendum er ekki tilviljun. Stofnunin heyrir undir innanríkisráðuneytið og ráðherra fer með yfirstjórn útlendingamála. Engin skrifleg stefna er til fyrir Útlendingastofnun sem starfar eftir útlendingalögum, en forstjórinn hefur ítrekað gerst uppvís um skort á samkennd gagnvart hælisleitendum eða skilningi á þeirra aðstæðum.
Þannig sagði hann það til dæmis eðlilega ákvörðun að senda albönsku börnin aftur úr landi án þess að vita að heilbrigðiskerfið í Albaníu er einkavætt svo þau höfðu ekki aðgang að því. Áður hafði hann talað um hælistúrisma, og sagt hælisleitendur leita til Íslands til að fá frítt uppihald.
Nú vill hann banna sjálfboðaliðum og fjölmiðlum að heimsækja hælisleitendur. Ef ekki hefði verið fyrir íslenska velgjörðarmenn hefði saga albönsku barnanna aldrei heyrst. Þau væru enn úti að þjást.
Það sama má segja um aðra hælisleitendur sem hafa fengið vafasama meðferð hér landi, eins og Eze Okafor sem flúði Boko Haram til Íslands en var sendur úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar fjórum árum eftir komuna. Eða Tony Omos sem var sendur burt frá barnshafandi unnustu sinni og níddur af ráðuneytinu í fjölmiðlum. Bann við heimsóknum til hælisleitenda jafngildir tilraun til að þagga niður raddir þeirra og einangra þá félagslega, og viðgengst með blessun ráðherra.
Hræðsluáróðurinn
Útlendingalögin sem stofnunin starfar eftir voru á sínum tíma lögð fram undir þeim formerkjum að árásin á Tvíburaturnana í Bandaríkjum hefði knúið ríki til að grípa til úrræða í baráttunni gegn hryðjuverkum, endurskoðun laganna væri liður í því, meðal annars til að ganga úr skugga um að hryðjuverkamönnum yrði ekki veitt hæli hér. „Með þessu hefur verið reynt að sporna við því að hryðjuverkamenn úr fjarlægum heimshlutum hreiðri um sig í Evrópuríkjum og myndi jafnvel net umfangsmikillar hryðjuverkastarfsemi þar sem þeir undirbúa ódæðisverk sín óáreittir jafnvel árum saman,“ sagði Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, þegar hún lagði frumvarpið fram, sem átti ekki aðeins að fjalla um réttindi útlendinga heldur einnig rétt íslenskra stjórnvalda til að hafa ákveðna stjórn á þessum málum. „Hvar er réttur íslenskra borgara til verndar gagnvart þessu fólki?“
Björn Bjarnason tók síðan við dómsmálaráðuneytinu og ítrekaði mikilvægi þess að verja landamærin, heilbrigð skynsemi væri að senda menn aftur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
„Til hvers höfum við útlendingaeftirlit? Af hverju læsum við dyrunum, áður en við förum eitthvað?“ spurði Hannes Hólmsteinn í tengslum við lekamálið og svaraði því svo sjálfur, „það er, af því að við getum ekki treyst ókunnugum.“
„Hvar er réttur íslenskra borgara til verndar gagnvart þessu fólki?“
Maðurinn sem setti Ísland á lista hinna viljugu þjóða, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi hefur ítrekað varað við flóttamönnum og hælisleitendum, hvatt stjórnvöld til að takmarka straum þeirra til Íslands, haldið því fram í leiðurum að útlendingar sæki í auknum mæli í velferðarkerfi Íslendinga, talað um flóttamenn í gæsalöppum eins og þeir séu lygarar, varað við því að sökkva Íslendingum á kaf í afleiðingar upplausnarinnar, og gert grín að umræðunni um afleiðingar innrásarinnar í Írak.
Á Morgunblaðinu, sem hann stýrir, fær skopmyndateiknarinn síðan frítt spil til þess að birta hræðslu- og hatursáróður gagnvart hælisleitendum, í takt við það sem viðgengst á Útvarpi Sögu.
Þar hefur hræðsluáróðurinn gengið svo langt að hælisleitendur á Kjalarnesi voru sakaðir um að hafa nauðgað dreng án þess að nokkuð lægi þar að baki og Ali, sextán ára gamli hælisleitandinn sem var dreginn út úr íslenskri kirkju, var bendlaður við Isis.
Afskiptaleysi andstæða ástar
„Væntanlega eru þessir menn múslimar,“ skrifaði vararíkissaksóknari um leið og hann lét presta heyra það fyrir aðgerðir í þágu mannúðar. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins hótaði að beita sér fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju ef þjóðkirkjan heldur áfram að styðja hælisleitendur. Áður óskaði annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins eftir því að það yrði rætt alvarlega á þingi að loka landamærum Íslands fyrir flóttamönnum og hælisleitendum, þannig að þeim yrði snúið við á Keflavíkurflugvelli og sendir til síns heima.
Það skýtur skökku við að við sem þrífumst á viðurkenningu umheimsins virðumst ekki geta sýnt þeim sem leita hingað í neyð samkennd og virðingu.
Jafnvel þótt þeirri stefnu verði viðhaldið að vísa sem flestum burt frá Íslandi er enn svigrúm til að gera svo mikið betur í framgöngu okkar við hælisleitendur til þess að gera biðina bærilegri. Við gætum sýnt mannúð og leyft þeim að halda reisn sinni.
Elie Wiesel benti á að andstæðan við ást er ekki hatur heldur afskiptaleysi. Við getum ekki alltaf komið í veg fyrir að óréttlæti viðgangist, en við megum ekki láta hjá líða að mótmæla því. „Munið að með því að láta sér standa á sama er hægt á svo margvíslegan hátt að hjálpa hinu illa að sigra,“ sagði hann. „Látið ykkur aldrei standa á sama.“
Athugasemdir