Einn þeirra grandvöru stjórnenda sem kommúnistarnir í Eflingu hröktu burt er fyrrverandi fjármálastjóri félagsins sem var með fjármuni þess í sjóðastýringu hjá Gamma og vill nú tugmilljóna króna starfslokagreiðslur frá félaginu.
Það er með talsverðum ólíkindum að fyrrverandi stjórnendur félagsins hafi talið það viðeigandi að fara með fé félagsins undir regnhlíf Gamma og síðar Kviku þar sem safnast saman persónur og leikendur hrunsins sem vilja taka annan snúning með lífeyri landsmanna eða það sem eftir er af honum eftir síðasta hrun. Nær einn og hálfur milljarður af fé Eflingar, eða fjórtán prósent af heildareign félagsins, voru þannig í áhættusamri sjóðastýringu hjá Gamma. Það vill félögum í hreyfingunni til happs að núverandi forysta vildi ekki vera í samkrulli með Gamma.
Samkvæmt könnun Íbúðalánasjóðs sem gerð var á stöðu leigjenda eru um 16 til 18 prósent landsmanna á leigumarkaði, flestir gegn vilja sínum þar sem þeir eiga ekki kost á öðru. Meirihluti leigjenda er kornungt fólk, einstæðir foreldrar eða lágtekjufólk sem býr við stöðugt og nagandi óöryggi í húsnæðismálum, flytur oftast og greiðir meira en helming ráðstöfunartekna sinna í leigu. Nánast helmingur allra félagsmanna í Eflingu er á leigumarkaði.
Skömmu áður en nýir stjórnendur Eflingar tóku ákvörðun um að taka fjármuni sína úr sjóðastýringu hjá Gamma hafði verið fréttaflutningur af leiguokri Almenna leigufélagsins sem bauð leigjendum að endurnýja 12 mánaða leigusamning gegn tugþúsunda hækkun á mánaðarleigu en margir áttu engan annan kost en að samþykkja eða enda á götunni. Almenna leigufélagið og eigandi þess, Gamma, sem sá um að ávaxta pund verkalýðsfélagsins hafði semsagt gert sér þetta fólk að féþúfu auk þess að hafa milljarðasjóði til að braska með, eldsneytið var stéttarfélagsgjaldið í Eflingu, fé lífeyrissjóða, iðgjaldagreiðslur tryggingafélaga og fleira.
„Þar með væri hluti af peningum verkalýðsfélagsins kannski líka farinn niður í ræsið ef núverandi „ógnarstjórn“ hefði ekki tekið þá og ávaxtað annars staðar“
Nú er komið í ljós að eignir tveggja fjárfestingasjóða Gamma sem voru metnar á 4,4 milljarða eru að engu orðnar. Þar með væri hluti af peningum verkalýðsfélagsins kannski líka farinn niður í ræsið ef núverandi „ógnarstjórn“ hefði ekki tekið þá og ávaxtað annars staðar. Það er nú gott fyrir fyrrverandi fjármálastjóra og skrifstofustjóra því að þeirra mati eiga félagsmenn Eflingar núna að greiða tugi milljóna í starfslokagreiðslur til þeirra.
Fjöldi fólks, væntanlega líka félagsmenn í Eflingu, hefur misst vinnu við byggingaframkvæmdir á vegum Upphafs, verktakafyrirtækis í eigu Gamma Novus sem er með 270 íbúðir í byggingu, það fær væntanlega ekki auknar starfslokagreiðslur en vonandi einhverja fyrirgreiðslu frá verkalýðsfélaginu sínu, þar sem peningarnir eru ekki tapaðir.
Stjórnendurnir fyrrverandi hafa gert mikið úr því að núverandi formaður hafi viljað vaða í sjóði félagsins til að greiða blaðamanni fyrir umfjöllun á Facebook og vef félagsins um fólkið í hreyfingunni. Þannig var fjármálastjórinn sjúkraskrifaður enda veikur af hneykslun yfir þessari meðferð á fjármunum félagsins, en þó mest yfir því að féð væri tekið úr öruggri sjóðastýringu frá Gamma sem gæti túlkast sem vantraust af hálfu forystunnar.
Fjármálastjórinn er nú með bótakröfur á hendur félaginu fyrir atvinnumissi og vill full laun í þrjú og hálft ár, fram að eftirlaunaaldri, sem nema allt að 40 til 50 milljónum króna að mati félagsins. Ekki hefur komið fram hvað skrifstofustjórinn krefst þess að fá mikið í starfslokagreiðslur að auki umfram það sem var samið um þegar hann lét af starfi en þá stóð hann á sjötugu.
Málarekstur þessa fólks gegn núverandi forystu og kröfur um bætur vegna starfsloka hjá félaginu kemur spánskt fyrir sjónir því öllum mátti vera ljóst í aðdraganda hallarbyltingarinnar innan Eflingar að starfsfólkið stóð gegn núverandi forystu og allt þetta fólk hefði átt erfitt með að vinna saman að fullum heilindum eftir það sem á undan var gengið.
Verkalýðsfélögin liggja á gríðarlega miklum peningum og ekki undarlegt að ævintýramenn hjá fjárfestingasjóðum renni til þeirra hýru auga. En kannski ætti fyrrverandi forysta Eflingar að hugsa sig tvisvar um núna, eftir að fjármunum félagsins var bjargað fyrir horn, hvort þau eigi rétt á milljóna greiðslum frá félaginu til viðbótar við það sem þau áttu sannarlega rétt á samkvæmt kjarasamningi?
Og kannski ættu lífeyrissjóðir landsins að láta sér þetta að kenningu verða og fara að fjárfesta meira með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi? Ekki í eiturspúandi verksmiðjum eða óafturkræfum náttúruspjöllum eða áhættusömum fjárfestingasjóðum sem okra á fólki. Er virkilega ekki hægt að byggja leiguíbúðir yfir fólk án þess að peningarnir millilendi í hreiðri hrægamma?
Kannski voru núverandi stjórnendur verkalýðsfélagsins engir spámenn en breytni þeirra leiðir í ljós að það getur stundum borgað sig að vera samkvæmur sjálfum sér.
Það er hægt að gleðjast yfir því.
Athugasemdir