Í fyrrra tóku 485.200 manns þátt í verkföllum og vinnustöðvunum í Bandaríkjunum, fleiri en nokkru sinni síðan 1986. Þessi verkfallsbylgja er fyrst og fremst knúin áfram af vaxandi róttækni kennara. 370.000 kennarar lögðu niður störf árið 2018. Og það er ekkert lát á aðgerðunum. Þvert á móti virðast verkfallsaðgerðir kennara vera að breiðast út.
Verkföllin eru merkileg fyrir margra hluta sakir, ekki síst þá að verkföll eru fátíð í Bandaríkjunum þar sem verkalýðs- og stéttarfélög eru mjög veikburða. Aðeins rétt 10,7 prósent bandarísks launafólks er í stéttarfélagi. Verkföll margra stétta, til dæmis opinberra starfsmanna eins og kennara, eru beinlínis ólögleg í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Árið 2017 tóku því ekki nema 25.000 manns þátt í verkföllum.
Verkföll síðasta árs eru því mjög óvenjuleg, og fara þarf allt aftur til aldamótanna 1900 og fyrstu áratuga 20. aldar til að finna verkföll af sambærilegri stærðargráðu.
Athugasemdir