„Mitt loforð til þín elsku mamma, er að halda þér á lífi í sjálfri mér. Ég skal varðveita og tileinka mér alla þína fallegu eiginleika og styrkinn sem þú hafðir að geyma. Ég vil að allir þeir sem minnast þín hugsi um þig en ekki fíkilinn, því það varst ekki þú.“
Þetta skrifar Súsanna Margrét Gunnarsdóttir, dóttir Aðalheiðar Huldu Jónsdóttur, 43 ára konu sem fannst látin í Grindavík fimmtudaginn 7. febrúar. Aðalheiður skilur eftir sig þrjú börn en bænastund var haldin í Grindavíkurkirkju í gærkvöldi.
„Mín von er sú að þið minnist hennar mömmu sem lífsglöðu Öllu Huldu en ekki fíkilsins sem varð því miður sterkari oft á tíðum og náði mikið yfir á seinustu árum,“ skrifar Súsanna, dóttir hennar.
„Þetta er eitthvað sem ég reyndi að búa mig undir og grunaði að myndi gerast vegna annarlegs ástands hennar en svoleiðis er bara ekki hægt að gera. Mig verkjar í hjartanu að þurfa að horfast í augu við blákaldan raunveruleikann og á ég erfitt með að skrifa eða segja upphátt hvað er í raun og veru búið að gerast. Fíkillinn í henni hafði staldrað við í lengri tíma í senn en hann áður gerði og varð það dýrkeypt fyrir okkar samband.“
Súsanna segir að hún hafi alltaf verið hörðust við mömmu sína og sér þyki það sérstaklega erfitt núna. „Ég vildi bara fá mömmu mína til baka en ekki fíkilinn. Ég elskaði hana meir en orð fá lýst þó ég gat ekki alltaf sagt ég elska þig til baka við hana né horft í augu hennar þegar við töluðumst við og það er eitthvað sem ég gat ekki gert í mínu síðasta samtali við hana sem mér þykir ansi þungbært.“
Hún hvetur fólk til að taka utan um þá sem því þykir vænt um og að taka ekki hverjum degi sem sjálfsögðum hlut.
„Þegar fíkilinn fór í hlé varstu lífsglaðasta manneskja sem ég hef á ævinni kynnst, vinkonur mínar elskuðu þig og sumar litu meira að segja á þig sem mömmu númer tvö. Elsku góða hjartað þitt sem þú hafðir að geyma yndislega mamma mín, vildir allt fyrir alla gera elsku hjartað mitt. Þú varst fyndnust í hverju einasta herbergi sem þú labbaðir inní og það var alltaf gaman í kringum þig. Ég veit ekki hvernig ég fer að án þín en ég veit samt sem áður að þú lýsir leiðina, fylgir mér og færir mér kraftinn til að takast á við lífið og gerir hið sama fyrir strákana þína, foreldra og alla þá sem urðu svo heppnir að verða á vegi þínum. Ég elska þig mamma mín, alltaf.“
Súsanna segir mömmu sína hafa lýst upp hvert augnablik með sínu stóra fallega brosi og hlátrinum.
„Góðhjartaðari og fyndnari manneskju hef ég aldrei fundið og veit ég að mörg ykkar hafa sömu sögu að segja um elsku hjartans mömmu mína. Ég vonast til þess að þið hugsið til hennar blíðlega, minnist hennar og talið við hana þó þið sjáið hana ekki lengur. Ég vona að þegar þið heyrið í Whitney Houston þá hugsiði strax til hennar og vonandi dilliði ykkur eða syngið með, því ég veit að hún gerir það með ykkur. Ég vona að hún verði alltaf ljós í hjartanu ykkar líkt og mínu, ég veit hún gefur okkur styrkinn sem við sem hana þekktum þurfum og lýsir fyrir okkur leiðina í gegnum lífið.
Aldrei hætta að tala um hana, því hún er og verður alltaf hér hjá okkur. Endilega deilið minningum um hana og við skulum minnast hennar með kærleika efst í huga.“
Vitnað er í skrif Súsönnu Margrétar með góðfúslegu leyfi hennar.
Athugasemdir