Mér finnst frábært að gera ráð fyrir list í deiliskipulagi, til fyrirmyndar, og vil endilega að það haldi áfram. En afsakið, ég skil ekki: pálmatré í glerhjúp? Afsakið, tvö pálmatré. Í glerhjúp. Sitthvorum glerhjúpnum. Ekki saman í litlum hitabeltisgarði sem hægt er að stíga inn í og ganga um, heldur í sitthvorum glerhólknum. Hvað verða þetta stórir hólkar? Verður hægt að dansa í kringum trén á jólunum?
Ég geri ráð fyrir því að hitabeltispálmatrjám verði plantað, úr því að þau þurfa glerhjúp til að halda lífi. Því það eru til pálmatré sem að þola allt að -15° frost sem þyrftu ekki slíkan verndarhjúp. Þannig að þessi glerhjúpur þarf væntanlega að vera rakur og heitur til þess að líkja eftir hitabeltisloftslagi. Ég skil ekki hvernig það á að ganga upp á veturna. Munu glerhjúparnir ekki verða allir út í móðu í frostinu? Eða á það bara við um bíla, eða þegar maður er að sjóða pasta? Og pálmatré þurfa mikla sól. Á að setja sólarlampa í þessa glerhjúpa líka? Hver verður eiginlega kostnaðurinn við viðhald á þessu listaverki?
Afsakið en ég bara skil ekki hvernig þetta er góð hugmynd. Ég er ekkert að vera neikvæð eða neitt en ég sé ekki alveg hvernig þetta dæmi á að ganga upp, eða þá til hvers. Þetta eru tré sem eru föst inn í glerhjúp og munu því ekki hafa mikið rými til þess að vaxa neitt svakalega mikið. Þessi glerhjúpur á að vera 30 metrar á hæð, en sum pálmatré geta orðið allt að 60 metrar á hæð. Eða á að byrja á því að sá fræunum þannig að trén verða kannski komin í hnéhæð eftir 20 ár? En hvað svo? Hvað skilur þetta eftir sig? Hvað ef trén deyja? Verða þá bara tveir glerhjúpar eftir? Verður þá hægt að nota glerhjúpana sem meðferð gegn skammdegisþunglyndi?
Ég skil ekki hvernig í ósköpunum hægt er að réttlæta það að eyða 140 milljónum í pálmatré. Ég veit ekki, mér líður smá eins og sú þýska sé að gera grín að okkur. Athuga hvort hún gæti selt Íslendingunum pálmatré fyrir 140 milljónir, við erum jú búin að kaupa strá á tæpa milljón.
Ég veit ekki, þið verðið að afsaka. Þetta verða örugglega flottustu pálmatrén á Íslandi, ég bara skil ekki neitt.
Athugasemdir