Bára Halldórsdóttir, 42 ára öryrki sem hljóðritaði háværar samræður þingmanna á Klaustri bar þann 20. nóvember, er mætt í Héraðsdóm Reykjavíkur ásamt lögmönnum sínum, Ragnari Aðalsteinssyni og Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur, vegna fyrirhugaðs málareksturs fjögurra þingmanna gegn henni.
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, vilja að Bára sæti refsingu og greiði þeim miskabætur vegna „njósnaaðgerðar“ sem þeir segjast hafa orðið fyrir. Þá vilja þeir einnig að Persónuvernd sekti Báru. Þetta er ljóst af bréfum sem lögmaður þingmannanna hefur sent Persónuvernd og héraðsdómi.
Ljóst er að Bára nýtur talsverðs stuðnings í samfélaginu. Boðað hefur verið til samstöðufundar í dómshúsinu meðan þingfestingin fer fram.
Bára leit við á ritstjórnarskrifstofu Stundarinnar áðan og tók við litlum glaðningi sem barst ritstjórninni á dögunum, eins konar þakklætisorðu sem ætluð var henni. Maðurinn sem lét smíða gripinn vildi ekki láta nafns síns getið eða beina athyglinni að sjálfum sér, en bað um að Báru yrði færð orðan með þakklætis- og kærleikskveðju.
Tugir manna eru saman komnir í dómshúsinu þegar þetta er ritað. Þingmennirnir fjórir létu ekki sjá sig en lögmaður þeirra, Reimar Pétursson, mætti fyrir þeirra hönd.
Athugasemdir