Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Túlkun forsætisnefndar: Þingmenn þurftu ekki að fylgja fyrirmælum um bílaleigubíla – skrifstofan enn að „innleiða“ reglurnar

Ákvæði siða­reglna al­þing­is­manna, um að þeir skuli sjá til þess að end­ur­greiðsla fyr­ir út­gjöld sé í full­komnu sam­ræmi við regl­ur um þing­far­ar­kostn­að, tók ekki til reglna um bíla­leigu­bíla þrátt fyr­ir að skrif­stofa þings­ins bæði þing­menn um að fylgja regl­unni.

Túlkun forsætisnefndar: Þingmenn þurftu ekki að fylgja fyrirmælum um bílaleigubíla – skrifstofan enn að „innleiða“ reglurnar

15. gr. siðareglna alþingismanna, um að þeir skuli sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur um þingfararkostnað, tók ekki til reglunnar um að þingmenn sem ækju meira en 15 þúsund kílómetra á ári í starfi sínu skyldu notast við bílaleigubíl.

Þetta er túlkun forsætisnefndar Alþingis sem hafnaði í gær beiðni Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata um að fram færi rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar og annarra þingmanna og ákvað að beina málinu ekki til ráðgefandi siðanefndar.

Ástæða þess að forsætisnefnd telur þingmenn ekki hafa þurft að fylgja reglunni um bílaleigubíla er sú að skrifstofa Alþingis er sögð enn hafa verið að „innleiða breyttar reglur“.

Innleiðingunni hafi ekki lokið fyrr en í febrúar 2018, einmitt um það leyti sem upplýst var að nokkrir þingmenn hefðu fengið milljónir endurgreiddar umfram það sem reglur um þingfararkostnað gáfu til kynna að þeir ættu rétt til.

Hin frjálslega túlkun forsætisnefndar á 15. gr. siðareglnanna að því er viðkemur reglunni um bílaleigubíla er athyglisverð, enda hefur skrifstofa Alþingis greint frá því að þingmenn sem keyrðu meira en 15 þúsund kílómetra árlega á eigin bifreið, þvert á reglur um þingfararkostnað, hefðu ítrekað verið beðnir um að skipta yfir á bílaleigubíl. Nokkrir hefðu kosið að gera það ekki og borið við að „þægilegra“ væri að nota eigin bíl. 

Skrifstofa Alþingis reiknaði út og komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að hagkvæmara væri fyrir Alþingi að þingmenn sem ækju meira en 15 þúsund kílómetra á ári notuðust við bílaleigubíl. Í kjölfarið, í október 2016, var slíkt kílómetramark sett inn í reglur forsætisnefndar um þingfararkostnað og þingmönnum tilkynnt sérstaklega um breytinguna. „Var það kynnt þingmönnum, sérstaklega nýjum þingmönnum, eftir kosningarnar 2016 og enn fremur eftir kosningarnar 2017, með tölvupósti til þeirra þingmanna sem það varðaði,“ segir í greinargerð þingskrifstofunnar frá 26. febrúar síðastliðnum.

„Alveg frá upphafi kjörtímabils 2013 hefur verið haft samband við þingmenn sem aka mikið og þeir hvattir til að nota fremur bílaleigubíla en eigin bifreið ef hagkvæmara hefur þótt. Sumir hafa brugðist við því og orðið við ábendingum en aðrir ekki. Hefur því verið borið við að miklu þægilegra væri fyrir þingmenn að nota eigin bíl; oft færi saman akstur í þágu þingstarfsins og einkaakstur, bílaleigubílar væru ekki nógu stórir og öflugir til vetrarferða og afnotaréttur að bílaleigubílum væri ekki nægilega skýr (einkaafnot, tryggingar o.s.frv.).“ 

Í greinargerðinni kemur fram að þingmennirnir sem áttu í hlut hafi rætt við formenn þingflokka og forseta og óskað eftir því að breyttri framkvæmd yrði frestað meðan farið yrði yfir athugasemdir þeirra. Ekki er greint frá því hvort orðið hafi verið við þeirri beiðni. 

Björn Leví Gunnarsson hefur kreist fram upplýsingar um akstursgreiðslur þingmanna og kallað eftir rannsókn.

Af niðurstöðu forsætisnefndar má þó ráða að nefndin telji þingmenn hafa haft sjálfdæmi um hvort þeir fylgdu reglunni um bílaleigubíla. Þannig virðist 14. gr. siðareglnanna – hið afdráttarlausa ákvæði um að þingmönnum beri að „sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál“ – ekki hafa tekið til þeirrar reglu, að minnsta kosti ekki fyrr en eftir að „innleiðingu“ reglunnar lauk í febrúar 2018.

Þann 22. febrúar 2018 var svo reglum um bílaleigubíla breytt. Í stað þess að kveðið sé á um að þegar þingmaður þurfi að aka meira en 15 þúsund kílómetra skuli hann notast við bílaleigubíl er reglan nú orðuð með eftirfarandi hætti: „Ef áætla má að alþingismaður þurfi í starfi sínu að aka meira en svarar 15.000 km á ári á eigin bifreið skal skrifstofan láta honum í té bílaleigubifreið til afnota […]. Óski alþingismaður eigi að síður að nota eigin bifreið falla greiðslur niður þegar 15.000 km-markinu er náð, svo og heimild til að nota bílaleigubíl.“

Ásmundur Friðriksson hefur endurgreitt skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur sem hann fékk vegna ferða sem hann fór um kjördæmi sitt með tökufólki frá sjónvarpsstöðinni ÍNN. Í bréfi sem hann sendi forsætisnefnd þann 23. nóvember viðurkennir Ásmundur að það hafi „orkað tvímælis“ að hann fengi kostnað við ferðirnar endurgreiddann. 

Forsætisnefnd Alþingis telur hins vegar að ekkert hafi komið fram sem gefi til kynna að hátterni Ásmundar hafi verið andstætt siðareglum alþingismanna. Þá telur forsætisnefnd ekki ástæðu til að vísa málinu til ráðgefandi siðanefndar og fela henni að meta hvort Ásmundur hafi brotið gegn hátternisskyldum sínum eða meginreglum um hátterni.

Þingmenn Pírata gagnrýndu málsmeðferðina harðlega á Alþingi í gær. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði að Birni Leví hefði verið hótað því að hann yrði sjálfur látinn sæta ábyrgð samkvæmt siðareglum fyrir að hafa sent inn erindið um að akstursgreiðslur þingmanna yrðu rannsakaðar. Var þessari frásögn ekki mótmælt af þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, varði ákvörðun forsætisnefndar af hörku og sagðist vona að málinu væri lokið fyrir fullt og allt. 

Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata í forsætisnefnd tók til máls og benti á að samkvæmt siðareglum þingmanna bæru þeir að sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra væru í fullkomnu samræmi við reglur um slík mál, og að í reglum um þingfararkostnað á sínum tíma hefði komið fram að þegar alþingismaður þyrfti að fara meira en 15.000 km í starfi sínu skyldi hann fá afnot af bílaleigubíl frá skrifstofu Alþingis.

Steingrímur J. Sigfússonforseti Alþingis

„Háttvirtur þingmaður Ásmundur Friðriksson viðurkennir í Kastljóssviðtali, og það fylgir endurskrift af þeim texta með þeim gögnum sem eru á vef Alþingis og eru opinber öllum, að skrifstofan hafi komið til hans og sagt honum að fara á bílaleigubíl en hann hafi ekki viljað það. Hann heldur því áfram að senda inn ósk um endurgreiðslur sem hann svo fær,“ sagði Jón Þór. „Það er klárt brot. Þetta er bara brot samkvæmt reglunum. Það er öllum landsmönnum ljóst sem vilja skoða það.  Þetta eru gögn málsins. Látum gögn málsins tala sínu máli.“

Steingrímur svaraði þessum athugasemdum Jóns Þórs með eftirfarandi hætti: „Hann [Ásmundur Friðriksson] er einn af svokölluðum heimanakstursþingmönnum og það er rétt að nokkrir þeirra voru enn að nota eigin bíla eftir að tilmæli um að taka bílaleigubíla við 15.000 km mörkin voru komin fram, en skrifstofan hefur útskýrt hvernig það mál er vaxið, að innleiðingin hafi verið í gangi, og það er ekkert síður við það að sakast að forsætisnefnd og skrifstofan höfðu ekki sett skýrar reglur um notkun slíkra bíla. Það er því algerlega augljóst mál að þeir þingmenn voru í góðri trú hvað þetta varðar.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Akstursgjöld

Lækkanir aksturgreiðslna sýna fram á kosti gagnsæis
Úttekt

Lækk­an­ir akst­ur­greiðslna sýna fram á kosti gagn­sæ­is

Veru­leg­ar upp­hæð­ir spar­ast í akst­urs­kostn­aði þing­manna eft­ir að upp­lýs­ing­ar um end­ur­greiðsl­ur til þeirra voru gerð­ar op­in­ber­ar. Kostn­að­ur vegna akst­urs þing­manna nam alls 42,7 millj­ón­um króna ár­ið 2017, í fyrra hafði upp­hæð­in lækk­að nið­ur í 30,7 millj­ón­ir og í ár er reikn­að með því að kostn­að­ur­inn endi í 26 millj­ón­um.
Siðanefnd: Þórhildur Sunna „skaðaði ímynd“ Alþingis með ummælum um Ásmund
Fréttir

Siðanefnd: Þór­hild­ur Sunna „skað­aði ímynd“ Al­þing­is með um­mæl­um um Ásmund

For­sæt­is­nefnd vildi ekki láta kanna hvort Ásmund­ur Frið­riks­son hefði brot­ið siða­regl­ur þeg­ar hann fékk end­ur­greidd­an akst­urs­kostn­að langt um­fram það sem regl­ur um þing­far­ar­kostn­að gera ráð fyr­ir. Hins veg­ar vís­aði for­sæt­is­nefnd kvört­un Ásmund­ar und­an Þór­hildi Sunnu og Birni Leví til siðanefnd­ar Al­þing­is – og nú hef­ur siðanefnd­in kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að Þór­hild­ur Sunna hafi brot­ið siða­regl­ur.
Akstursgreiðslumál „ekki sambærileg“ Klaustursmáli og engin álitaefni um hæfi
Fréttir

Akst­urs­greiðslu­mál „ekki sam­bæri­leg“ Klaust­urs­máli og eng­in álita­efni um hæfi

Helgi Bernód­us­son, skrif­stofu­stjóri Al­þing­is, seg­ir að ekki hafi ver­ið tal­ið til­efni til að beina því til nefnd­ar­manna for­sæt­is­nefnd­ar að meta hæfi sitt með hlið­sjón af regl­um stjórn­sýslu­rétt­ar­ins þeg­ar er­indi Björns Levís Gunn­ars­son­ar um akst­urs­kostn­að þing­manna voru af­greidd. Er­indi Björns hafi ekki feng­ið „stöðu siða­reglu­máls“.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár