Dregin er upp röng mynd af fjárhagsvanda Íslandspósts í minnisblaði sem fjármálaráðuneytið sendi fjárlaganefnd Alþingis 6. september síðastliðinn. Stundin hefur minnisblaðið undir höndum en þar er lausafjárvandi ríkisfyrirtækisins rakinn til „versnandi afkomu alþjónustu“ og fækkunar bréfasendinga. Um er að ræða sams konar skýringar og ráðuneytið gaf í tilkynningu þann 14. september um 500 milljóna lánveitingu ríkisins til Íslandspósts.
Í breytingartillögu sem meirihluti fjárlaganefndar gerði við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í síðustu viku var lagt til, að ósk fjármálaráðuneytisins, að ríkið endurlánaði allt að 1500 milljónir til Íslandspósts á næsta ári.
Við endanlega afgreiðslu fjárlaga fór þó svo að fjárlaganefnd dró tillöguna til baka og ákvað að kalla eftir frekari skýringum áður en heimildin yrði veitt.
Í nýlegri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), þar sem beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar er hafnað, kemur skýrt fram að samkvæmt fyrirliggjandi bókhaldsupplýsingum á rekstrarvandi fyrirtækisins „ekki rót sína að rekja til einkaréttarstarfseminnar eða alþjónustukostnaðar ÍSP“.
Eins og stofnunin hefur áður bent á hefur Íslandspóstur þegar fengið magnminnkun bréfa innan einkaréttar að fullu bætta í gegnum gjaldskrárbreytingar undanfarin ár.
Fram kom í ákvörðun PFS frá 23. janúar 2018 að rekstrarafkoma einkaréttarins hefði verið „vel viðunandi“, en þeirri afkomu er ætlað að standa undir alþjónustuskyldum sem hvíla á fyrirtækinu. „Að mati PFS eru því möguleg vandamál í tengslum við afkomu fyrirtækisins ekki tilkomin vegna þeirra skyldna sem hvílt hafa á fyrirtækinu vegna alþjónustu á undanförnum árum.“
Samkvæmt hinni nýju ákvörðun, sem var birt 8. nóvember síðastliðinn, eru þessar forsendur í meginatriðum óbreyttar í þeim skilningi að það er ennþá hagnaður af starfseminni. PFS bendir á að árið 2017 var „afkoma einkaréttar mjög góð samkvæmt starfsþáttayfirliti ÍSP“ og segir um yfirstandandi ár: „Áætlað tekjutap einkaréttar vegna magnminnkunar umfram áætlun ársins er lægra en sem nemur áætlaðri afkomu einkaréttar á árinu 2018 miðað við óbreytta gjaldskrá.“ Allt er þetta þvert á þá mynd sem er dregin upp í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar.
Aðstoðarmaður ráðherra í stjórn Íslandspósts
Samkvæmt 16. gr. laga um póstþjónustu eiga gjaldskrár fyrir alþjónustu Íslandspósts að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Ef alþjónusta Íslandspósts væri að valda fyrirtækinu rekstrarvanda þá væri það til marks um að þróun gjaldskrár hefði ekki samræmst lagaákvæðinu. Raunin er hins vegar sú að gjaldskrá fyrir bréfapóst í einkarétti hefur hækkað umtalsvert
Athugasemdir