Til stendur að flytja starfsemi Hins hússins, sem verið hefur um árabil í húsnæði í Pósthússtræti, upp í Elliðaárdal. Starfsfólk Hins hússins mun vera óánægt með að ekki skuli hafa verið haft samráð við það við val á húsnæði og telja staðsetninguna ekki heillavænlega fyrir notendur þjónustunnar þar eð hún sé úr alfaraleið. Þannig séu til að mynda ekki strætósamgöngur að húsnæðinu.
Leigusamningur vegna húsnæðis undir Hitt húsið að Rafstöðvarvegi var samþykktur í borgarráði í síðastliðinn fimmtudag. Markús H. Guðmundsson, forstöðumaður Hins hússins, segir að leitað hafi verið að hentugu húsnæði í miðborginni í eitt og hálft ár en ekkert hafi fundist sem henti starfseminni. Hluti starfsemi Hins hússins sé þegar í húsnæðinu í Elliðaárdal, sem áður hýsti minjasafn Orkuveitunnar og nú flytjist hinn hlutinn í sambyggt pláss sem áður hýsti Fornbílaklúbb Íslands. Húsnæðið bjóði upp á mikla möguleika, næg bílastæði séu í kring og unnið sé að því með Strætó að útfæra akstur nær svæðinu.
Athugasemdir