Frelsisverðlaun Sambands ungra Sjálfstæðismanna verða veitt við hátíðlega athöfn þann 3. október næstkomandi. Verðlaunahafar þetta árið eru Ásdís Halla Bragadóttir og fyrirtækið Hvalur hf.
Ásdís Halla er fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, stjórnarformaður Klíníkurinnar og brautryðjandi á sviði einkarekinnar heilbrigðisþjónustu. Hvalur hf. í eigu Kristjáns Loftssonar er eina fyrirtækið í heiminum sem stundar veiðar á langreyðum í gróðaskyni.
Þetta er í tólfta sinn sem frelsisverðlaunin eru afhent, en rithöfundurinn Andri Snær Magnason og vefsíðan Andríki hlutu verðlaunin fyrst árið 2007.
Viðurkenningin er veitt árlega þeim sem stjórn SUS telur að hafi unnið ötullega að auknu frelsi.
Kristján og Hvalur hf. voru umfjöllunarefni Stundarinnar í vikunni þegar greint var frá því að aðgerðahópurinn Avaaz hefði efnt til undirskriftasöfnunar þar sem veiðum fyrirtækisins er mótmælt og skorað á ríkisstjórn Íslands að stöðva þær. Hafa 1,2 milljónir manns skrifað undir áskorunina.
Athugasemdir