„Þið verðið að koma. Þarna verða allir mikilvægustu stjórnmálamennirnir og ókeypis bjór.“ Með þeim orðum sannfærði vinur minn, katalónskur kvikmyndargerðarmaður, okkur vinkonurnar um að mæta á frumsýningu nýjustu myndarinnar sem hann hafði verið að vinna við. Sama kvöld stóðum við þrjár saman í heillangri röð sem hlykkjaðist fyrir framan Auditori-tónlistarhúsið í Barcelona.
„Heyrðu, um hvað er eiginlega þessi mynd?“ spurði argentínsk vinkona mín. „Veit það ekki alveg,“ svaraði ég. „Einhvern mjög frægan fótboltamann, það er það eina sem ég veit.“ Fyrir framan okkur í röðinni sneri glæsileg eldri kona sér við og mældi okkur út. „Cruyff. Hún fjallar um Johan Cruyff.“ Við laumuðumst í símana til að fletta manninum upp. Ókei. Ein af helstu fótboltagoðsögnum Evrópu, í guðatölu hjá Katalóníumönnum.
Þegar inn var komið varð okkur ljóst að þetta var engin venjuleg bíósýning. Tugir ljósmyndara stóðu við sviðið með vísifingurinn sperrtan. Þegar miðaldra, jakkafataklæddur og þungbúinn maður gekk hægum skrefum í salinn hleyptu þeir allir af, hver í kapp við annan. Þarna var Artur Mas mættur, þáverandi forseti heimastjórnar Katalóníu. Hann steig í pontu og hóf innblásna lofræðu um Cruyff sem á undraverðan hátt var beintengd sjálfstæðisbaráttunni.
„Þessi furðulega HM-víma minnti mig á þessa stund í Barcelona fyrir nokkrum árum“
Myndin sjálf var greinilega til þess gerð að breyta öllum sem á horfðu í baráttumenn fyrir sjálfstæðri Katalóníu. Cruyff var hollenskur en spilaði lengi fyrir Barcelona og var eldheitur baráttumaður fyrir sjálfstæði Katalóníu. Hann hafði greinilega ekkert á móti því að nýta nafn sitt sem vopn í þeirri baráttu.
Fyrir og eftir leikinn á móti Argentínu um daginn skiptumst við vinkona mín á myndskeiðum. Hún fékk kennslustundir í húh og ég fékk vídeó af kátum Argentínumönnum á götum Moskvu að syngja La Hinchada. Hvorug okkar hefur áhuga á fótbolta en báðar hrífumst við með, alveg án þess að ráða neitt við neitt. Þessi furðulega HM-víma minnti mig á þessa stund í Barcelona fyrir nokkrum árum. Svo er þetta líka kjörinn vettvangur til að monta sig. Johan Cruyff? Auðvitað veit ég hver hann var. Ég þekkti hann!
Athugasemdir