Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Stærðarhlutföll Reykjavíkur

Hvað tek­ur mest pláss í lífi borg­ar­búa?

Reykjavík er tiltölulega ung og fámenn borg í samanburði við aðrar höfuðborgir. Borgarþróunin ber þess merki. Hún er þekkt fyrir að vera strjálbýl með eindæmum og sömuleiðis fyrir mikinn bílafjölda, þar sem Reykvíkingar eru meðal þeirra borga sem nota einkabílinn hvað mest. Í Reykjavík er talsvert um útivistarsvæði og leiksvæði fyrir börn. Á síðustu árum hefur einnig átt sér stað hávær umræða um húsnæðisskort, að í borginni rísi ekki nægilega mikið magn íbúðarhúsnæðis. 

Andri Gunnar Lyngberg arkitekt og Björn Teitsson blaðamaður tóku sig til og skoðuðu Reykjavíkurborg í hlutfallslegu ljósi. Hvað ætli heildarfjöldi bíla taki mikið pláss af borgarsvæðinu? En hvað með ef allir íbúar væru samankomnir á sama stað? Hve hátt hlutfall borgarinnar fer undir götur og bílastæði, eingöngu fyrir einkabílinn? Hvað skiptir okkur borgarbúa mestu máli?

Þegar borgin er sett í slíkt samhengi á myndrænan hátt getur útkoman verið bæði áhugaverð og umhugsunarverð.

 

 

Hvar gætum við komið fyrir öllum borgarbúum á einum stað?

Reykvíkingar eru 122.460 talsins sé miðað við mannfjölda við árslok 2016. Ef við gæfum okkur aðstæður á borð við tónleika eða hópáhorf á fótboltaleik (svo dæmi séu tekin), gætu allir Reykvíkingar því komist fyrir á Klambratúni. Þetta væri mögulegt jafnvel þótt hver og einn íbúi hefði heilan fermetra til að athafna sig, sem verður að teljast nokkuð drjúgt í miklum mannfjölda þar sem pláss er af skornum skammti. Til að gefa hugmynd um hve margt fólk kemst fyrir á einum fermetra, má ímynda sér þrönga stemningu á skemmtistöðum á borð við Kaffibarinn eða Prikið, eða þegar fólk er alveg upp við sviðið á fjölsóttum tónleikum. Í svoleiðis tilvikum eru jafnan um sex til átta einstaklingar á fermetra, sem verður þó að teljast ansi þröngt.

Fjöldi fólks: 122.460
Flatarmál Klambratúns: 0,12 km2
Flatarmál Reykjavíkur: 50,3 km2
Hlutfall fólks af flatarmáli Reykjavíkur: 0,24% 

 

 

Hvar gætum við komið fyrir öllum byggingum í Reykjavík?

Byggingar í Reykjavík taka um fimmtung af heildarflatarmáli borgarinnar, eða rétt tæplega 23%. Þar með eru taldar allir byggðir brúttó fermetrar, hvort sem þar er um að ræða íbúðarhúsnæði, skóla, verslanir, atvinnu- eða þjónustuhúsnæði, menningar- eða íþróttahús, bílskúra eða vöruskemmur. Það þýðir að allar byggingar sem fyrirfinnast í Reykjavík gætu komist fyrir innan Grafarvogs, sé Gufunesið og Höfðarnir taldir með – sem og Víkurhverfi, Borgir og Engjahverfi.

Fjöldi byggðra fermetra: 11,5 km2
Flatarmál Reykjavíkur: 50,3 km2
Hlutfall byggðra fermetra: 22,8% 

 

 

Hvað fer mikið svæði undir götur og bílastæði?

Götur og bílastæði þekja einnig um fimmtung af heildarflatarmáli Reykjavíkur. Væri öllu þessu malbiki þjappað saman gæti það þakið allan Vesturbæinn, Skerjafjörð, Reykjavíkurflugvöll, miðborgina, Norðurmýri, allt Hlíðaverfið og Holtin. Þess ber að geta að svæði sem eru helguð bílum á borð við bílastæðahús og bílskúra teljast ekki með, heldur í flokki byggðra fermetra. Þá má einnig geta þess að hér er ekki tekið til veghelgunarsvæða í heild, sem er umtalsvert magn landsvæðis sem umlykja götur, hraðbrautir og bílastæði.

Flatarmál gatna og bílastæða: 10,5 km2
Heildarstærð Reykjavíkur: 50,3 km2
Hlutfall flatarmáls fyrir götur og bílastæða: 20,9% 

 

 

Hve mikið pláss taka bílarnir sjálfir?

Í Reykjavík eru um þessar mundir rétt um 100 þúsund bílar en sú tala hækkar í 133 þúsund ef bílar á höfuðborgarsvæðinu í heild sinni eru taldir með. En fyrir þessa rannsókn höldum við okkur við 100 þúsund bíla, sem gerir Reykjavík reyndar að einni mestu bílaborg heims með um 806 bifreiðar á hverja 1000 íbúa. Þess má geta að meðaltalið í Bandaríkjunum er 799 bílar á hverja 1000 íbúa. Til gamans má geta að samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er meðallengd bíla í Reykjavík 4,39 metrar en meðalbreidd er 1,78 metrar. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að öllum fólksbílum væri útvegað bílastæði, sem er jafnan 2,5 metrar að breidd og 5 metrar að lengd. Væri öllum bílum í Reykjavík lagt upp við hver annan gætu þeir því þakið jafnstórt landsvæði og þekur Reykjavíkurflugvöll, og það að neyðarbrautinni svokölluðu meðtaldri.

Fjöldi bíla: 99.600 
Heildarflatarmál fyrir bíla: 1,2 km2
Heildarstærð Reykjavíkur: 50,3 km2
Hlutfall fyrir flatarmál bíla: 2,5% 

 

 

Hve mikið pláss taka allir strætisvagnar?

Almenningssamgöngur í Reykjavík gegna veigamiklu hlutverki við að koma fólki í og úr skóla og vinnu, bæði morgna og síðdegis. Á álagstímum eru flestir vagnar yfirfullir og þétt setnir, svo mjög að yfirleitt þarf að kalla út aukavagna. Á þessum álagstímum getur vagnafjöldinn á götum borgarinnar farið í 122 vagna sem keyra þá á sama tíma. En hve mikið pláss taka þeir? Í samanburði við bílana er það pláss nokkuð hóflegt. Allir strætisvagnar, sem eru að meðaltali 12 metrar að lengd og 2,52 metrar að breidd, kæmust fyrir á Hagatorgi, hringtorginu sem er að finna milli Hótel Sögu, Háskólabíós og Melanna í Vesturbæ. Gert er ráð fyrir að heill metri sé á milli vagnanna.

Fjöldi strætisvagna: 122
Heildarflatarmál strætisvagna: 0,06 km2
Heildarstærð Reykjavíkur: 50,3 km2
Hlutfall fyrir flatarmál strætisvagna: 0,1% 

 

 

Hve hátt hlutfall Reykjavíkur fá börnin?

Í Reykjavík eru opin leiksvæði, skólalóðir og leikskólalóðir hugsuð sem afdrep fyrir börn, þar sem þau geta leikið sér áhyggjulaust. Öll opin leiksvæði borgarinnar, ásamt skóla-og leikskólalóðum, kæmust fyrir í Elliðaárdalnum fyrir neðan Elliðaárvirkjun, að Ártúnsholtinu meðtöldu. Hér er rétt að taka fram að græn svæði, á borð við Hljómskálagarðinn, Klambratún eða Elliðaárdal sjálfan, eru hér ekki tekin með. Hér er aðeins um skilgreind leiksvæði að ræða, þar sem leiktæki fyrir börn eru til staðar.

Heildarflatarmál leiksvæða fyrir börn: 1,6 km2
Flatarmál Reykjavíkur: 50,3 km2
Hlutfall leiksvæða í borginni: 3,4% 

 

 

Hvert er hlutfall almenningsgarða og grænna svæða?

Í nýlegri úttekt hollensku ferðastofunnar Travel­bird kom fram að Reykjavík væri grænust 50 höfuðborga sem stofan skoðaði. Var þar fundið hlutfall af óbrotnu landi innan borgarmarka. Þar var tekið allt það landsvæði sem heyrir undir Reykjavíkurborg, til að mynda Esjan, Kjalarnes, Viðey, Geldinganes og svo framvegis. Séu skipulögð græn svæði innan byggðar talin saman er útkoman þó nokkuð frábrugðin þeirri sem Travelbird komst að. Reykjavík kemur þó enn vel út, með hátt hlutfall grænna svæða innan byggðar í samanburði við aðrar borgir. Svæðin sem eru talin eru: sjávarsíðan við Ægisíðu og Sæbraut, Hljómskálagarðurinn, Öskjuhlíð og Nauthólsvík, Klambratún, Laugardalur, Fossvogsdalur ásamt Elliðaárdal og Geirsnefi. Væru öll þessi svæði lögð saman, gætu þau þakið allt Bústaðahverfi, Fossvog og Hvassaleiti, auk Kringlunnar, Efstaleitis og lóð Borgarspítalans.

Flatarmál almenningsgarða og grænna svæða: 2,95 km2
Flatarmál Reykjavíkur: 50,3 km2
Hlutfall almenningsgarða og grænna svæða: 5,9% 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár