Lesskilningur íslenskra nemenda í 10. bekk reyndist slakur í síðustu PISA-könnun árið 2015, en 22 prósent nemenda gátu ekki lesið sér til gagns. Það er bæði eðlilegt og nauðsynlegt að spyrja gagnrýninna spurninga um ástæður þessa, svo unnt sé að grípa til varna. Þegar á móti blæs hefur þótt hentugt að gera Byrjendalæsi (BL) tortryggilegt, en BL er safn aðferða í læsiskennslu í 1. og 2. bekk. Það tekur þó steininn úr þegar Byrjendalæsi er gert að blóraböggli lesskilningsvanda um 900 nemenda í fyrrnefndri PISA-könnun. Þegar þessir nemendur settust í 1. bekk haustið 2005 var fjöldi þeirra 4.123. Þann vetur lærðu tæplega 100 nemendur í 1. bekk í Lundarskóla og Oddeyrarskóla að lesa undir hatti Byrjendalæsis við tilraunaaðstæður. Eftir standa um 4.000 nemendur sem engin gögn liggja fyrir um hvernig lærðu að lesa. Það er því nokkuð langt seilst þegar kenna á Byrjendalæsi um slakan árangur yfir fimmtungs nemenda tíu árum síðar.
Að vera læs felst ekki í því að geta lesið 200 atkvæði upphátt á mínútu. Lesandi þarf vissulega að geta áreynslulaust breytt stöfum orðanna í málhljóð en hann er ekki læs fyrr en hann getur skilið flókinn texta og látið hann þjóna sér til upplifunar og/eða gagns í daglegu lífi. Það er mikilvægt að iðka læsi en magn af lesnu efni kemur ekki í stað markvissrar kennslu. Þetta á einnig við um raddlestur. Hann er ekki til þess fallinn að efla ályktunarhæfni lesenda eða hjálpa þeim til að ráða við flóknar hugsanir sem texti býður upp á.
Hljóðaaðferðin sem slík beinist fyrst og fremst að því að kenna samband stafs og hljóðs og hvernig hljóð stafanna tengjast svo úr verði orð. Einn stafur er kenndur í einu (form og hljóð), svo annar og þriðji, og svo framvegis, og nemandinn lærir að tengja hljóðin saman (í–s, verður ís og s–ó–l verður sól). Gjarnan fylgir hljóðsaga hverjum staf, þar er áherslan á hljóðið fremur en efni textans. Nemendur fá texta til aflestrar sem innibera þá stafi sem þeir hafa lært formlega enda stafir kenndir í ákveðinni röð. Textinn er einfaldur og samanstendur af eins og tveggja atkvæða orðum. Slíkur texti er ólíklegur til að auka orðaforða en ríkur orðaforði er einn af hornsteinum góðs lesskilnings. Í kjölfar tækninnar þyngist textinn og nemendur takast á við fjölbreyttan texta.
Byrjendalæsi er af allt öðrum meiði en hljóðaaðferðin. BL tilheyrir læsisaðferðum sem leggur áherslu á samþætta færni í ritun, lestri, tali og hlustun. Bandaríkjamaðurinn Rumelhart er einn af frumkvöðlum aðferðarinnar en hún var kynnt hérlendis fyrir 30 árum. BL er eins konar regnhlíf eða líkan um læsismenntun, byggt á læsisfræðum, auk fræða um árangursríkt skipulag og kennsluhætti, svo sem samvinnunám, athafnamiðað nám og námsaðlögun þar sem einstaklingsþörfum er mætt innan skólastofunnar. BL styðst við fjölda rannsókna um árangursríka læsiskennslu og um vinnubrögð framúrskarandi kennara.
Kennsla fylgir ferli sem skipt er í þrjú þrep (mynd 2). Í fyrsta þrepi er kynnt heildstætt viðfangsefni, til dæmis sögutexti. Textinn er nýttur sem uppspretta alls þess sem læra þarf. Í öðru þrepi eru dregin út einstök atriði sem þarf að læra eða festa, til dæmis innlögn á stöfum og námstækniaðferðum. Í síðasta þrepi er nýfenginn árangur gerður sýnilegur til dæmis aukinn orðaforði, nýr áfangi í sögugerð, upplestur, hugtakakort og svo framvegis.
Læsiskennsla samkvæmt Byrjendalæsi gerir miklar kröfur til kennara um þekkingu á læsisfræðum. Innleiðing BL í skóla felur í sér krefjandi starfsþróun að lágmarki í tvo vetur. Kennarar fá í hendurnar fræðilegt og hagnýtt efni. Skólar mennta einnig leiðtoga sem hafa forystuhlutverk og aðstoða kennara.
Rannsókn á Byrjendalæsi hefur staðið yfir í nokkur ár undir stjórn dr. Rúnars Sigþórssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri. Niðurstöður hennar verða kynntar á málþingi Háskólans á Akureyri 9. mars næstkomandi. Sama dag kemur út ritrýnd bók á vegum Háskólaútgáfunnar þar sem segir frá rannsókninni og niðurstöðum hennar.
Lokaorð
Það er mikilvægt að foreldrar, fagfólk, stjórnmálamenn og allur almenningur haldi vöku sinni um gæði skólastarfs. Mér er til efs að skýringa á slöku læsi margra ungmenna sé eingöngu að leita í kennsluháttum fyrstu tvö skólaárin. Í hugann kemur að spyrja;
⦁ hvort, hvað og hvernig læsi er kennt á miðstigi og unglingastigi.
⦁ um hlutfall viðfangsefna í skóla sem krefja nemendur um flókna hugsun.
⦁ hvernig læsismálum sé sinnt í skólum eftir að læsi var tekið út fyrir námskrá í íslensku og fellt undir grunnþætti menntunar.
⦁ hvort almennir kennarar hafi tekið þátt í starfsþróun um læsi og læsiskennslu.
⦁ hvort kennslubækur ráði för eða námsmarkmiðin.
⦁ hvernig læsi er háttað hjá fullorðnum Íslendingum.
--------------------
⦁ Stutta kynningarmynd um Byrjendalæsi á íslensku og ensku má finna á netinu.
⦁ Á vef Miðstöðvar skólaþróunar við HA má finna tilvísanir í ritaðar heimildir um Byrjendalæsi.
--
Heimildir:
1 Helstu niðurstöður PISA 2015. (2017). Menntamálastofnun. Sótt af https://mms.is/sites/mms.is/files/helstu_nidurstodur_pisa_2015_prent_-_loka.pdf
Sirrý Hallgímsdóttir. (2018). Hver ber ábyrgðina? Fréttablaðið 15. febrúar, s. 20. Greinina má finna á slóðinni http://www.visir.is/paper/fbl/180215.pdf
Hagstofan (2018, 20. Febrúar). Fyrirspurn í síma.
Rósa Eggertsdóttir. (2006). Byrjendalæsi - Skýrsla um þróunarstarf í lestri í 1. og 2. bekk í Lundarskóla og Oddeyrarskóla 2005 og 2006. Akureyri: Háskólinn á Akureyri. Sótt af http://www.unak.is/static/files/Skolathrounarsvid/2006/Byrj%20Skyrsla%2014okt06.pdf
Ísak Jónsson. (1946). Leiðbeiningar um kennslu í byrjunarlestri fyrir kennaranema. Fyrri hluti. Reykjavík: Skóli Ísaks Jónssonar.
Perfetti, C. og Stafura, J. (2014). Word knowledge in a theory of reading comprehension. Scientific studies of reading 18 , s. 22-37. Slóð sótt 5.desember 2015 frá http://www.tandfonline.com/doi/pdf/10.1080/10888438.2013.827687
Rumelhart, D. E. (1985). Toward an interactive model of reading. Í H. Singer og R. B. Ruddell (ritstj.), Theoretical models and processes of reading (3. útg.) (s. 722–750). Newark: IRA.
Guðrún Jónsdóttir. (1987). Hvað skiptir máli í umræðunni um lestur? Í Indriði Gíslason og Guðmundur B. Kristmundsson (ritstjórar), Lestur – mál. Reykjavík: KHÍ og Iðunn.
Gambrell, L. B., Malloy, J.A., Marinak, B.A. og Mazzoni, S.A. (2015). Evidence-based practices for comprehensive literacy instruciton in the age of the common core standards. Í Linda, B. Gambell og M. Morrow (ritstjórar) Best Practices in literacy instruction (5. útgáfa). New York: The Guilford press.
Hall, K. (2003). Effective literacy teaching in the early years of school: A review of evidence. Í Hall, Larson og March (ritstjórar), Handbook of early childhood literacy (s. 315–326). London: Sage.
Allington, R. L. (2002). What I've Learned about Effective Reading Instruction from a Decade of Studying Exemplary Elementary Classroom Teachers. The Phi Delta Kappan, Vol. 83, No. 10 (Jun., 2002), s. 740-747. Sótt af https://diywithrti.files.wordpress.com/2013/05/what-ive-learned-about-effective-reading-instruction.pdf
Wray, D. og Medwell, J. (2002). What do effective teachers of literacy know, believe and do? Í R. Fisher, G. Brooks and M. Lewis (ritstjórar), Raising standards in literacy (s. 55–65). London: Routledge Falmer.
NRP 2000. Report of the National Reading Panel. Teaching Children to Read. An evidence-based assessment of the scientific research literature on reading and its implications for reading instructions. Reports of the subgroups. NCHD. 2000. https://www.nichd.nih.gov/publications/pubs/nrp/Documents/report.pdf
Athugasemdir