Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Fólk á betra skilið

Jó­hanna Sig­urð­ar­dótt­ir hef­ur set­ið þög­ul hjá og fylgst með. Hún leiddi end­ur­reisn Ís­lands upp úr hrun­inu, en end­aði þann fer­il á því að eft­ir­mað­ur henn­ar og sam­flokks­mað­ur fór í upp­gjör við hana. Hún hef­ur ver­ið hyllt er­lend­is sem hetja, en hér heima horf­ir hún upp á að völd­in eru í hönd­um þeirra sem henni þyk­ir síst eiga að fara með þau. „Við er­um enn að upp­lifa leynd­ar­hyggju og óheið­ar­leika í póli­tík, spill­ingu,“ seg­ir Jó­hanna.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir steig til hliðar sem forsætisráðherra og endaði feril sinn í stjórnmálum ákvað hún þaðan í frá að halda sig til hlés í umræðunni og fylgjast með úr fjarlægð.

Það fyrsta sem hún hafði heyrt, eftir að hún vék úr formannsstóli í Samfylkingunni, var þakkarræða eftirmanns hennar, sem notaði hana til að fara í uppgjör við stefnu hennar og boða sættir við pólitíska andstæðinga.

Hún hafði barist alla sína tíð fyrir jöfnuði og velferð þeirra verst stöddu, en yfirgaf forsætisráðuneytið eftir að hafa séð tvo unga auðmenn mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. 

„Mér leið satt að segja ekki vel. Og ég spurði, hvað er eiginlega að ske í þjóðfélaginu?“ segir Jóhanna.

Hún þurfti að afhenda Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, sem hafði háð „heiftúðuga“ og „grimma“ stjórnarandstöðu ásamt sjálfstæðismönnum, lyklana að forsætisráðuneytinu. Þetta var nokkrum mánuðum eftir að hinn formaðurinn sem tók við taumunum, Bjarni Benediktsson, hafði beint því til hennar „að skila lyklunum“.

„Ég tók því nú bara sem hverju öðru gríni,“ segir Jóhanna um yfirlýsingu Bjarna. Hún var orðin þessu vön frá þeim tveimur, þótt hún hefði verið undrandi yfir hörkunni í fyrstu, þar sem hún bjóst við meiri hógværð hjá meðlimum flokksins sem bar mesta pólitíska ábyrgð á þeim aðstæðum sem orsökuðu efnahagshrunið kjörtímabilið áður. 

„Þetta var mjög heiftúðug stjórnarandstaða, mjög óbilgjörn. Bæði Bjarni og svo Sigmundur Davíð,“ segir hún. „Þeir voru að stoppa öll mál og stunduðu algjört eyðileggingarstarf á Alþingi. Ég hef aldrei séð annað eins, hvorki fyrr né seinna, hvernig þeir létu.“

 

Heift og hótanir

Fjögurra ára kjörtímabilið, sem Jóhanna fékk til að leiða endurreisnina, einkenndist af óvissu og erfiði. Þau þurftu að finna leiðir til að skera niður og breyta sköttum. Mikil vanstilling var í samfélaginu. Andstaðan var mikil, og fyrir utan stjórnarandstöðu Bjarna og Sigmundar var skrifað um Jóhönnu í Morgunblaðið undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, og Evrópuþjóðir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið vildu fullvissu um endurgreiðslur á Icesave. Á sama tíma lifði margt fólk í von og ótta um afkomu sína og velferð. 

Einn karlmaður gekk upp að Jóhönnu og sagði: „Þú ert réttdræp.“ „Þetta var eitt af mörgum svona tilvikum,“ segir Jóhanna.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár