Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Halldór Auðar gerir upp kynferðisofbeldið

Hall­dór Auð­ar Svans­son, borg­ar­full­trúi Pírata, greindi í gær frá því að hann væri ger­andi í kyn­ferð­is­brota­mál­um. Hann út­skýr­ir hvað hann átti við, hvað hann gerði og hvernig sekt­ar­kennd­in hellt­ist yf­ir hann í kjöl­far­ið. Nú tek­ur hann ótta­laus á móti af­leið­ing­un­um. „Það er lið­ur í því að axla ábyrgð á sjálf­um sér að vera ekki hrædd­ur við af­leið­ing­ar eig­in gjörða.“

Halldór Auðar gerir upp kynferðisofbeldið

Hann áttaði sig á sársaukanum sem hann hafði valdið, drukkinn og markalaus með þeim afleiðingum að hann ruddist yfir kynferðisleg mörk konu sem hann þekkti lítið sem ekkert. Eftir þetta kvöld ákvað hann að segja skilið við áfengi, horfast í augu við sjálfan sig og taka sig á. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hann fór yfir kynferðisleg mörk kvenna, það hafði gerst í fáein skipti svo hann muni, en þetta varð það síðasta. „Ég vildi auðvitað ekki vera að skaða fólk,“ útskýrir Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, sem steig fram í gærmorgun og greindi frá því að hann væri ekki aðeins þolandi í kynferðisbrotamálum heldur væri hann einnig gerandi.

Horfðist í augu við sjálfan sig

Halldór Auðar segir að atburðir síðustu daga, það hvernig málsmeðferð vegna uppreistar æru var meðhöndluð af stjórnvöldum og hvernig leyndarhyggjan sprakk síðan framan í þjóðina, hafi hrundið honum af stað í tilfinningalega rússíbanareið. „Ég hef velt ýmsu fyrir mér varðandi kynferðisbrot og mína eigin reynslu. Eins því hvað felst í því að axla ábyrgð og draga aðra til ábyrgðar. Nú er verið að reyna að draga forystu Sjálfstæðisflokksins til ábyrgðar fyrir að hafa haldið mjög illa á málum. Ég tel að þau þurfi að axla hana og að þeim sé ekki stætt fyrr en þau hafa gert það. Í kjölfarið velti ég því fyrir mér hvort mér væri stætt á því að koma með svo harða gagnrýni, hvað ég þyrfti sjálfur að horfast í augu við, viðurkenna og hætta að þagga. Þá er það sem ég hef áður ýjað að í viðtali við Bleikt.is, að ég er sjálfur ekki alsaklaus.“

„Kynferðisbrot eru auðvitað ýmiss konar. Sum eru beinlínis glæpsamleg og önnur ekki.“

Hann áréttar: „Kynferðisbrot eru auðvitað ýmiss konar. Sum eru beinlínis glæpsamleg og önnur ekki. Ég vil einfaldlega skilgreina það út frá afleiðingunum sem þau hafa. Af því að þau snúast um að ryðjast inn á mörk annarra og það er aldrei í lagi. Við eigum að geta talað um það og viðurkennt það þegar við förum yfir mörk hvers annars. Við eigum að geta gert það upp einhvern veginn. Það er það sem ég er að opna á. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig sú úrvinnsla mun fara fram, enda ekki í mínum höndum.“

Snýst um mörk og að virða þau

Aðspurður hvað hann eigi við, hvað hann hafi gert, segist hann hafa undir áhrifum áfengis ruðst yfir mörk annarra með „káfi og ósæmilegri snertingu,“ sem hann segist vera nokkuð viss um að hafi valdið sársauka og haft afleiðingar. Aðspurður hvort hann eigi við nauðgun svarar hann því neitandi. „Nei, ég myndi ekki nota það orð. Um leið vil ég leggja áherslu á að það er aldrei gerandans að skilgreina eigin verknað og þau áhrif sem hann hefur. Það er þolandans að gera það.“

„Nei, ég myndi ekki nota það orð.“

Þá er spurning hvenær það að fara yfir mörk einhvers verður að hreinu og kláru ofbeldi, það er að segja nauðgun. „Ég held að það sé akademísk orðræða. Eins og ég segi þá snýst þetta fyrst og fremst um hvernig sá sem verður fyrir því upplifir það og skilgreinir. Ég held að það þurfi að leggja mjög skýra áherslu á það.“

Óttast ekki afleiðingarnar

Eins og fyrr segir þá gerðist það í fáein skipti, eins og hann orðar það, að hann fór yfir mörk annars fólks. Hvorki hann né þetta fólk hafa gert tilraun til þess að gera þetta upp sín á milli. Nú taldi Halldór Auðar hins vegar rétt að stíga fram opinberlega. „Mér fannst það rétta leiðin í ljósi aðstæðna, þess sem ég hef verið að velta fyrir mér og þeirra tilfinninga sem hrærast innra með mér. Að opna á samtal, hvað sem úr því verður.“

„Ég hef hugsað um það og verið viðbúinn, en ég óttast það ekki.“

Allt voru þetta konur honum ókunnugar. Hann þekkir því ekki afdrif þeirra og veit ekki hvaða afleiðingar framganga hans hafði fyrir þær. Aðspurður hvort hann hafi óttast að mæta þeim segir hann auðveldara að takast á við það nú þegar hann hefur sjálfur opnað á umræðu um þetta, því þá sé mögulega einhver leið til að geta gert þetta upp, hafi þær hug á því. Hann segist ekki hafa óttast það að vera afhjúpaður í opinberri umræðu. „Ég hef hugsað um það og verið viðbúinn, en ég óttast það ekki.“

Hins vegar hefur hann vonast eftir því að geta bætt fyrir brot sín. En það er er ekki hans að skilgreina hvernig sú vinna ætti að fara fram, segir hann, heldur verði þolendur að ráða ferðinni í slíku uppgjöri. „Kannski er best að byrja á heiðarlegu samtali, eins og ég er að gefa kost á.“

Vonaðist eftir samtali við sína gerendur

Innst inni hafi hann sjálfur vonast eftir því að geta átt samtal við sína gerendur eftir að hann steig fram sem þolandi. „Þeir hefðu getað byrjað á því að tala við mig. Mér þætti áhugavert að vita hvernig þeim líður núna, ef þeir muna ennþá eftir þessu, hvort þeir séu að burðast með sekt, hvernig þeir sáu þetta á sínum tíma og hvað þeim gekk eiginlega til. Ég skil ekki enn almennilega hvaða hvata þeir höfðu til að koma svona fram við mig,“ segir hann. „Það væri betra að geta 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár