„Við erum stórveldi. Miklu meira stórveldi en fólk áttar sig á,“ sagði Donald Trump í ræðu sinni í Davos. Hann segist ekki ætla að beita hervaldi til að ná yfirráðum yfir Grænlandi, því hann þurfi þess ekki.
„Það er sennilega stærsta yfirlýsingin, því fólk hélt að ég myndi beita valdi. Ég þarf ekki að beita valdi. Ég vil ekki beita valdi. Ég mun ekki beita valdi. Allt sem Bandaríkin biðja um er staður sem heitir Grænland.“
Það er hins vegar nauðsynlegt að Bandaríkin fái Grænland, því ekkert land getur tryggt varnir Grænlands nema Bandaríkin. Það hefðu verið mistök að leyfa Dönum að halda Grænlandi eftir seinni heimsstyrjöldina, eftir að hafa verið bjargað af Bandaríkjunum.
„Við sáum þetta í síðari heimsstyrjöldinni, þegar Danmörk var tekin yfir af Þýskalandi eftir aðeins sex klukkustunda átök,“ sagði Trump um vanmátt Evrópu, og Danmerkur sérstaklega, til að tryggja eigin varnir. Þá hafi Bandaríkin sent hermenn til Grænlands og tryggt varnir landsins. „Ef það væri ekki fyrir okkur, væruð þið öll að tala þýsku. Og kannski smá japönsku.“
„Árið 2019 sagðist Danmörk ætla að verja meira en 200 milljónum dollara til að styrkja varnir Grænlands,“ sagði Trump „en þau eyddu aðeins einu prósenti af því.“
Trump sagðist vera hlýtt til Evrópu en að álfan væri á rangri leið. „Ég elska Evrópu og vil sjá henni ganga vel en hún er ekki á leiðinni í rétta átt,“ sagði hann og gagnrýndi til að mynda Breta fyrir græna orkustefnu sína.
„Við gefum svo mikið af okkur og fáum svo lítið í staðinn“
Evrópuríkin þyrftu að komast út úr þeirri menningu sem þau hafa skapað á síðustu tíu árum, tryggja örugg landamæri og setja hagvöxt í forgang. „Það er hræðilegt hvað þau eru að gera sjálfum sér. Þau eru að eyðileggja sig,“ sagði hann. „Við viljum sterka bandamenn, ekki mjög veika.“
„Við gefum svo mikið af okkur og fáum svo lítið í staðinn,“ sagði hann. Það væri ekkert Atlantshafsbandalag hefði hann ekki stigið inn á sínu fyrra kjörtímabili. Bandaríkin hefðu ekki beðið um neitt en væri nú að biðja um lítinn og skringilega staðsettann klakamola sem heitir Grænland.


















































Athugasemdir