„Bandaríkin eru valdið í NATO“

„Við lif­um í veru­leik­an­um,“ seg­ir Stephen Miller, einn helsti ráð­gjafi Banda­ríkja­stjórn­ar, og tel­ur að eng­inn muni berj­ast gegn þeim vilja Banda­ríkj­anna að yf­ir­taka Græn­land.

Bandaríkin munu ekki þurfa að beita valdi til að taka Grænland, sem er stefna stjórnarinnar þar, að sögn ráðgjafa Bandaríkjaforseta.

Einn æðsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta segir það skýra afstöðu Bandaríkjastjórnar og Donalds Trump frá fyrra kjörtímabili að Grænland ætti að vera hluti Bandaríkjanna.

Stephen Miller, sem hefur meðal annars verið með hlutverk aðstoðarstarfsmannastjóra Hvíta hússins og ráðgjafi Heimavarnaráðuneytisins, lét ummæli falla í viðtali við CNN í nótt eftir að eiginkona hans birti kort af Grænlandi þakið bandaríska fánanum. Miller hefur sterka stöðu innan Trump-stjórnarinnar og stóð meðal annars á sviðinu þegar Donald Trump hélt blaðamannafund um hernaðaraðgerð í Venesúela, þar sem forseti landsins var handtekinn.

Miller snýr við sönnunarbyrðinni og segir Danmörku þurfa að útskýra á hvaða grundvelli konungdæmið „geri tilkall til landsvæðisins“, frekar en að Bandaríkin þurfi að réttlæta yfirtöku, enda hafi Bandaríkin valdið.

Í viðtalinu var hann spurður hvort hann útilokaði hernaðaraðgerð, en neitaði að svara því.

„Bandaríkin ættu að hafa Grænland sem hluta af Bandaríkjunum. Það er engin ástæða til að hugsa eða tala um þetta í samhengi við hernaðaraðgerð. Enginn er að fara að berjast við Bandaríkin hernaðarlega yfir framtíð Grænlands,“ sagði hann.

„Við lifum í veruleikanum, raunveruleikanum, sem er stýrt af styrk, sem er stjórnað með afli, sem er stjórnað með valdi,“ sagði hann. „Þetta eru járnlög heimsins frá upphafi tíma.“

Stephen MillerHefur verið í innsta hring Trumps frá árinu 2016.

„Bandaríkin eru valdið í NATO“

Aðspurður nánar um hugsanlega hernaðaraaðgerð segir Miller að hún myndi ekki beinast gegn Grænlandi. „Grænland er með þrjátíu þúsund íbúa. Raunverulega spurningin er hvaða rétt Danmörk hefur til að stjórna Grænlandi. Hver er grundvöllur kröfu þeirra til landsvæðisins? Hver er grundvöllur þeirra fyrir því að hafa Grænland sem nýlendu Danmerkur? Bandaríkin eru valdið í NATO. Fyrir Bandaríkin, að tryggja heimskautasvæðin, vernda NATO og hagsmuni NATO, ætti Grænland augljóslega að vera hluti af Bandaríkjunum.“

Íbúar Grænlands eru tæplega 57 þúsund og er Grænland hluti af danska konungdæminu. Samkvæmt sjálfsstjórnarsamningi frá árinu 2009 hefur Grænland rétt á að lýsa yfir sjálfstæði að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Í síðustu þingkosningum fór sá flokkur með sigur af hólmi sem vildi fara hægt í aðskilnað frá Danmörku, frekar en hratt.

Hann sagði að samfélag þjóða myndi fara í gegnum það ferli að Grænland verði hluti Bandaríkjanna.

„Til að vernda heimskautasvæðin og til að vernda NATO, augljóslega ætti Grænland að vera hluti af Bandaríkjunum. Það er samtal sem við munum eiga sem land og það er ferli sem við munum ganga í gegnum sem samfélag þjóða,“ ítrekaði Miller.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði í gær að grunnstoðir öryggisstefnu Íslands væru aðild að NATO og varnarsamningur við Bandaríkin. Hún sagði að þær stoðir „stæðu óhaggaðar“.

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár