Verð á aðgangsmiðum á heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2026 í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó hefur vakið mikla reiði meðal stuðningsmanna víða um heim. Dæmi eru um að ódýrasti miði á úrslitaleikinn kosti yfir 4.000 bandaríkjadali, um 580 þúsund krónur á núverandi gengi, og dýrasti miði rúmlega 8.600 dali, eða um 1,1 milljón króna.
Tryggustu aðdáendurnir fá dýrustu miðana
Óánægja blossaði upp eftir að FIFA úthlutaði sértökum miðapakka til landsliðasambanda, svokallaðri PMA-úthlutun (Participating Member Association). Þessir miðar eru ætlaðir tryggustu aðdáendum sem safnað hafa stigum í hollustukerfum og ferðahópum landsliða.
Samkvæmt samtökunum Football Supporters Europe (FSE) þarf dyggur stuðningsmaður að greiða að lágmarki um 900 þúsund krónur (6.900 dali) til að fylgja sínu liði frá fyrsta leik í riðlakeppninni og allt í úrslitaleik – nærri fimmfalt meira en á síðasta heimsmeistaramóti í Katar.
Í fyrsta sinn í sögu heimsmeistaramótsins verður ekki fast verð á leikjum í riðlakeppninni. Þá eru ódýrustu miðarnir, í flokki 4, settir í sölu síðar, og þá með dýnamískri verðlagningu, breytilegu verði sem stýrist af eftirspurn, sem leitt hefur til mikillar hækkunar miðaverðs. Þetta þýðir að stuðningsfólk frá mismunandi þjóðum mun borga mismunandi verð fyrir leiki á sama stigi mótsins.
„Þetta eru gríðarleg svik við hefðir heimsmeistaramótsins og er litið fram hjá framlagi stuðningsfólks til þess sjónarspils sem keppnin er,“ sagði í yfirlýsingu Samtaka evrópska knattspyrnuáhangenda (FSE).
Samtökin segja í yfirlýsingu að þau séu „slegin yfir okurverði“ sem FIFA leggi á tryggustu stuðningsmennina og kalla eftir því að sala þessara miða verði stöðvuð „þar til lausn finnst sem virðir hefðir, alþjóðlegt eðli og menningarlegt vægi heimsmeistaramótsins“.
„Ódýrir“ miðar ekki í boði fyrir tryggustu aðdáendurna
FIFA hefur ítrekað haldið því fram að HM 2026 verði „á viðráðanlegu verði“ og bendir á að almenn sala inn á riðlakeppnisleiki byrji á um 8.000 krónum (60 dollurum) í ódýrustu flokkum, en sem fyrr segir getur miðaverð þróast eftir eftirspurn.
Þeir miðar eru hins vegar ekki í boði í PMA-úthlutuninni til landsliðasambandanna. Það þýðir að stuðningsmenn sem hafa fylgt liðum sínum árum saman, safnað stigum og ferðast vítt og breitt, þurfa að greiða margfalt meira en aðrir áhorfendur sem taka þátt í almennum útdrætti á heimasíðu FIFA.
Ferðakostnaður og vaxandi gremja
Miðaverðið er aðeins hluti heildarkostnaðar. HM 2026 fer fram í 16 borgum í þremur löndum, og þurfa aðdáendur að búa sig undir háan flug- og gistikostnað, sérstaklega í stórborgum Bandaríkjanna. Fjölmiðlar og stuðningsmannasamtök benda á að ferðalag fjölskyldu eða vinahóps geti auðveldlega farið yfir margar milljónir króna ef liðið kemst langt í keppninni.
Sumir hafa einnig bent á að bandarískar reglugerðir um vegabréfsáritanir geti gert ferðina flóknari og varasamari, þar sem umsækjendur um ferðavegabréfsáritun gætu þurft að afhenda fimm ára sögu af samfélagsmiðlareikningum sínum.
Stuðningsmenn óttast að þeir sem hafi fylgt landsliðum sínum í áratugi verði víkjandi fyrir sterkefnuðum áhorfendum sem einfaldlega hafa efni á að greiða hvað sem er. Það gæti dregið úr stemningu og laskað „sál“ keppninnar á völlunum í Norður-Ameríku sumarið 2026, að mati gagnrýnenda.
FIFA segir verðið endurspegla markaðinn
FIFA hefur svarað gagnrýninni með því að vísa til þess að verðlagningin fylgi „markaðsvenjum“ stórra íþrótta- og skemmtanaviðburða í Norður-Ameríku og að markmið sé að tryggja „sanngjarnan aðgang“ bæði fyrir núverandi og nýja áhorfendur. Sambandið bendir jafnframt á að tekjur af mótinu renni til uppbyggingar knattspyrnu um allan heim.
Þau svör hafa þó lítil áhrif haft á kröfur stuðningsmannasamtaka, sem krefjast þess að hætt verði við núverandi miðasölu og hafin víðtæk samráð við stuðningsmenn, landsliðasambönd og aðra hagsmunaaðila um nýtt fyrirkomulag.








































Athugasemdir