Rannsókn á tölvuárás á Grundarheimilin, sem reka hjúkrunar- og dvalarheimilin Grund í Vesturbæ Reykjavíkur, Ás í Hveragerði, Mörk við Suðurlandsbraut og íbúðir fyrir sextíu ára og eldri, hefur leitt í ljós að tölvuþrjótarnir komust yfir heilsufarsupplýsingar um íbúana þar.
„Rannsókn hefur leitt í ljós að áður en að tölvuárásin uppgötvaðist, tókst tölvuþrjótunum að afrita hluta af þeim persónuupplýsingum sem finna mátti í kerfum heimilanna, heilsufarsupplýsingar sem tengjast umönnun og veittri heilbrigðisþjónustu á heimilunum,“ segir í yfirlýsingu frá Grundarheimilunum.
Ekki hefur borist hótun um birtingu upplýsinganna. Þá virðast öll gögn áfram vera til staðar og hafa Grundarheimilin aðgang að þeim og telja sig hafa lokað á tölvuþrjótana.
Árásin uppgötvaðist á þriðjudag og var netaðgengi um leið takmarkað á heimilunum.
Færustu sérfræðingar landsins á sviði tölvuinnbrota rannsaka málið, að sögn stjórnenda Grundarheimilanna.
Aðstandendur og íbúar eru hvattir til að hafa varann á. „Í ljósi viðkvæms eðlis þessara upplýsinga eru skjólstæðingar, íbúar, aðstandendur og starfsmenn Grundar hvattir til að vera á varðbergi gagnvart mögulegri misnotkun á upplýsingunum af hálfu tölvuþrjótanna. Ef grunur vaknar um slíka misnotkun þá skal gæta fyllstu varúðar í samskiptum, bregðast ekki við heldur tilkynna það til CERT-IS netöryggissveitarinnar.“
Þá er tekið skýrt fram og áréttað „að Grundarheimilin munu ekki senda út neina pósta að fyrra bragði þar sem fólk er beðið um að senda upplýsingar eða ýta á hlekki.“











































Athugasemdir