Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og varaþingmaður Viðreisnar, segist hafa ýtt undir umræðu um að hann væri að íhuga framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum. Það hafi hann gert til að kanna hvort eftirspurn væri eftir sér í borgarmálin. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í dag.
Aðalsteinn, sem var á lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir síðustu Alþingiskosningar, hefur verið sterklega orðaður við framboð í leiðtogaprófkjöri flokksins sem fram fer á nýju ári. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, núverandi oddviti, tilkynnti í haust að hún ætlaði sér ekki að leiða listann að nýju.
„En ég er líka í spennandi verkefnum þar sem ég er núna“
Aðalsteinn er annar tveggja einstaklinga sem helst hefur verið pískrað um að séu að undirbúa framboð, en auk hans hefur Björg Magnúsdóttir, rithöfundur og fjölmiðlakona og fyrrverandi aðstoðarmaður í borgarstjóratíð Einars Þorsteinssonar Framsóknarmanns, líka verið orðuð við framboð.
Gefið undir fótinn
„Aðalsteinn, ert þú á leið í borgarstjórn?“ spurði þáttastjórnandi Vikulokanna undir lok þáttarins í morgun. Eftir töluverðan formála um hvað borgarmál væru mikilvæg og spennandi sagðist Aðalsteinn vera að velta því fyrir sér.
„Já, það er rétt að mitt nafn hefur verið nefnt í þessu samhengi og ef ég á að vera alveg hreinskilinn að þá hef ég aðeins gefið því undir fótinn til að sjá hvort það væri vilji og eftirspurn eftir því að ég færi í þetta verkefni,“ sagði Aðalsteinn. „Og ég er núna að velta því fyrir mér.“
Verkefnin sem séu fram undan í borginni segir hann að séu spennandi. „En ég er líka í spennandi verkefnum þar sem ég er núna.“
Aðalsteinn tók svo undir með Júlíusi Viggó, formanni Sambands ungra sjálfstæðismanna, um að það væri heiður að vera nefndur í samhengi við framboð í borginni. Júlíus hafði þó alveg tekið fyrir það að vera sjálfur á leið í borgarmálin, fyrr í þættinum. „Ég hef engan hug á því að fara í framboð á næstunni,“ sagði hann.

Dóra vill fram en er enn undir feldi
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borginni, var skýr um að hún vildi halda áfram en sagðist samt vera að íhuga næstu skref. Nýverið bauð hún sig fram til að gegna formennsku í Pírötum. Hún dró þó framboð sitt til baka áður en til atkvæðagreiðslu kom.
Alexandra Briem, sem vermdi annað sæti lista Pírata fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, tapaði svo í formannskjörinu fyrir framkvæmdastjóra borgarstjórnarflokksins, Oktavíu Hrund Guðrúnar Jóns. Nokkurt kurr hefur verið í flokknum eftir formannskjörið og virðist það vera að hafa áhrif á ákvörðun Dóru Bjartar.
„Mig langar til þess að halda áfram í borginni. Mér finnst ég hafa þá yfirsýn og reynslu sem þarf til þess að skila árangri hratt og örugglega fyrir borgarbúa,“ sagði hún. „Ég get hugsað mér að halda áfram og stefni að sjálfu sér að því að óbreyttu, en ætla samt að gefa mér tíma til að meta næstu skref aðeins betur.“













































Athugasemdir