Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn fyrr í vikunni vegna rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á mannsláti í Kópavogi um síðustu helgi. Þar fannst karlmaður á fertugsaldri látinn í heimahúsi í bænum, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu.
Hinn handtekni var í fyrradag úrskurðaður í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjaness til og með þriðjudeginum 9. desember. Lögreglan segir í tilkynningu að engar frekari upplýsingar verði gefnar um málið.
Maðurinn fannst síðastliðinn sunnudag eftir að lögreglu barst tilkynning um meðvitundarlausan mann í íbúð á Kársnesi. Hann reyndist látinn þegar lögregla kom á vettvang. RÚV greinir frá að maðurinn hafi verið með alvarlega áverka.
Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglunnar hvort og þá hvaða tengsl hinn handtekni hafði við þann látna.













































Athugasemdir