Guðmundur Ingi Guðbrandsson menntamálaráðherra var ekki til svara í óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu í morgun. Hann hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að framlengja ekki skipun skólastjóra Borgarholtsskóla, sem sjálfur hefur lýst sér sem fórnarlambi pólitískra hefnda ráðherra Flokks fólksins.

Til stóð að Guðmundur Ingi yrði til svara í fyrirspurnatíma í dag, en þegar þingfundur hófst hafði nafn hans verið tekið af lista þeirra ráðherra sem beina mætti fyrirspurn til.
Eitthvað stórvægilegt að
„Allir sem lesa þessa umfjöllun, þeim verður ljóst að það er eitthvað stórvægilegt að hjá ráðherrum Flokks fólksins,“ sagði Ólafur Adolfsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, þegar hann hóf umræðu um fundarstjórn forseta þingsins.
Þórunn Sveibjarnardóttir, forseti þingsins, minnti hann um leið á að það væri ekki óundirbúinn fyrirspurnartími byrjaður. „Forseti vill benda háttvirtum þingmönnum á að mér heyrist ekki að það sem hér er um rætt varði fundarstjórn forseta,“ sagði hún.
Það kom þó ekki í veg fyrir að Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, kom næst í púlt og talaði um sama mál.
„Við viljum búa í samfélagi þar sem við getum verið heiðarleg og við getum unnið okkar vinnu án þess að hafa áhyggjur af því að stjórnvöld séu að skipta sér af. Þetta er áhyggjuefni og ég vil hvetja hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að hér séu fagleg vinnubrögð og að hér getum við treyst því að skólameistarar fái t.d. að sinna sínu starfi,“ sagði hún.
Við því brást Þórunn einnig og sagði: „Forseti ítrekar orð sín um að þetta er liðurinn fundarstjórn forseta.“
Tekinn af listanum
Guðlaugur Þór, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fékk þá orðið og sagði málið einmitt snúa að fundarstjórn forseta. „Ég vek athygli á því að í gær átti sá ráðherra að vera hér í dag til að svara óundirbúnum fyrirspurnum,“ sagði hann.
„Virðulegi forseti. Um leið og fréttir bárust af þessari embættisfærslu þá fór sá ráðherra af listanum. Þetta snýr beint að fundarstjórn forseta. Við hljótum að fara fram á það að hér komi skýringar á þessum gjörðum hæstvirtum ráðherra.“
Þá upplýsti Þórunn að Guðmundur Ingi væri á sjúkrahúsi.

Jón Pétur Zimsen og Sigurður Örn Hilmarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokks, sendu ráðherranum batakveðjur úr pontu en héldu áfram að ræða um mál skólastjóra Borgarholtsskóla.
Sem varð til þess að Þórunn tók aftur til máls og sagði: „Forseti ítrekar fyrri orð um lögmæt forföll hæstvirts mennta- og barnamálaráðherra.“
Hver er staðgengill ráðherra?
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vildi þá fá svör um af hverju þingmenn hefðu ekki verið upplýst um forföll ráðherrans fyrr.

„Af hverju vorum við ekki upplýst um það áður en hér kom, til þess að við myndum vita að hverjum við ættum að beina spurningum okkar í dag? Það er algjörlega á ábyrgð hæstvirtrar ríkisstjórnar að upplýsa ekki hver er staðgengill hæstvirts ráðherra fyrst hann er á sjúkrahúsi,“ sagði hann.
Þá bættist Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokkinn, við lista þeirra sem tóku til máls um fundarstjórina og rakti lista skandala sem hann taldi að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gerst uppvísir að:
Ólögmætar greiðslur til Flokks fólksins um árabil „sem námu sennilega á þriðja hundrað milljónum“, brottrekstrur lögreglustjórans á Suðurnesjum, samningur við fyrrvearndi vararíkissaksóknara, óeðlileg stjórnsýsla gagnvart ríkislögreglustjóra, samskipti Ingu Sæland við skólastjórann í Borgarholtsskóla út af týndum Nike-skóm.
Jón bætti því svo við að atvinnuveganefnd, sem hann situr í, hafi óskað eftir að fá atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínu Friðriksson, á fund í júlí. „Ráðherra á samkvæmt þingskapalögum að mæta innan þriggja daga eftir að nefndin óskar eftir því. Hún kom um miðjan nóvember. Innviðaráðherra hefur ekki svarað kalli.“
Benti á forsætisráðherra
Guðlaugur Þór fékk þá annað sinn orðið og ítrekaði að batakveðjur til Guðmundar Inga. „Svo að það fari ekki fram hjá neinum þá vissi ég ekki að viðkomandi hæstvirtur ráðherra væri á sjúkrahúsi og ég óska honum alls hins besta og sendi innilegar batakveðjur,“ sagði hann.
Það væri hins vegar nauðsynlegt fyrir staðgengil ráðherrans að vera til svara.
„Svo er kannski ástæða til þess að benda á það að hæstvirtur forsætisráðherra er einnig til svara hér í dag“
Þórunn brást við því með því að benda á að innviðaráðherra væri staðgengill mennta- og barnamálráðherra og að henni hafi sannarlega verið bætt á lista þeirra sem væru til svara í fyrirspurnartímanum.
„Svo er kannski ástæða til þess að benda á það að hæstvirtur forsætisráðherra er einnig til svara hér í dag,“ sagði Þórunn.
Fyrsti stjórnarliðinn, Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins og flokksbróðir Guðmundar Inga, steig þá í pontu til að ræða fundarstjórnina og sakaði stjórnarandstöðuna um að misnota þann lið fundarins.

Engin tilkynning á vef
Sigríður Andersen, þingkona Miðflokksins, brást við með batakveðjum til Guðmundar Inga, en furðaði sig á því að fjarvera hans hafi verið tilkynnt í þessum umræðum.
„Það er leitt að heyra af innlögn hæstvirts mennta- og barnamálaráðherra á spítala. Ég geri hins vegar athugasemdir við það að innlögn sem slík eða aðstæður hæstvirts ráðherra sem slíks séu tilkynntar með þessum hætti hér í þingsal undir þessum lið, fundarstjórn forseta,“ sagði hún.
Engin tilkynning hafi verið birt á vef Stjórnarráðsins um sjúkrahúsinnlögnina né að annar ráðherra hefði tekið við verkefnum hans. „Ég hvet hæstv. forseta til að koma þeim skilaboðum á framfæri við Stjórnarráðið að hafa meiri formfestu í þessum efnum.“
Vildi ekki „óþarfadramatík“
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra steig þá næst í pontu og furðaði sig á umræðunni.

„Ég get alveg tekið undir það, það er ekki gott að við séum að ræða heilsufar einstakra aðila í þessari pontu. Við vissum ekki þegar við komum inn í þennan þingsal í morgun og í fundarstjórn að þetta yrði til umræðu með þessum hætti,“ sagði hún og upplýsti að veikindi Guðmundar Inga væru ekki alvarleg.
„Ég vil bara að það komi fram svo að það sé ekki óþarfadramatík um stöðu ráðherra. En það er vissulega svo að hann þurfti að fara á spítala í nokkra daga. Það er búið að gera mjög eðlilegar ráðstafanir vegna þess. Svona aðstæður koma upp. Þetta er óviðráðanlegt. Hefðum við getað tekið hringinn hér og tilkynnt þingheimi þetta fyrir þingfund? Kannski, en vitið þið, stundum bara teiknast málin svona upp.“
„Þetta var um fundarstjórn forseta“
Þetta fór öfugt ofan í einhverja stjórnarandstöðuþingmenn og þegar Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokks, fékk orðið minnti hún á eftirlitshlutverk þingsins gagnvart ráðherrum.
„Mig langar til að taka undir batakveðjur til hæstvirts barna- og menntamálaráðherra og það eru slík ósmekklegheit af hæstvirtum forsætisráðherra að dylgja um það að við séum hér að ræða heilsufar hæstvirts ráðherra, ósmekklegheit,“ sagði Diljá.
„Mig langar til að hvetja forseta til að hlutast til um að viðkomandi ráðherrar verði hér til svara um leið og færi gefst. Þetta var um fundarstjórn forseta.“











































Athugasemdir