Jólin koma á hærra verði, segir í færslu frá Verðlagseftirliti ASÍ á vef sambandsins. Árstíðabundnar jólavörur hafa margar hækkað töluvert á milli ára, samkvæmt könnun eftirlitsins.
„Verð á jólavörum getur sveiflast fram að hátíðum og getur verið gott fyrir neytendur að vera á verði gagnvart verðlagi í desember. Verðlagseftirlit ASÍ mun fylgjast náið með verði á jólavörum og matvöru á næstu viku,“ segir í færslunni.
Mest ber á verðbreytingum í kaffi og sælgæti. Freyja jólakötturinn birtist í hillum Bónus í lok nóvember og kostaði 229 krónur en kostaði 169 krónur fyrir ári síðan. Það er 36 prósenta hækkun milli ára.
Malað jólakaffi frá Te & kaffi fór í sölu í nóvember á 1.429 krónur í Bónus og 1.430 krónur í Krónunni, sem samsvarar um 15 prósenta hækkun milli ára. Nú um mánaðamótin hefur verðið aftur fallið og er 1.295 krónur í Krónunni, 10 prósentum lægra en fyrir fáeinum dögum.
Verð á jóladrykknum Malt & appelsín hefur líka sveiflast. Drykkurinn kom í sölu í Krónunni á 285 krónur en kostar nú 278 krónur. Þrátt fyrir lækkun er núverandi verð ríflega 3 prósent hærra en á sama tíma í fyrra í bæði Bónus og Krónunni.
Verðlagseftirlitið nefnir líka að Myllu jólaterturnar hafi kostað 878 krónur í Prís fyrir ári, sem þá var 5-9 prósentum lægra en hjá keppinautum, en nú kosta þær 949 krónur í búðinni. Það er um átta prósenta árshækkun. Kökurnar kosta 998 krónur í Bónus og 999 krónur í Krónunni.
Hálfur lítri af MS matreiðslurjóma hefur hækkað um 8% í bæði Bónus og Krónunni á milli ára, en plönturjómar frá Schlagfix, Oatly og Alpro standa í stað í Krónunni, á sama verði og í fyrra.
Valhnetukjarnar sem seldir eru undir nafninu Til hamingju kosta nú 199 krónur í Krónunni og hafa lækkað um 13% milli ára (frá 229 krónur). Euroshopper-valhnetur kosta 217 krónur í 100 gramma poka í Bónus (4% hækkun) og 498 krónur í 300 g poka (8% hækkun).
Ósteikt laufabrauð frá Kristján kostaði 1.898 krónur í Prís líkt og í fyrra, en 2.059 krónur í Bónus og 2.060 krónur í Krónunni, sem er rúmlega 7 prósenta hækkun milli ára.
Eins kílógramms konfektkassi frá Nóa Síríus hefur hækkað um 9 prósent í Krónunni, sem er minni árshækkun en á öðru sælgæti. Meðalhækkun vara frá Nóa Síríus milli ára nam 19 prósentum í Bónus, Krónunni og Prís.












































Athugasemdir