Í Brasilíu sitja fulltrúar ríkja og reyna að finna ráð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að unnt verði ná því markmiði Parísarsamningsins að takmarka hækkun hitastigs Jarðar við 1,5 gráður á Celsíus. Það stendur mjög tæpt á COP30.
Hér í Genf sitja á sama tíma fulltrúar aðildarríkja Árósasamningsins frá 1998 sem tryggja á rétt almennings til að beita sér gegn þeim öflum sem vilja auka losun gróðurhúsalofttegunda eða með öðrum aðferðum vanvirða rétt almennings til heilnæms umhverfis.
Aðild að samningnum er opin aðildarríkjum Efnahagsráðs Evrópu, Evrópusambandinu og þeim ríkjum sem hafa stöðu samráðsaðila í Efnahagsráði Evrópu.
Réttlát málsmeðferð skal tryggð
Árósasamningurinn á rætur sínar í Ríó-yfirlýsingunni frá 1992. Þar segir: „Raunverulegur aðgangur skal veittur að réttar- og stjórnsýslukerfum þ. á m. réttarúrræðum.”
Árósasamningurinn kveður því á um að almenningur og samtök hans hafi „… aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum og/eða öðrum óháðum og hlutlausum aðila”, sbr. 9. gr. Árósasamningsins um aðgang að réttlátri málsmeðferð.
Aðild að dómsmálum er ein þriggja meginstoða Ársósasamningsins. Hinar tvær eru réttur almennings til upplýsinga um umhverfismál og réttur almennings til þátttöku í ákvörðunum um umhverfismál.
Árósasamningurinn um lýðræðisleg réttindi almennings stóð lengi í stjórnvöldum heima. Alþingi fullgilti ekki samninginn fyrr 2011 en þó með þeirri undantekningu að „... virk réttarfarsleg úrræði [eru ekki] aðgengileg almenningi, þar með töldum samtökum, þannig að réttmætir hagsmunir hans séu varðir og lögum framfylgt”…eins og þó segir í formála samningsins. Almenningur og samtök hans geta ekki leitað til íslenskra dómstóla með ágreiningsmál á sviði umhverfismála.
Séríslenskt brot á alþjóðasamningi
Þennan rétt vilja íslensk stjórnvöld ekki veita borgurum landsins. Á hinn bóginn veitir Árósasamningurinn einstaklingum og samtökum rétt til að kvarta til eftirlitsnefndar samningsins, telji þau að aðildarríki hafi brotið gegn ákvæðum hans.
Sú varð raunin í febrúar 2019 þegar átta samtök kærðu þá gerræðislegu ákvörðun stjórnvalda haustið 2018 að skyndibreyta lögum um fiskeldi með frumvarpi sem sem samþykkt var samdægurs í kjölfar þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði fjölda fiskeldisleyfa á Vestfjörðum ógild.
Lögin veittu sjávarútvegs- og umhverfisráðherrum heimild til að gefa út bráðabirgðaleyfi sem sniðgengu rétt almennings til þátttöku í ákvarðanatöku, útilokuðu kærurétt umhverfisverndarsamtaka um leið og ákvörðun úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála var höfð að engu.
Úrskurðarnefndin – jafn góð og hún er – var sú leið sem stjórnvöld opnuðu fyrir einstaklinga og samtök sem vildu véfengja ákvarðanir stjórnvalda En hún kemur ekki í stað dómstóls. Réttur almennings til réttlátrar málsmeðferðar er ekki tryggður á Íslandi.
Hér á 8. ríkjaráðstefnu aðildarríkja Árósasamningsins í Genf, MOP8 (Meeting of Parties nr. 8), hafa embættismenn samningsins lýst brotum aðildarríkjanna sjálfra gegn réttindum þegna sinna. Oft með mun ógeðfelldari hætti en alþjóðalagabrot ríkisstjórnar Íslands haustið 2018. Fyrir samningnum liggja tugir kærumála sem enn hafa ekki hlotið afgreiðslu. Mál átta íslenskra samtaka frá febrúar 2019 gæti klárast á næsta ári og nú líkt og þá teljum við að framganga íslenskra stjórnvalda fái falleinkunn.
















































Athugasemdir