Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir útilokað að hún fari í framboð fyrir flokkinn meðan núverandi stjórn hans er við lýði. Hún sér enn fremur ekki fyrir sér raunhæfar leiðir til þess að Sósíalistar sem fylgi henni geti starfað innan flokksins.
Þetta kemur fram í umfjöllun Gímaldsins um oddvita stjórnmálaflokkanna í Reykjavík.
„Mig langar að halda áfram en ég sé ekki möguleika á að fara fram með Sósíalistum eins og staðan er núna,“ segir Sanna við Gímaldið. „Eins og staðan er og miðað við allt sem á undan er gengið, tel ég litlar líkur á að fara fram undir merkjum Sósíalista og alveg útilokað meðan þau sem stýra flokknum núna ráða þar ríkjum.“
Sanna hefur margoft mælst sá borgarfulltrúi sem nýtur hvað mestra vinsælda. Hefur því verið velt upp í fjölmiðlum hvort Sanna gæti leitt nýtt framboð á vinstri vængnum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Við Gímaldið sagði hún að samstarf á vinstri vængnum kæmi vel til greina.
Deilur og vantraust
Miklar deilur hafa verið í Sósíalistaflokknum um nokkurt skeið en ný framkvæmdastjórn var kjörin í vor eftir kosningar á aðalfundi sem hafa verið kallaðar hallarbylting. Eftir að nýja framkvæmdastjórnin, sem leidd er af Sæþóri Benjamín Randalssyni, tók við sagði Sanna sig frá trúnaðarstörfum fyrir flokkinn þótt hún sitji enn í borgarstjórn.
Í ágúst lýsti Svæðisfélag Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi yfir vantrausti á á Sönnu Magdalenu vegna þess sem kallað var óvirðing hennar við flokkinn. Ásakaði svæðisfélagið Sönnu og fyrrverandi stjórn Sósíalistaflokksins um að skipuleggja stofnun nýs stjórnmálaflokks með ríkisstyrk hans.
Á nýlegum félagsfundi í Sósíalistaflokknum var farið fram á að haldinn yrði auka aðalfundur, sem Sanna kallaði eftir að framkvæmdastjórnin tæki mark á. Í tilkynningu frá stjórninni til flokksfélaga eftir fundinn sagði að margir hefðu mætt á hann „til að hleypa honum upp með óskum um að fara út fyrir valdsvið fundarins.“
Í forsvari nýrra samtaka
Eftir átökin tóku Sanna og margir þeirra sem hurfu á brott úr ábyrgðastöðum fyrir Sósíalista sæti í stjórn annarra samtaka: Vorstjörnunar. Það félag hafði verið rekið við hlið Sósíalistaflokksins og fjármagnaði meðal annars rekstur félagsheimilis flokksins og sjónvarps- og útvarpsstöðvarinnar Samstöðvarinnar.
Þeim hugmyndum hefur verið velt upp, að bjóða fram undir þeirra merkjum, endurheimti stuðningsfólk Sönnu ekki stjórn á flokknum. Vorstjarnan nýtur þó engra fjárframlaga úr ríkissjóði líkt og Sósíalistaflokkurinn. Framlög til borgarstjórnarflokks Sósíalista úr borgarsjóði hafa hins vegar verið látin renna til Vorstjörnunnar, sem og hlutfall af launum borgarfulltrúa flokksins.
Það er því ekki útilokað að félagið gæti með skömmum tíma orðið að stjórnmálahreyfingu og framboði.











































Athugasemdir (2)