Netanyahu segir að Palestínuríki væri „sjálfsmorð“ fyrir Ísrael

Benjam­in Net­anya­hu, for­sæt­is­ráð­herra Ísra­els, hét því að standa í vegi fyr­ir sjálf­stæðu Palestínu­ríki í ræðu á þingi Sam­ein­uðu þjóð­anna. Fjöldi sendi­full­trúa á þing­inu gekk út við upp­haf ræð­unn­ar. Hann hét áfram­hald­andi bar­áttu gegn Ham­as, þrátt fyr­ir mót­mæli, ásak­an­ir um stríðs­glæpi og vax­andi al­þjóð­lega gagn­rýni.

Netanyahu segir að Palestínuríki væri „sjálfsmorð“ fyrir Ísrael
Ráðherrann „Ísrael mun ekki leyfa ykkur að troða hryðjuverkaríki ofan í okkur,“ sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Mynd: ANGELA WEISS / AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hét því í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum fyrr í dag að standa í vegi fyrir sjálfstæðu Palestínuríki. Þá sakaði hann evrópska leiðtoga um að neyða land hans til að „fremja sjálfsmorð á þjóð“ sinni og verðlauna Hamas.

Netanyahu hét í ræðunni, sem hann sagði að væri að hluta útvarpað í hátölurum ísraelska hersins á Gaza, að „klára verkið“ gegn Hamas. Það gerði hann jafnvel þó Donald Trump Bandaríkjaforseti segðist telja að hann hefði tryggt samkomulag um vopnahlé.

Nokkrir dagar eru síðan Frakkland, Bretland og mörg önnur vestræn ríki viðurkenndu Palestínu sem ríki. Netanyahu sagði að með því hefðu þau sent „mjög skýr skilaboð um að það að myrða gyðinga borgi sig“.

„Ísrael mun ekki leyfa ykkur að troða hryðjuverkaríki ofan í kokið á okkur,“ sagði forsætisráðherrann í ræðunni. „Við munum ekki fremja sjálfsmorð á þjóð okkar vegna þess að þið hafið ekki hugrekki til að horfast í augu við fjandsamlega fjölmiðla og gyðingahatandi múg sem krefst blóðs Ísraels,“ sagði hann.

Forseti palestínsku heimastjórnarinnar, Mahmud Abbas, er andstæðingur Hamas-samtakanna, sem fara með stjórn á Gazaströndinni, og fordæmdi árásina sem og gyðingahatur í ræðu sinni á fimmtudag, sem hann flutti í gegnum fjarfund eftir að Bandaríkin neituðu honum um vegabréfsáritun.

Netanyahu – sem hefur verið andvígur Palestínuríki í áratugi – gerði lítið úr stuðningi Vesturlanda við Abbas og kallaði palestínsku heimastjórnina „gjörspillta frá rótum“.

Netanyahu minntist þó ekki á innlimun Vesturbakkans, sem sumir ráðherrar hans hafa hótað að nota til að koma í veg fyrir möguleikann á raunverulegu Palestínuríki. Trump, sem venjulega hefur stillt sér upp sem einörðum bandamanni Netanyahus, hefur varað við innlimun á sama tíma og hann leggur fram friðaráætlun fyrir Gaza sem myndi fela í sér afvopnun Hamas.

Netanyahu lagði sérstaka áherslu á að hrósa Trump, sem hann mun hitta á mánudag í Washington.

Trump sagðist telja að samkomulag um endalok stríðsins væri í höfn skömmu eftir að Netanyahu hafði lokði ræðu sinni. „Ég held að við höfum náð samkomulagi,“ sagði hann.

Fór krókaleið á fundinn

Þar sem Netanyahu stendur frammi fyrir handtökuskipun Alþjóðlega sakamáladómstólsins vegna ásakana um stríðsglæpi, þar á meðal að nota skipulagt svelti sem vopn, fór forsætisráðherrann óvenjulega leið til New York, meðal annars með flugi yfir hið mjóa Gíbraltarsund. 

Þegar hann gekk upp í ræðustól Allsherjarþingsins gekk fjöldi sendinefnda strax út. Þau höfðu komið eingöngu til að yfirgefa salinn þar sem Netanyahu var fyrsti ræðumaður dagsins. Dynjandi lófatak ómaði engu að síður um salinn þar sem Netanyahu hafði boðið stuðningsmönnum að fylgjast með úr áhorfendapöllunum.

Mótmælendur héldu fund í nágrenni Times Square og kölluðu eftir handtöku Netanyahus. „Stríðsglæpamenn eiga ekki skilið neina sálarró. Þeir eiga ekki skilið svefn,“ sagði Andrea Mirez, ung kona sem hélt uppi hávaðamótmælum fyrir utan hótel Netanyahus alla nóttina, við AFP. 

Netanyahu mótmælti harðlega í ræðu sinni ásökunum um að Ísrael væri að fremja þjóðarmorð í Gaza og benti á að Ísrael hefði ítrekað sent bæklinga með viðvörunum til almennra borgara um að yfirgefa svæðið. Alþjóðleg mannúðarlög líta þó einnig á þvingaða brottflutninga sem stríðsglæp. Nánast allir íbúar Gaza hafa neyðst til að flýja heimili sín í stríðinu.

Samkvæmt samantekt AFP voru 1.219 drepnir í árás Hamas 7. október 2023, að mestu óbreyttir borgarar. Innrásarstríð Ísraels á Gaza, sem varað hefur sleitulaust síðan, er sagt svar við henni. Árásir Ísraels hafa síðan þá drepið fleiri en 65.500 Palestínumenn, flesta óbreytta borgara, samkvæmt tölum heilbrigðisráðuneytisins á Gaza, þar sem Hamassamtökin eru við stjórn. Sameinuðu þjóðirnar telja tölurnar áreiðanlegar.

„Við höfum ekki gleymt ykkur“

Netanyahu sagði að ræðu hans hefði verið að hluta útvarpað í hátalara í þeirri von að ná bæði til leiðtoga Hamas og gíslanna sem enn eru haldnir frá árás Hamas þann 7. október 2023.

„Við höfum ekki gleymt ykkur – ekki í eina sekúndu. Öll þjóðin er með ykkur, og við munum ekki þegja eða gefast upp fyrr en við höfum komið ykkur öllum heim, lifandi jafnt sem látnum,“ sagði Netanyahu, og skipti stuttlega yfir í hebresku.

Fjölskyldur gísla hafa gagnrýnt hernað Netanyahus og kallað eftir vopnahléi til að bjarga ástvinum sínum.

Netanyahu flutti ræðuna nokkrum mánuðum eftir að hann fyrirskipaði stórfelldar loftárásir á kjarnorkumannvirki Írans. Í ræðunni dró hann fram kort af Miðausturlöndum, tók upp penna og krossaði yfir andstæðinga sem Ísrael hefði ráðið af dögum. Íran sniðgekk ræðuna og lagði á borð sendinefndar sinnar myndir af hluta þeirra rúmlega þúsund manns sem írönsk stjórnvöld segja hafa látist í árásunum.

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Brotthvarf að meðaltali hærra úr íslenskum háskólum en í OECD-ríkjum
3
Fréttir

Brott­hvarf að með­al­tali hærra úr ís­lensk­um há­skól­um en í OECD-ríkj­um

Nið­ur­stöð­ur nýrr­ar skýrslu OECD um há­skóla­mál sýna að brott­hvarf er hærra á Ís­landi en að með­al­tali í OECD-ríkj­um. Þá seg­ir að tryggja þurfi að ís­lensk­ir há­skól­ar standi jafn­fæt­is öðr­um OECD há­skól­um. „Þess­ar nið­ur­stöð­ur stað­festa að há­skóla­mál­in þurfa að njóta sér­stakr­ar at­hygli,“ seg­ir Logi Ein­ars­son menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skóla­ráð­herra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár