Píratar næðu minnst þremur fulltrúum á þing í dag, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Maskínu. Flokkurinn nýtur 5,8 prósenta stuðnings og myndi því rjúfa fimm prósenta þröskuldinn sem þarf til að fá úthlutað uppbótarþingmönnum.
Píratar féllu af þingi í kosningunum sem fram fóru undir loka síðasta árs. Það gerðu Vinstri græn líka en stuðningur við þau mælist enn undir þröskuldinum. Fylgi Vinstri grænna mælist nú 4,1 prósent.
Samfylkingin er enn langstærsti flokkurinn, samkvæmt könnuninni, með 31,9 prósenta fylgi. Það er um það bil sama fylgi og flokkurinn mældist með í síðustu könnun Maskínu. Sjálfstæðisflokkurinn marar á sama stað og í síðustu könnun, í 18,6 prósentum, en Viðreisn fellur lítillega og mælist nú með 14,3 prósenta stuðning.
Fylgi Framsóknarflokks og Flokks fólksins mælist í báðum tilvikum 6,3 prósent. Miðflokkurinn er stærri en þeir báðir með 9,1 prósenta fylgi.
Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 3,5 prósenta fylgi og kæmi því ekki fulltrúa að á þingi. Flokkurinn héldi hins vegar áfram að fá greiðslur úr ríkissjóði, líkt og hann hefur gert undanfarin misseri, yrðu þetta niðurstöður kosninga. Til að tryggja sér greiðslur þarf að ná að lágmarki 2,5 prósent atkvæða í kosningum.
Athugasemdir