Stöðugildi á vegum ríkisins voru 29.054 þann 31. desember 2024 og fjölgaði um 538 á landsvísu á árinu eða um 1,9 prósent.
Þetta kemur fram í nýrri tölfræði Byggðastofnunar. Samkvæmt mælaborði stofnunarinnar voru 24.343 stöðugildi á vegum ríkisins í lok árs 2017 þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfólks hafði nýtekið við völdum. Fjölgaði því ríkisstörfum um 4.711 á þeim tæpu tveimur kjörtímabilum sem ríkisstjórnin var við völd, eða um rúmlega 19 prósent.
Á sama tímabili fjölgaði íbúum Íslands um tæp 14 prósent og því ljóst að ríkisstörfum fjölgaði vel umfram fólksfjölgun.
„Báknið“ stækkaði
Þessi fjölgun starfa á vegum ríkisins vekur athygli í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fór með fjármálaráðuneytið allan þann tíma sem þetta ríkisstjórnarsamstarf átti sér stað fyrir utan rúma tvo síðustu mánuði þess. Var Bjarni Benediktsson, þá formaður flokksins, fjármálaráðherra megnið af tímanum og ábyrgur fyrir framlagningu fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar.
Á síðunni „Sjálfstæðisstefnan í hnotskurn“ á vef flokksins segir að kjörorð flokksins séu meðal annars: „Báknið burt.” Flokkurinn hafði þetta í fyrirrúmi í kosningabaráttu sinni fyrir Alþingiskosningar í fyrra og bar fyrsti kafli kosningaáherslum hans titilinn „Minna ríki“. Í honum voru tillögur á borð við „Fækkum ríkisstofnunum úr 160 í 100“ og „Bjóðum út verkefni - ríkið þarf ekki að vinna öll verk“.
Flokkurinn hefur þannig lengi talað fyrir minni ríkisafskiptum en fjöldi starfa á vegum ríkisins hefur hins vegar blásið út á meðan hann hefur verið við stjórnvölin. Í raun er hægt að líta lengra aftur í tölfræði Byggðastofnunar, til loka árs 2014 þegar flokkurinn hafði þá árið áður myndað ríkisstjórn með Framsóknarflokki undir forsæti þáverandi formanns Framsóknar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Voru stöðugildi á vegum ríkisins 22.751 í lok árs 2014. Það kjörtímabil var Bjarni Benediktsson einnig fjármálaráðherra. Hefur þeim þannig fjölgað um 6.303 á þessum áratug eða 27,7 prósent.
Fjölgunin vegna heilbrigðismála og Háskóla Íslands
Flest stöðugildi á vegum ríkisins eru á höfuðborgarsvæðinu, að því fram kemur í greiningu Byggðastofnunar, enda er meirihluti landsmanna búsettur þar. Hins vegar er hlutfall stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu 70% en hlutfall landsmanna sem þar býr aðeins 64%.
„Mesta hlutfallslega fjölgunin var erlendis“
Stöðugildum fjölgaði mest á höfuðborgarsvæðinu í fyrra eða um 491 milli ára, mest vegna Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Háskóla Íslands. „Mesta hlutfallslega fjölgunin var erlendis, fyrst og fremst vegna stöðugilda við alþjóðlega þróunarsamvinnu,“ segir í greiningu Byggðastofnunar en stöðugildi erlendis voru 75 í fyrra, aðallega í erlendum sendiráðum, og hafði fjölgað um ellefu á milli ára. „Þar fyrir utan fjölgaði stöðugildum hlutfallslega mest á Vestfjörðum eða um 6,5% en sú fjölgun er aðallega á Ísafirði. Mesta fækkun stöðugilda var á Suðurlandi, 36 stöðugildi eða 2,0%.“
Athugasemdir (1)