Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra greindi frá leiðinlegu atviki sem fjölskylda úr Grafarvogi lenti í nýverið þegar hún ferðaðist um Snæfellsnes. Fjölskyldan hafði stoppað stuttlega við Kirkjufell. Í kjölfarið barst tæplega sex þúsund króna rukkun í heimabankann vegna bílastæðagjalds – grunngjaldið var 1.000 krónur en þar sem ekki var greitt innan sólarhrings bættist við 4.500 króna vangreiðsluálag og 250 króna færslugjald.
„Enginn í fjölskyldunni hafði tekið eftir neinum skýrum merkjum um gjaldskyldu – né leiðbeiningum um hvernig greiða skyldi,“ skrifaði ráðherrann í færslu á Facebook. Hún kvað málið ekki einsdæmi. „Kvartanir vegna svipaðra mála berast bæði Neytendastofu og Neytendasamtökunum nánast vikulega, þar sem fólk lýsir óljósri, ósýnilegri eða villandi gjaldtöku sem kemur fram löngu eftir að ferðinni er lokið.“
Skömmu áður en atvinnuvegaráðherra vakti athygli á ástandinu hafði ættingi lýst fyrir mér hvernig hann og kunningjar hans, oft (h)eldri borgarar, væru orðnir „ragir við að ferðast um landið á sama hátt og áður“. Sagði hann ánægjuna farna veg allrar veraldar með fjölda erlendra ferðamanna og tilheyrandi gjaldtöku, sér í lagi frumskógi bílastæðagjalda en þar færi „þrælflókið ferli“ þar sem fólk þyrfti að vera með mörg öpp í símanum til að geta greitt fyrir stæði á ferðamannastöðum.
Ég var ein þeirra sem hlógu
Í sumar varð mér reglulega hugsað til útvarpsviðtals sem ég heyrði árið 2012 á útvarpsstöðinni Bylgjunni. Viðtalið var við Þór Saari, þáverandi þingmann Hreyfingarinnar, um ört stækkandi ferðamannaiðnað. „Við ráðum ekki við þennan fjölda,“ sagði Þór. „Íslendingar sem fara niður í miðbæ á sitt kaffihús sem þeir hafa kannski gert árum saman komast ekki að vegna þess að það er allt fullt af einhverjum ferðamönnum.“
Hlátrasköll yfirgnæfðu varnaðarorð Þórs. Viðhorf hans þótti bera vott um molbúahátt.
Ég var ein þeirra sem hlógu.
En Þór reyndist óhugnanlega sannspár. „Ferðamennskan sviptir okkur Íslendinga því umhverfi sem við búum í og höfum alist upp í,“ sagði hann, rétt eins og hann horfði í spákúlu sem sýndi honum þrettán ár inn í framtíðina. „Við getum ekki lengur farið á Þingvöll og notið þess að standa á hakinu og horfa á Þingvelli. Við getum ekki lengur farið á Gullfoss og Geysi og notið þess að fara þangað því það eru þúsundir útlendinga þar sem að trufla mann í sínu eigin landi.“
Hver var þessi maður?
Bílastæði eru nýjasti núningsflöturinn þegar kemur að ferðamennsku hér á landi. Sjálf lenti ég í heldur óskemmtilegri upplifun á bílastæði við Leifsstöð í síðustu Íslandsheimsókn minni.
Það var um síðustu jól. Við fjölskyldan hugðumst fljúga aftur til London eftir vel heppnaða jólaheimsókn heim til Íslands. Við sátum inni í kyrrstæðum bílaleigubíl, fremst í röð bifreiða sem biðu þess að vera lagt fyrir framan Flugstöðina svo að afferma mætti bílana.
Skyndilega kom maður aðvífandi. Ógnandi í fasi hóf hann að berja í bílinn af afli.
„What the f*** is wrong with you,“ öskraði hann aftur og aftur á eiginmann minn sem sat við stýrið.
Felmtri slegin hóf ég að leita að tökkunum sem læsa bílhurðunum innan frá. Börnin tóku að snökta í aftursætinu. Eiginmaðurinn horfði gapandi á manninn í gegnum bílrúðuna.
Það var ekki fyrr en maðurinn tók að banda með hendinni í átt að bílastæðunum að við áttuðum okkur á að stæði hafði losnað í fjarska en við höfðum ekki tekið eftir því.
Skelkuð lögðum við bílnum. Þegar óttinn bráði af mér tók reiðin að krauma. Hver var þessi maður og hvað réttlætti svo hörð viðbrögð við saklausri yfirsjón?
Þegar ég sá manninn stíga um borð í rútu greip ég símann minn. Svo virtist sem röð einkabílanna í „fimm-mínútna-ástvina-affermingarstæðin“ hefði teppt veg rútunnar um bílastæðið. Ég stökk út úr bílnum og hugðist ná mynd af manninum og bílnúmeri rútunnar.
En þar sem ég hljóp og reyndi samtímis að aflæsa símanum var rútunni ekið á brott.
Tákngervingur hins innfædda aula
Var maðurinn bílstjóri rútunnar? Leiðsögumaður? Ég veit það ekki. En fyrir mér fangaði atvikið þá óhóflegu spennu sem komin er í ferðamennsku á Íslandi. Tími er peningar. Hver sekúnda sem fer til spillis er gull sem gloprað er niður.
Á bílastæðaplani Leifsstöðvar var ég tákngervingur hins innfædda aula, einfeldningurinn sem hélt að túrisminn væri til fyrir okkur. Svo virðist hins vegar sem við séum til fyrir túrismann – og í mínu tilfelli var ég fyrir túrismanum.
Ég mun aldrei gleyma heiftinni sem skein úr andliti hins óþekkta fulltrúa ferðaþjónustunnar.
Athugasemdir