Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, skrifar pistil á Facebook síðu sína í dag þar sem hann lýsir stuðningsfólki ríkisstjórnarflokkanna sem „líklega bitrum“, „í vandræðum með sjálfsmynd sína“ og segir að þeim finnist þeir „ekki metnir að verðleikum“.
Í pistlinum, sem er nokkuð ljóðrænn og byrjar á orðunum „Hver ertu?“ lýsir Jón Pétur tveimur tegundum af fólki. Annars vegar þeim sem svara nei við eftirfarandi spurningum og hins vegar þeim sem svara játandi og eru stuðningsmenn Samfylkingar, Viðreisnar eða Flokks fólksins.
„Finnst þér erfitt þegar öðrum gengur vel, hvers vegna ekki ég?“ spyr Jón Pétur. „Borgar þú minna til samfélagsins en þú þiggur? Þeir sem eru vel stæðir hafa skarað eld að eigin köku með óeðlilegum hætti. Þeir sem þurfa tímabundna hjálp til sjálfshjálpar eiga að fá að rotna í helvíti enda aumingjar. Ertu stjórnlyndur?“
„ Þeir sem þurfa tímabundna hjálp til sjálfshjálpar eiga að fá að rotna í helvíti enda aumingjar“
Jón heldur áfram og beinir sjónum sínum að því sem hann virðist sjá sem popúlíska hegðun stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. „Ertu til í að tala meira um óréttlæti en að gera raunverulega eitthvað í því?“ spyr hann. „Skiptir þig meira máli að fólk haldi að þú sért góður og fáir mörg „like“ á það en að þú gerir raunverulega eitthvað í því. Ertu til í stundarvinsældir þó að það kosti almannahag á endanum? Þeir sem standa sig vel eiga að vinna töluverða nauðungarvinnu fyrir þá sem leggja sig minna fram. Langar þig að sýnast vera góð manneskja á netinu og eltir því það sem er vinsælt hverju sinni því það er auðvelt að hneykslast á hinu. Ertu yfirborðskenndur og frasatamur? Finnst gott að elta það sem hljómar vel en nennir ekki alveg að kynna þér það? En myndir ALDREI viðurkenna það?“
Loks spyr hann hvort lesandinn sé „x( S,C,F) maður“.
„Þeir sem svara nei eru líklegir til að sökkva sér í málin, taka afstöðu út frá staðreyndum en ekki tilfinningum. Vilja ÖLLUM gott og lyfta öllum,“ skrifar Jón Pétur og meinar þá líklega þá sem ekki styðja ríkisstjórnarflokkana.
„Þeim finnst þeir ekki metnir að verðleikum og að heimurinn sé ÓSANNGJARN“
„Þeir sem svara Já eru líklega bitrir,“ skrifar hann að lokum. „Einhver hefur komið illa fram við þá og þeir eru í vandræðum með sjálfsmynd sína. Þeim finnst þeir ekki metnir að verðleikum og að heimurinn sé ÓSANNGJARN. Að allt sé einhverjum ÖÐRUM að kenna og því nærtækt að kenna þeim um sem hafa það betur.“
Athugasemdir (5)