Minni hluti í atvinnuveganefnd vill vísa frumvarpi um strandveiðar aftur til ríkisstjórnar. Frumvarpið á að tryggja 48 veiðidaga til strandveiða í ár.
Undir tillöguna skrifa Njáll Trausti Friðbertsson og Jón Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokks og áheyrnarmaður í nefndinni er einnig samþykkur tillögunni.
Þeir gagnrýna að málið hafi verið unnið hratt og lítill tími til að gefa umsagnaraðilum færi á að koma með athugasemdir. „Ef það verður að lögum verður ráðherra veitt víðtæk heimild til að ráðstafa viðbótaraflamagni til strandveiða umfram þær skorður sem Hafrannsóknastofnun setur og ákveðið er með lögbundinni aflareglu stjórnvalda,“ segir í tillögunni. „Það væri frávik frá skýrum viðmiðum um verndun fiskstofna og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda og gengi gegn markmiðum laga um stjórn fiskveiða.“
Þeir leggja því til að málið fari aftur fyrir ríkisstjórn. „Með því að lögfesta ráðstöfun aflamagns sem gengur gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og aflareglu stjórnvalda er hætta á því að grafið verði undan sjálfbærnivottun íslensks sjávarútvegs,“ segir í tillögunni. „Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vöruðu við því í umsögn sinni að það kynni að hafa áhrif á markaðsaðgengi, verð og traust neytenda á íslenskum sjávarafurðum. Alþjóðlegar vottanir byggjast á traustri og gagnsærri fiskveiðistjórn en ekki pólitískum ákvörðunum sem fara í bága við ráðgjöf sérfræðinga.“
Íslandsmetið að falla
Málið er ekki það eina sem varðar fiskveiðar sem Alþingi er með til umfjöllunar nú en í dag stendur yfir umræða um fyrirhugaðar hækkanir ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum. Áðurnefndur Njáll Trausti mun í dag flytja sína 60. ræðu um málið en þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa sagts ætla að ræða málið eins lengi og þarf til að stöðva það.
Lengsta umræða á Alþingi síðan þingið var sameinað í eina málstofu árið 1991 var um þriðja orkupakkann árið 2019. Stóð hún í 147 klukkustundir. Veiðigjaldafrumvarpið kemur þar næst á eftir og hafði í gær verið rætt í 142 klukkustundir.
Umræðan um málið hófst kl. 10 í dag og má því búast við að Íslandsmetið falli á næstu klukkutímum og veiðigjaldaumræðan verði sú tímafrekasta í sögu Alþingis í núverandi mynd.
Athugasemdir