Kynna íbúa New York fyrir íslenskri sundmenningu

Þrír ís­lensk­ir vin­ir vilja gera úti­bað­að­stöðu að­gengi­lega í New York-borg. Þeir segja sund stór­an hluta af menn­ingu Ís­lend­inga og stefna á að opna SUND í stór­borg­inni á næsta ári. Fram­kvæmda­stjór­inn, Styrm­ir Elí Ing­ólfs­son, seg­ir mik­il­vægt að vörumerk­ið sé inn­blás­ið af ís­lensk­um venj­um og sið­um.

Vinirnir Styrmir Elí Ingólfsson, Alexander Breki Jónsson og Bjarki Sigurðarson ætla að opna útibaðaðstöðu á Manhattan á næsta ári. Hugmyndin varð til þegar þeir sátu saman í gufubaði í New York og hugsuðu heim til Íslands. 

Heitapottaspjall sem varð að veruleika

„Við erum að opna fyrstu útibaðstöðuna að íslenski fyrirmynd hér á Manhattan,“ segir Styrmir Elí, meðstofnandi og framkvæmdastjóri SUND. Nokkur ár eru síðan vinirnir þrír, Styrmir, Alexander og Bjarki, fóru að ræða það sín á milli hvort það væri möguleiki á að opna útibaðaðstöðu. Það var svo í desember á síðasta ári sem þeir ákváðu að láta slag standa og gera drauminn að veruleika. 

„Fólk er að kveikja á því hvað regluleg sánanotkun gerir fyrir mann heilsufarslega og andlega

Allir höfðu þeir þá búið í New York í nokkurn tíma. Styrmir Elí lauk námi í leiklist frá Stella Adler Studio of Acting í New York. Alexander Breki, fjármálastjóri SUND, er menntaður fjármálaverkfræðingur frá Columbia-háskóla og vann áður sem ráðgjafi hjá Simon-Kucher. Bjarki, rekstrarstjóri, er tónlistarframleiðandi í dúóinu Ra:tio og menntaður í stjórnun og stefnumótun frá Columbia-háskóla og Háskóla Íslands. Hann hefur meðal annars unnið fyrir UN Women, Evrópusambandið og Brú Strategy.

KynningAlexander Breki fjármálastjóri og Bjarki rekstrarstjóri kynna SUND fyrir gestum í kynningarteiti fyrirtækisins.

„Í byrjun var þetta heitapottaspjall,“ segir Styrmir og brosir. „Hugmyndin kom upprunalegu í sánu. Við stundum allir sund og gufuböð af miklum krafti þegar við erum heima á Íslandi.“ Þríeykið fann enga útibaðaðstöðu í stórborginni og aðgangur að líkamsræktarstöðvum með gufuböðum kostaði sitt. „Við fórum þá að ræða af hverju það væri ekki aðstaða þar sem við gætum stundað þetta oftar,“ útskýrir Styrmir. 

Bjóða upp á gufuböð að íslenskum siðFramkvæmdastjórinn Styrmir Elí segir aukna vitund meðal fólks í New York um ávinning þess að stunda gufuböð reglulega.

Hugmyndin um útibaðaðstöðu rímar vel við aukna vitund Bandaríkjamanna um heildræna nálgun á heilsu. „Fólk er að kveikja á því hvað reglulega sánanotkun gerir fyrir mann heilsufarslega og andlega,“ segir Styrmir. 

Milljón dollara fjármögnun

Í fyrstu voru vinirnir ekki vissir um að hugmyndin væri rekstrarhæf enda vanir ódýru vatni hér heima á Íslandi. „En eftir að hafa kannað það, þá komumst við að því að það er vel rekstrarhæft,“ segir Styrmir sem bendir á að leiguverð á iðnaðarhúsnæði hafi lækkað töluvert síðan heimsfaraldurinn reið yfir. Því skapaðist gat á markaðnum fyrir Íslendingana til þess að láta til sín taka. „Fermetraverðið á atvinnuhúsnæði er víða ekki mikið dýrara en í Reykjavík,“ útskýrir Styrmir. „Það er ákveðið móment í markaðnum til að fara og skapa annars konar verðmæti í iðnaðarhúsnæði.“

„Fermetraverð á atvinnuhúsnæði er víða ekki mikið dýrara en í Reykjavík

Þegar Heimildin náði tali af Styrmi voru félagarnir að leggja lokahönd á eins milljón dollara fjármögnun í fyrsta fasa fjármögnunarferlisins, sú upphæð samsvarar um 130 milljónum íslenskra króna. Þá hafa Styrmir, Alexander og Bjarki einnig skrifað undir samning við dönsku arkitektastofuna Bjarke Ingels Group. „Þau eru að taka að sér arkitektúr og hönnun,“ segir Styrmir. „Sú reynsla og þekking sem þau koma með inn á borðið er mjög verðmæt.“

Styrmir Elí IngólfssonFramkvæmdastjóri SUND segir hugmyndina að fyrirtækinu hafa komið þegar vinirnir þrír fundu ekki útibaðaðstöðu í stórborginni og söknuðu þess að komast í heita gufu.

Fyrirtækið er því á leið í næsta fasa fjármögnunarinnar. Styrmir segir þá stefna að því að fullfjármagna verkefnið fyrir lok sumarsins og opna SUND fyrir gestum undir lok næsta árs.

Íslendingarnir eru í þann mund að tryggja sér þakrými á Manhattan með útsýni yfir borgina. Þar verður hægt að fara í gufu, heita potta og köld kör. Þeir vilja einnig bjóða upp á hóptíma í gufuböðunum þar sem gestir eru leiddir áfram í gegnum hitann. Þetta telja þeir henta íbúum stórborgarinnar vel, enda eru þeir yfirleitt á hraðferð. „Það tónar vel við New York-taktinn að vera með svoleiðis,“ segir Styrmir.

Gestum SUND verður ekki heimilt að vera með síma í gufum og köldum körum eins og tíðkast hér heima. „Fyrir okkur hljómar þetta auðvitað mjög einfalt, en það er það ekki fyrir mörgum Ameríkönum,“ segir Styrmir. 

„Við höfum hlegið að því að þegar við höfum verið að stunda sánu í líkamsrækt í New York að þá er fólk oft í íþróttaskóm, ræktarfötum og fer ekki í sturtu. Það er líka með síma, heyrnartól og spjaldtölvur með sér.“ Stymir hlær og segist hjóma eins og sérviturt gamalmenni en ítrekar að vinirnir leggi mikið upp úr því að vörumerkið sé innblásið af íslenskum venjum og siðum.

Íslensk menning í Bandaríkjunum

Aðrir Íslendingar búsettir í New York hafa fagnað tilkomu fyrirtækisins og sakna þess að komast reglulega í sund. „Þetta er stór hluti af okkar arfleifð og menningu,“ segir Styrmir. „Það er helst það að fólk sé ánægt með að við séum að deila okkar menningu og innleiða  inn í amerískt samfélag. Þannig að maður finnur fyrir stolti líka.“

„Það sem við viljum gera er að búa til vöru sem samrýmist því sem sund er á Íslandi

Markmiðið með SUND er að gera útibaðaðstöður aðgengilegar í New York. „Það sem við viljum gera er að búa til vöru sem samrýmist því sem sund er á Íslandi,“ segir Styrmir. „Á Íslandi er sund úti um allt. Það er í korters fjarlægð frá þér eiginlega sama hvar þú ert á landinu.“ Styrmir, Alexander og Bjarki stefna á að halda verðpunkti aðgengilegum og vilja að gestir geti innleitt sundið í sína daglegu rútínu.

Spurður hvað sé það skemmtilegasta við að vera frumkvöðull í New York svarar Styrmir að það sé dásamlegt að vinna með vinum sínum. „Við erum þrír sem stofnuðum þetta og erum búnir að þekkjast síðan í menntaskóla.“ Hann segir það gaman að skapa fyrirtæki sem endurspeglar gildi þeirra Alexanders og Bjarka. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu